Fara í efni

"NASDAQ ICELAND" VILL UMBÆTUR!

Nadasq Iceland II
Nadasq Iceland II


Ég fékk það sem kallað er deja vu í vikunni sem leið. Deja vu þýðir að því er mér skilst þegar hið liðna bankar upp á þannig að tilfinningin verður sú að við séum í þann veginn að endurupplifa það sem áður var.

Tilefnið var umfjöllun Morgunblaðsins um hlutabréfamarkaðinn. Síðastliðinn miðvikudag greindi blaðið frá herhvöt forstöðumanns viðskiptasviðs Nasdaq Iceland (sem einu sinni lét svo lítið að kalla sig Kauphöll Íslands), að nú þurfi að láta hendur standa fram úr ermum svo almenningur fari  á nýjan leik að kaupa hlutabréf. Röksemd hans minnti á málflutning Margaret Thatcher, fyrrum formanns breska Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands. Þótt nokkrir áratugir skilji þau að eru þau nánast samhljóða í boðskapnum. Thatcher vildi tryggja kapítalismanum pólitískan bakhjarl í almenningi með því að gera sem flesta að kapítaistum þannig að þeir ættu persónulegra hagsmuna að gæta í velgengni þessa kerfis. Magnús Harðarson, talsmaður Nasdaq Iceland, orðar þessa hugsun Thatchers í miðvikudags Mogga þannig: "Þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði er mjög mikilvæg til að stuðla að góðri sambúð atvinnulífs og almennings. Aukin þátttaka er eitt af þeim umbótaverkefnum sem blasa við okkur..."

Síðan koma vangaveltur um hvernig hægt væri að láta ríkið niðurgreiða hlutabréfabrask með skattaívilnunum. Við erum minnt á að hlutur einstaklinga „í markaðsvirði" sé nú 4% borið saman við 11-17% á árunum 2002-2007 Eignarhlutdeild hlutabréfasjóða sé hins vegar meiri en í aðdraganda hruns eða um  10% sem bendi til þess að einstaklingar leiti meira til slíkra sjóða en á árunum fyrir hrun.

Hlutafélagaformið er ekki nýtt af nálinni. Það hefur ýmsa kosti. Þannig auðveldar það sölu á eignarhlutum í fyrirtækjum svo dæmi sé tekið. En svo er hitt að eigandinn er yfirleitt  fjarlægur rekstrinum, hefur fyrst og síðast áhuga á arðseminni og er því óáreiðanlegur og flöktandi og skapar fyrir bragðið óöryggi í rekstraumhverfinu. Á árunum fyrir hrun kölluðu fjölmiðlamenn nánast á degi hverjum á „sérfræðinga" til að ræða hvar reikna mætti með mestum gróða á morgundeginum!  

Og nú segja talsmenn hlutabréfamarkaðarins semsagt að endurvekja þurfi þennan tíma.  En getur það virkilega verið að slíkt myndi flokkast undir umbætur? Varla. Við þurfum þvert á móti á að halda atvinnulífi og rekstraraðilum þar, sem bera umhyggju fyrir fyrirtækjum sínum í blíðu en líka í stríðu en síður með hugann við ágóða frá mínútu til mínútu. 

Deja vu er raunveruleg tilfinning þessa dagana. Áhuginn á markaðsbraski fer vaxandi í fjölmiðlum og lotningin fyrir gróðahyggjunni virðist vera að koma aftur.

En vítin eru til að varast þau.