Fara í efni

Á AÐ BANNA ÖLDRUÐUM AÐ GANGA Á FJÖLL?

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 22/23.07.17.
Í vor bárust fréttir af dauðsföllum við köfun á Þingvöllum. Í kjölfarið varð talsverð umræða um reglur sem bæri að setja við köfun og heilbrigðisskilyrði og vottorð þar um. Svo var að skilja að fólki, sem komið væri á aldur eða hefði einhvern tímann fundið fyrir sting í hjarta, ætti að meina aðgang að djúpunum. Eflaust er þetta skynsamlegt. Og þó.

Það er nefnilega munur á því annars vegar, að setja fram varnaðarorð, mennta og uppfræða um hætturnar og að sjálfsögðu gera strangar öryggiskröfur til þeirra sem selja ferðamönnum þjónustu af þessu tagi, og svo hinu að banna fólki að taka sjálft upplýsta áhættu að einhverju leyti.

Þannig er það að sjálfsögðu hættulegra harðfullorðinni manneskju en lambungri að ganga á fjöll, og einhverjar líkur á að sú fyrrnefnda detti niður með hjartastopp eins og ótal dæmi sanna. En það er ekki þar með sagt að við viljum banna eldra fólki að ganga á fjöll. Eða kemur það ef til vill til álita?

Hann er vandfundinn hinn gullni vegur á þessu sviði sem öðrum; hversu langt eigi að ganga í því að reisa girðingar og setja boð og bönn. Sannast sagna þykir mér hönnuðum í mannvirkjagerð á ferðamannastöðum hafa almennt tekist prýðilega upp að þessu leyti. Köðlum og girðingum er haldið í lágmarki en þó þannig að öryggis er gætt og varnaðarorð eru uppi.

Sums staðar orkar mannvirkjagerðin tvímælis. Rukkunarskúrinn við Kerið í Grímsnesi og nýleg stigagerð þar fyrir fólk að príla upp og niður, dregur að mínu mati heldur úr ánægjunni að horfa ofan í þennan gamla eldgíg. En „eigendum" er vorkunn því þeir telja sig þurfa að koma einhverju af því fé í lóg sem þeir hafa - að vísu ólöglega - haft af ferðafólki sem komið er til að njóta íslenskrar náttúru.

Ef gengið er mjög langt í mannvirkjagerðinni er hætt við því að við fáum ekki notið hins ósnortna, nálægðarinnar við móður jörð. Burt frá henni værum við komin óralangt á upphækkuðum og sálarlausum Kjalarvegi svo nýlegt dæmi úr þjóðfélagsumræðunni sé tekið. Þeir sem hafa ferðast erlendis þekkja muninn á því annars vegar að kynnast náttúrunni og sveitasælunni á hindrunarlausum og þráðbeinum hraðbrautum og hins vegar á bugðóttum akvegum sem fylgja öldunum í landinu. Menn kynnast tveimur gerólíkum löndum.

Hingað til lands kemur fólk til að komast eins langt frá hraðbrautinni og kostur er. Sama á við um okkur landsmenn þegar við ferðumst um landið okkar til að njóta þess. Öðru máli gegnir náttúrlega um þau okkar sem telja það eitt skipta máli að koma kornflakespökkum á milli landshluta mínútunni fyrr.

Ef okkur er alvara að gera út á ferðamennsku sem atvinnugrein þurfum við að taka á henni sem slíkri og framkvæma í samræmi við það. Þá víkur hraðinn fyrir fegurðinni og forræðishyggjan fyrir eigin vali og þú færð að ganga upp á fjöllin jafnvel þótt þú sért kominn vel yfir áttrætt. Þegar allt kemur til alls, þá er þetta þitt líf.