VOPNABURÐUR LÖGREGLU ER ÓGN VIÐ ÖRYGGI OKKAR

LOGGAN 3

Ég leyfi ég mér að fullyrða að sýning á vopnuðum lögreglumönnum við samkomur fólks hefur engan fælingarmátt gegn illvirkjum. ENGAN.

Vopnuð lögregla ógnar þvert á móti eigin öryggi og öryggi borgaranna. Þetta var lengstum afstaða samtaka lögreglumanna og vísbendingar hafa komið fram um að afstaða almennings hafi til þessa verið á sama veg. Og hvað sem líður áliti annarra þá hefur mín afstaða ætíð verið þessi:  Vopnavæðingin færir okkur inn í vítahring stigmögnunar ofbeldis.

Við höfum vissulega sérsveit sem getur gripið til vopna í varnarskyni fyrir þjóðfélagið undir mjög sérstökum aðstæðum og allataf af augljóslega gefnu tilefni. Lögregluna á tvímælalaust að efla, eins og samstaða myndaðist um eftir niðurskurð hrunáránna, með fjölgun í liðinu og bættri aðstöðu í hvívetna. Vopn vega aldrei upp undirmönnunum, þvert á móti er það beinlínis hættuleg blanda.  

Í friðsömu þjóðfélagi er engu líkara en yfirvöldin séu að minna á að hér geti hent það sama og hent hefur víða um heim, einkum í þeim ríkjum sem hafa haft sig mest í frammi á ofbeldisfullan hátt fjarri sinni heimaslóð.

Við eigum að fara varlega í að stimpla okkur inn í stríðsátök.

Með vopnasýningunni á fjölskylduhátíð í Reykjavík nú um helgina var stigið skref sem verður að stíga til baka.
Birtist á Eyjunni : http://eyjan.pressan.is/frettir/2017/06/11/ogmundur-vopnaburdur-logreglu-er-ogn-vid-oryggi-okkar 

Fréttabréf