VILJUM VIÐ VOPNAÐA LÖGREGLU 17. JÚNÍ?

Bylgjan í bítið 2 réttÞeir Bylgjumenn, Heimir og Gulli, kölluðu okkur Brynjar Níelsson, alþingismann, í morgunþátt sinn, til að ræða hve langt eigi að ganga í að vígbúa íslensku lögregluna.
Ég er vopnavæðingu algerlega andvígur, tel hana meira að segja varasama til skamms tíma litið, auk þess sem hún býr okkur umgjörð til langs tíma, sem við eigum að forðast í lengstu lög.
Á Brynjari var að heyra að hann vildi ekki ganga langt í vígbúnaðinum en að við yrðum að treysta lögreglunni til að meta stöðuna í þessu efni. Ég tel hins vegar að ef matið og ábyrgðin hvílir aglerlega á herðum lögreglunnar sé hætt við því að hún sjái jafnan fyrir sér allt það sem verst gæti hent og ráðleggi síðan viðbrögð í samræmi við það. Hver vill að um sig verði sagt ef eitthvað hendir, það var þér að kenna!
Nálgunin á að vera önnur að mínu mati. Verum búin undir áföll en skipuleggjum ekki ALLT þjóðfélagið eins og að það standi frammi fyrir þeirri hættu á hverju augnabliki að verða sprengt í loft upp. 
Valkostirnir í viðbrögðum eru fleiri og aðrir en að hafa vopnaðar sveitir sprangandi um á meðal okkar. Þeir felast ekki síst í því að hafa hér vel mannað og vel búið  lögreglulið. Þetta er hinn raunverulegi valkostur sem Þjóðaröryggisráð hefði mátt ræða á margfrægum fundi sínum í gömlu loftvarnarbyrgi bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli fyrir fáeinum dögum. Hvers konar skilaboð eiga þetta annars að vera með þessu vali á fundarstað? Ég legg til að næst verði valinn fundarstaður sem hefur annað yfirbragð en að vera leikhús fáránleikans.  

Spjallið er hér: http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP55105

Sjá Eyjuna: http://eyjan.pressan.is/frettir/2017/06/15/thad-er-verid-ad-breyta-islandi-og-vid-eigum-ekki-ad-lata-thad-gerist-fyrrum-domsmalaradherra-um-vopnaburd-logreglu/

Fréttabréf