LOKAÐ! - ÖLL Í FRÍI!

LOKAD
Fór út í búð í morgun, en kom að lokuðum dyrum. Óvenjulegt í þjóðfélagi sem vill gera manni kleift að kaupa fiskibolludós klukkan fjögur að morgni - helst alla morgna. Og baráttumálið sem þykir brýnast er að fólk geti skemmt sér á Föstudaginn langa og hvers vegna ekki hafa opið á Aðfangadagskvöld? Og auðvitað hlýtur að þurfa að þurfa að opna á Hvítasunnudag! Verkefnin bíða.

Valið er um tvær leiðir:

a) Viljum við þjóðfélag sem er opið og þjónandi á öllum sviðum alltaf. Við það eru ýmsir kostir. En líka ókostir sem loka á hina leiðina.

b) Viljum við þjóðfélag sem takamarkar þjónustu suma daga. Með því móti eru fleiri sem geta gengið að því sem vísu að fjölskylda og vinir séu líka í fríi.

Ég er ekki beinlínis að hvetja til þess að hverfa aftur til þess tíma þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og lokað í júlí. En mín kynslóð man hve þá slaknaði á öllu og fólk fór út í garð. Yndislegt.

Sum þjóðfélög halda sæmilega fast í leið b). Í Þýskalandi er mér sagt að verslanir séu almennt lokaðar á sunnudögum, aðeins veitingastaðir og bráðnauðsynleg þjónusta opin.

Vissulega eru þetta tveir kostir. a) - leiðarfólk myndi velja fyrrihluta fyrirsagnarinnar á þessum pistli og vildu láta hann standa einan. b) - deildarfólk veldi hins vegar síðari hluta fyrirsagnarinnar til að minna á hve jákvætt það er og gott þegar allir eru í fríi saman að slaka á og vera samvistum við fjölskyldu og vini. 

Eftirmáli

En svo kemur eftirmálinn. Hann gæti heitið, "kemur vel á vondan". Ég hlóð bílinn fullan af kössum sem eiga að fara í geymslu sem við erum tímabundið með á leigu. Þegar búið var að stútfylla bílinn var brunað af stað. Mundi að lokunartími á sunnudögum er klukkan þrjú og nú var klukkan orðin hálf. En viti menn allt lokað. Gefið var upp símanúmer og hringdi ég í það og spurði hvernig stæði á því að búið væri að loka og klukkan ekki nema hálf þrjú. Það vottaði fyrir höstugheitum í spurningunni. "Það er vegna þess að í dag er Hvítasunnudagur og þá er frí", sagði rödd Securitas-mannsins.
Fyrirspyrjandi varð það sem kalla má með sanni kjaftstopp!    

Fréttabréf