Fara í efni

HVENÆR VERÐUR HEILBRIGÐISRÁÐHERRA KOMINN NÓGU LANGT?

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í Morgunblaðinu 30.01.17.
"Ef fordómum í garð einkarekstrar væri ýtt til hliðar mætti leysa margan heilbrigðisvanda", segir í leiðara Morgunblaðsins, sl. föstudag og er þar vitnað til orða forsvarsmanna einkasjúkrahússins sem nefnist því erfiða heiti, Klínikin.
Þetta fær illa staðist. Það er vandséð að það geti verið rétt að ef almenningur, stjórnmálamenn og heilbrigðisstéttir, létu af andstöðu gegn einkavæðingu heilbrigðiskerfisins, hyrfi allur vandi þess eins og dögg fyrir sólu.

Hvað með allan hinn vandann?

Spurningin er hvaða áhrif einkavæðingin hefði bæði á fjárhagsvandann og skipulagningu heilbrigðiskerfisins.Við höfum þegar heyrt hvert mat stjórnenda Landspítalans er að þessu leyti.
Ef ótakmarkað fé væri fyrir hendi og vinnuaflið til staðar, segir það sig sjálft að allt viðbótarfjármagn inn í kerfið minnkar vandann. En málið er að sjálfsögðu margslungnara en svo.
Einkavæðingin sem nú er talað fyrir er frábrugðin einkarekstri einyrkjanna sem stunda sitt fag einir á báti eða í samlegð með öðrum. Til slíks rekstrar þekkjum við vel á Íslandi og hef ég margoft talað fyrir því að hófleg blanda af einkapraxís og almannarekinni þjónustu kunni að vera í lagi, það er að segja, ef einkarekstrinum er haldið í skefjum og hann aldrei látinn soga til sín óhóflegt fjármagn sem því miður hefur orðið raunin í seinni tíð. Munurinn hins vegar á slíkum rekstri og einkareknu sjúkrahúsi á borð við Klínikina, er sá að nú eru komnir til sögunnar fjárfestar sem ætla að hafa arð af starfseminni og vel að merkja eru byrjaðir að dæla hundruðum milljóna ofan í sína vasa.

Vilja að skattgreiðendur borgi eigendum arð!

Það er því óneitnalega svolítið óþægileg tilfinning að hlusta á talsmenn Klíníkurinnar, sem er fyrirtæki hugsað sem gullgerðarvél fyrir eigendur sína, tala fyrir því að skattgreiðendur borgi allt það sem þeim detti í hug að framkvæma. Í umræddum leiðara er vitnað með velþóknun  í framkvæmdastjórann sem segir að það sé "bjargföst trú þeirra sem ynnu á Klíníkinni að ríkið ætti að fjármagna heilbrigðiskerfið og að greiðsluþátttaka sjúklinga ætti að vera sem minnst." Prýðilegt, en hvað með arðinn? Á ríkið, það er, við sem skattgreiðendur, líka að borga hann? Hundruð milljóna? Hvers vegna í ósköpunum ættum við að gera það?

Víglína Kristjáns Þórs

Ég hélt að seint færi ég að sjá eftir síðasta heilbrigðisráðherra, sjálfstæðismanninum Kristjáni Þór Júlíussyni, en hann bjó þó til eina víglínu þótt hann léti hrekjast undan á öðrum sviðum. Þessi víglína var mikilvæg en hún var sú, að ríkið ætti ekki að fjármagna einkarekna heilbrigðisþjónustu ef henni væri ætlað að skapa eigendunum arð. Þegar Kristján Þór fór að bjóða út rekstur heislugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu í gríð og erg samkvæmt forskrift Miltons Friedmans, sem sagði að allra meina bót væri að láta sjúklinga vera á stöðugu vafri um kerfið í leit að "góða lækninum."
Þeir sem reka heilbrigðiskerfi vita hins vegar hvers konar óhagræði af þessu hlýst og hvað þetta þýðir fyrir þá sem eru að skipuleggja ráðstöfun takmarkaðra fjármuna á eins hagkvæman hátt og kostur er. Og höfum hugfast að þrátt fyrir alla vankanta á íslenska heilbrigðiskerfinu var það lengi vel mat OECD að hvergi væri betri nýtung á fjármunum en í íslenksa heilbrigðiskerfinu.
Þannig að þegar allt kemur til alls, eru meiri veikleikar fólgnir í tilvitnuninni í upphafi þessarar greinar en mörgum kann að virðast við fyrstu sýn, bæði veikleikar af fjárhagslegum og skiplagslegum toga.

Andstaðan er ekki byggð á fordómum!

Án þess að hafa rannsakað það sérstaklega, þá geri ég ráð fyrir því að hugtakið fordómar, sem vísað er til í tilvitnuninni, byggi á því að dómur sé felldur um málefni án þress að málavextir séu kunnir. Menn gefi sér, með öðrum orðum, niðurstöður fyrirfram, að óathuguðu máli, dæmi fyrirfram.
Nú er það svo að þessi umræða um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar er ekki ný af nálinni. Heita má að hún hafi verið mál málanna undangenginn aldarfjórðung.
Maður hefði því haldið að stjórnmálamenn væru flestir með á nótum um málefnið og hefðu á því úthugsaða skoðun. Þeir séu því í stakk búnir að taka afstöðu, ekki á grundvelli fordóma heldur á fullkomlega málefnalegum forsendum. Því er það að mínu mati hreinlega út í hött að halda því fram að andstaða gegn einkavæðingu heilbrigðiskerfisins byggist á fordómum; þvert á móti byggir hún á staðreyndum og reynslu.
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, var spurður í fjölmiðlum á þá leið hvort hann myndi heimila eigendum einkasjúkrahúss að seilast ofan í vasa okkar skattgreiðenda. Hann sagðist "ekki vera kominn svo langt" að hann gæti svarað þessari spurningu.

Örlagarík niðurstaða

Ég ætla að spara alla vandlætingu þótt ég þurfi að taka mig talsvert á til þess; hélt einfaldlega að ráðherra heilbrigðismála hefði mótaða afstöðu til þessa grundvallarmáls.
Skipulag heilbrigðiskerfisins er flókið viðfangsefni en þær spurningar sem Óttar Proppé, heilbrigðisráðherra, stendur frammi fyrir eru hins vegar sáraeinfaldar. Á heilbrigðiskerfið að verða eins og hver annar bisniss og ennfremur, eiga viðskiptahagsmunir að móta farvegi heilbrigðiskerfisins inn í framíðina? Spurningarnar eru skýrar og í reynd einfaldar. Svörin eru þeim mun örlagaríkari.