Fara í efni

VOPNIN KVÖDD Á ALÞINGI

Uppgjöf
Uppgjöf


Eitt stærsta þingmál síðustu ára er frumvarp ríkisstjórnarinnar um skerðingu lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna. Það rennur í gegn átakalaust.  Ömurlegt var að hlýða á málflutninginn á Alþingi um „samræminguna", sem þingmenn héldu varla vatni yfir. Yfirlýsingarnar voru hástemmdar: „Gríðarlegt framfaraskref" , „söguleg stund" og  "afreksverk". Eitthvað á þessa leið hljóðaði það.  

Frá mínum bæjardyrum séð er þetta hins vegar eins langt frá því að vera afrek og hugsast getur og náttúrlega engin framför heldur afturför. Og fyrir þingið var þetta álíka átakamikið og fyrir rennandi vatn í góðum halla. Frá því ég kom inn á vettvang verkalýðsbaráttunnar fyrir tæpum fjörutíu árum hefur slagurinn gengið út á það hjá opinberum starfsmönnum að berjast gegn því sem nú hefur gerst, nefnilega að samræming réttinda verði niður á við. Þetta hefur fram til þessa tekist bærilega og orðið til þess að lífeyrisréttindi almenna markaðarins hafa verið bætt verulega og þannig átti náttúrlega að halda verkinu áfram, samræma réttinn uppá við.

Innan verkalýðshreyfingarinnar hefur hins vegar alltaf verið ágreiningur um hve mikla áherslu bæri að leggja á efri árin. Ég hef litið á lífeyrisréttindi sem algert grundvallaratriði og verið reiðubúinn að fórna kaupmætti yngri áranna að einhverju leyti til að tryggja gott ævikvöld. Þar hafa öll samtök opinberra starfsmanna verið samstiga. Þar til nú að þau sameinast um að fórna lífeyrisréttindum á þeirri forsendu að ASÍ, SA, ríki og sveitarfélög lofi því að tryggja þeim stórbættan kaupmátt. Þar fullyrði ég hins vegar að ekkert er í hendi. Í reynd er ekkert í hendi annað en skerðingin. Og látum við þá liggja á milli hluta að ákvörðunar- og framkvæmdavaldið í þessu efni liggur hvorki hjá SA né ASÍ þótt oftar en ekki hafi verið á þessum aðilum að skilja að þannig vildu þeir hafa það.  

Hver þingmaðurinn á fætur öðrum kvaðst tala af umhyggju fyrir ungu kynslóðinni. Það þyrfti að passa upp á hana. Það er hins vegar hún sem á að fara að skerða! Hinir eldri hafa allt sitt á þurru! Og hverjir skyldu hafa samið um þetta aðrir en hinir eldri!  Síðan er það náttúrlega hitt, hve kostulegt það er að heyra þingmenn fórna höndum vegna skattbyrði komandi kynslóða til að tryggja lífeyrisréttindi. Réttindin verði að skerða ella komi skattbyrðin til með að verða óbærileg. En hver á að borga inn í launaumslag opinberra starfsmanna, sem okkur er sagt að verði þykkara en nokkru sinni fyrr? Skyldi það ekki vera hinn sami skattborgari? Þið munið, það átti ekki að skerða kjörin, krónurnar áttu að verða jafnmargar!

Veruleikinn er sá að nú hefur sá draumur ræst að færa lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna niður samkvæmt gamalli kröfu Samtaka atvinnurekenda og því miður Alþýðusambands Íslands - það er hin napra staðreynd eins ömurlegt og það er að þurfa að segja það. Alþingi rekur nú smiðshöggið á verkið með því að styðja á atkvæðistakkann. Það er afreksverkið sem þingmenn gumuðu af í umræðu um málið. Alþingi hefði getað stöðvað þetta ólukkans mál - það hefði ekki þurft fjölmenna sveit til þess. En til þess hefði þurft vilja, öflugri en þann sem gengur út á það fyrst og síðast að leggja niður öll vopn svo ljúka megi þingi sem fyrst.