REFSIVALDI BEITT Í FJÖLMIÐLUM

Einstaklingur hlýtur dóm fyrir áreiti. Hann er sagður hafa tekið
í buxnastreng drengs í heitum potti sundlaugar og haft við hann
óviðurkvæmileg ummæli.
Þau ummæli hafa nú verið rækilega tíunduð í fjölmiðlum - alls ekki
öllum þó - undir myndbirtingu af viðkomandi einstaklingi.
Svívirðilegt ofbeldi viðgengst. Stundum er dæmt og stundum sýknað.
Umrætt brot fellur tæpast undir alvarlega ofbeldisglæpi. Fjarri
því. Samt refsar dómstóll með tveggja mánaða fangelsi
skilorðsbundnu og milljón í miskabætur! Síðan kemur fjölmiðill með
sína refsingu, myndbirtingu af hinum dæmda manni.
Hvaða viðmið skyldi viðkomandi fjölmiðill setja sér hvað varðar
myndbirtingar? Hvernig væri að byrja á hinum endanum og birta þá
myndir af ótvíræðum ofbeldismönnum sem ástæða er að vara við?
Almennt hefði ég þó einnig efasemdir um að það væri rétt.
En aftur að þessu tiltekna tilfelli. Gæti verið að til séu
einstaklingar sem almennt skotleyfi er á og allt leyfilegt gagnvart
þeim?
Sá einstaklingur sem hér um ræðir sætti lengi eineltis - mjög
alvarlegs - vegna þess að hann hafði vogað sér að gera það sem fáir
þorðu á þeim tíma: Fara gegn straumnum í náttúruverndarmálum
almennt og varðandi hvalveiðar sérstaklega, sem hann vildi
banna. Það var ekki vel séð á þeim tíma og því út gefið skotleyfi á
manninn - óopinbert að sjálfsögðu og með ósögðum orðum.
Ég leyfi mér nú að spyrja, hvar Blaðamannafélag Íslands sé að finna
en mig langar til að vekja athygli þess virðulega félags á
ósæmilegri framkomu fjölmiðla í garð þess einstaklings sem hér um
ræðir, bæði fyrr og nú.