HVERNIG FÓRUM VIÐ AÐ ÞVÍ AÐ KOMAST FRÁ DREKKINGARHYL OG INN Í SAMTÍMANN?

Hinn 25. nóvember sl. ávarpaði ég aðalafund Dómarafélags Íslands og tók síðan þátt í pallborðsumræðu. Til fundarins var mér boðið sem (fráfarandi) formanni Stjórnskipunar- og eftilritsnefndar Alþingis en auk mín og Skúla Magnússonar, formans félagsins, ávörpuðu fundinn, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og færði fundinum kveðjur Ólafar Nordal innanríkisráðherra - og Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands.
Bæta þarf stjórnsýslu dómstólanna
Í ávarpi mínu kvað ég það vera góða hefð sem væri að myndast á
aðalfundum Dómarafélags Íslands að heyra sjónarmið allra þátta hins
þrískipta ríkisvalds, dómsvaldsins, framkvæmdarvaldsins og
löggjafarvaldsins en ég liti svo á að ég væri fulltrúi hins
síðastnefnda. Sem formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar væri
ég ekki aðeins fulltrúi Alþingis sem löggjafa heldur einnig sem
aðhalds- og eftirlitsaðila með framkvæmdarvaldinu.
Hóf ég mál mitt á því að vitna í bréf Stjórnskipunar- og
eftirlitsnefndar til innanríkisráðherra frá því undir þinglokin þar
sem gerð var grein fyrir ýmsum brotalömum sem nefndin taldi að
þyrfti að lagfæra í stjórnsýsluumgjörð dómstólanna. Komu þessir
þættir m.a. til umræðu í pallborði síðar á fundinum.
Innanríkisráðherra tengir Alþingi eftirliti með lögreglu
Þá gerði ég grein fyrir því að í meðferð Alþingis á
sakamálalöggjöfinni þar sem á meðal annars voru samþykktar
breytingar á heimildum til lögreglu til símhlerana og notkunar á
eftirfararbúnaði, hefði verið komið inn í lögin ákvæði þess efnis
að við gildistöku þeirra skyldi ráðherra láta "kanna og greina
leiðir í því skyni að veita lögreglu aðhald við rannsókn
mála..."
Ekki er deilt um að þessar nýgerðu lagabreytingar eru til
góðs en jafnframt að eftirlit og aðhald þurfi að tengjast Alþingi.
Út á það gekk þetta framangreint ákvæði í lögunum. Ég greindi frá
því á fundinum að ég hefði nú fengið í hendur erindi frá Ólöfu
Nordal, innanríkisráðherra þar sem hún færi þess á leit við mig að
ég stýrði þessari vinnu og hefði ég ákveðið að verða við því. Ég
hefði kynnt fulltrúum allra flokka á þingi þessi áform ráðherrans
og fengið grænt ljós frá þeim öllum enda hefði ég ekki viljað taka
þetta verkefni að mér án þess að ég nyti fulls trausts allan
hringinn um borðið.
Bankahrun og réttarfar
Eftir bankahrunið á Íslandi var almennt spurt um sök og
ábyrgð. Segja má með sanni að almenningsálitið hafi viljað láta
rannsaka hvað setti þjóðarskútuna á hliðina, finna hvað var á skjön
við gott siðferði og hvað var brot á lögum og reglum og láta þá
svara til saka sem brotið höfðu af sér.
Settar voru niður rannsóknarnefndir og skrifaðar ítarlegar
skýrslur. Stofnað var embætti sérstaks saksóknara til að fara með
efnahagsbrot og fengin erlend ráðgjöf til að aðstoða okkur við að
skoða málin "utanfrá".
Landsdómur var kallaður saman að boði Alingis til að rétta í máli
fyrrum forsætisráðherra og vinnu var hrint af stokkunum til að
endurskoða lög sem ekki þóttu svara kalli tímans.
Ekki hnökralaust
Ekki var þetta ferli allt hnökralaust fremur en almennt gerist um mannanna verk. Þannig tel ég að við höfum gert rangt í því að kalla saman Landsdóm og niðurstaða hans hafi líka verið röng jafnvel þótt forsætisráðherrann fyrrverandi hafi verið "sýknaður" af flestum sökum sem á hann voru bornar. Hið ámælisverða var að hafa yfirleitt kallað Landsdóm saman. Hann hefði aldrei getað sakfellt, hvað þá sýknað, stjórnmálastefnu sem skapaði umgjörðina um efnahagshrunið og átti drjúga sök á því. Dóma yfir stjórnmálastefnum á ekki að kveða upp í dómssölum heldur í kjörklefum.
Þarf tíðarandinn ekki að eiga aðkomu að
réttarsalnum?
Ég sagði í ávarpi mínu að ég minntist umræðunnar á síðasta
aðalafundi Dómarafélagsins. Þar hefði verið varað við sviptivindum
í samtímanum þegar réttarkerfið væri annars vegar; að dómstólar
mættu ekki láta almenningsálitið ná inn í réttarsalinn. Nú, á nýjan
leik færi fram á síðum dagblaða umræða um hina "illu" dómara,
stjórnmálamenn og jafnvel embættismenn sem létu stjórnast af
illviljuðu almenningsáliti. Mig langaði hins vegar nú að taka upp
hanskann fyrir "almenningsálitið" eða "tíðarandann", og spyrja
hvort það sé alrangt að hann eigi einhverja innkomu í
réttarkerfið. Í framhaldinu sagði ég:
Hagsmunatengdar varnir
"Auðvitað á réttarkerfið ekki að byggja á öðru en lögum og
reglum og í þeim skilningi eiga dutlungar augnabliksins aldrei
erindi inn í réttarsalinn. En til er eitthvað sem heitir andi
laganna og sá andi tekur breytingum. Þannig hafa áherslur innan
lagaramma réttarfarsins breyst í tímans rás án þess að lögum hafi
verið breytt.
En þetta gerist ekki alltaf án átaka. Eva Joly, þekktur rannsakandi
í fjárglæframálum í Evrópu, sagði í upphafi þessa ferils hér á
landi að hann yrði erfiður. Sérstaklega þegar réttarhöldum lyki og
dómar yrðu upp kveðnir. Þetta hefur gengið eftir.
Dæmdir bankamenn og stuðningsmenn þeirra í hvítflibbaheimi
viðskitpa/stjórnmála/keyptrar lögfræðiþjónustu og ekki síst
hagsmunatengdrar fjölmiðlunar, fara mikinn, samfara
dómsuppkvaðningunum og í kjölfar þeirra einnig.
Vörnin er svohljóðandi: Almenningsálitið má ekki ráða
dómskerfinu.
Á dómskerfið ekki að taka breytingum?
Með öðrum orðum, þótt þjóðinni hafi misboðið og almennt vilji menn
láta þá sem gróflega brutu af sér í heimi fjármálanna svara til
saka, þá eigi dómstólar alls ekki hlusta á slíkt. Enda séu dómar í
efnahagsbrotamálum nýlunda hér á landi og tíðkist reyndar
óvíða.
En þá spyr ég: Á dómskerfið að staðna og ekki endurspegla breyttan
tíðaranda? Og vilji menn breyttar áherslur í samræmi við þróun
lýðræðis- og mannréttindaþjóðfélags, hvernig telja menn að
breytingarnar verði, hvar er breytingahvatana að finna? Í
lögfræðideildum háskólanna, í réttarsölum, í vanagveltum
heimspekinga, í almennri þjóðfélagsumræðu, kröfum
verkalýðshreyfingar, ákalli trúarbragða, listamanna,
umhverfissamtaka, mannréttindahreyfinga? Hvering fórum við að því
að komast frá Drekkingarhyl og inn í mannréttindaákvæði
stjórnarskrár og laga sem kveða á um frelsi einstaklingsins til
orða og athafna?
Þannig verður tíðarandinn til
Ætli það sé ekki í einhverri blöndu af þessu öllu sem
tíðarandinn verður til og eflaust ýmsum öðrum þáttum sem móta
umhverfi okkar.
Stundum hefur hvatinn til breytinga komið innan úr kerfinu og
"ofanfrá" einsog til dæmis gerðist með Upplýsingunni á átjándu
öldinni og öndverðri hinni nítjándu hér á landi. Magnús Stephensen,
helsti málsvari Upplýsingarinnar á Íslandi gerbreytti áherslum í
íslenska réttarekerfinu í anda Upplýsingarinnar og menn á borð við
Hjörleif Guttormsson, Andra Snæ Magnason og fleira baráttufólk
fyrir umhverfisvernd hefur sömuleiðis haft mikil áhrif í þá veru að
horft sé til réttinda sem upp úr vitundarvakningu um umhverfisvernd
eru sprottin og margir vilja nú festa í stjórnarskrá.
Sama er að gerast varðandi réttindi barna, fatlaðs fólks, þolenda
ofbeldis. Tíðarandinn krefst þess einfaldlega að réttindi þessara
hópa endurspeglist í réttarkerfinu og í dómum sem upp eru
kveðnir.
Mannréttindi í sókn
Er það slæmt? Gætum við ekki öll fallist á að þjóðfélagið hafi
þokast talsvert fram á við síðustu aldirnar hvað varðar
mannréttindi og almannarétt? Ef svo er, gætum við þá ekki líka
fallist á að tíðarandinn sem endurspeglar þessar viðhorfsbreytingar
eigi heima í réttarkerfinu og upp kveðnum dómum þar? Ég held að
flestir telji svo vera.
Og þótt við kunnum oft að vera ósátt við ríkjandi viðhorf -
almenningsálitið - þá spyr ég engu að síður hvort það sé virkilega
svo að haf og djúp skilji á milli tíðaranda annars vegar og
almenningsálit hins vegar í málvitund okkar?
Almenningsálitið kveður að sjálfsögðu ekki upp dóma - og á ekki að
kveða upp dóma, alls ekki, enginn leggi það út af orðum mínum - en
dóms- og réttarkerfi, sem endurspeglar ekki tíðarandann, siðferðis-
og réttarvitund samfélagsins, hvílir ekki á traustum grunni."
Pallborð um stjórnsýslu, dómhörku stjórnmálamnna og "formgallaréttarkerfið"
Í pallborðsumræðunni sem fram fór að loknum ávarpsorðum var
einkum fjallað um stjórnsýslu dómstólanna og aðkomu réttarkerfisins
að opinberri umræðu. Var lagt út af ýmsu sem fram hafði komið í
ræðum manna, þar á meðal þeirri gagnrýni formanns Dómarafélagsins á
stjórnmálamenn sem iðulega gerðust stóryrtir um dóma og vísaði hann
þar m.a. í viðkvæm barnaverndarmál þar sem alþingsmenn hefðu líkt
dómum við "mannréttindabrot" og talað um "barnsrán", og vildu þeir
gleyma því að verið væri að dæma samkvæmt lögum og reglum sem þeir
sjálfir hefðu sett. Varðandi stjórnsýslu dómstólanna benti ég á það
sem ég hef stundum nefnt að mér viritist réttarkerfið hér á landi
vera að færast í átt að "formgallaréttarkerfi" Bandaríkjanna
þar sem sveitir lögfræðinga kæmu ríkum skjólstæðingum sínum undan
réttvísinni með því að finna formgalla í málsmeðferð.
Þetta væri hins vegar ekki bundið við hvítflibbamenn. Fleiri væru
færir um að finna formagalla eis og dæmin sanni. Slíkir formagallar
hefðu fundist í stjórnsýslu dómstólanna hér á landi. Hvort sem
ríkir eða snauðir ættu í hlut vildum við ekki að leiðir skildu með
réttlætinu og niðurstöðum dómstóla. Ef þarna yrði aðskilnaður
myndi fljótlega fjara undan trausti fólks á dómstólunum.