FÉLAGSAMÁLALNEFND EVRÓPURÁÐSINS: VERKALÝÐSBARÁTTA DREGUR ÚR MISSKSIPTINGU

Evrópuráð - fánar
Í gær kom ég heim af tveggja daga fundi á vegum Evrópuráðsins í Flórens á Ítalíu. Yndisleg borg Flórens,  aðflugið minnti á Sauðárkrók og hæðirnar sem Krókurinn hjúfrar sig inn í. Við gömlu borgina og fornar byggingar hennar, keppir Sauðárkrókur þó ekki. En á móti kemur að Flórens er hvorki með Tindastól né Drangey í augsýn.

Erindi mitt var að sækja fund félagsmálanefndar Evrópuráðsins. Þótt ég sé ekki lengur alþingismaður er ég engu að síður enn fulltrúi Íslands á þingi Evrópuráðsins og verð það þangað til ný þingmannanefnd nýkjörins Alþingis, sem enn á eftir að skipa, verður samþykkt á þingi Evrópuráðsins í Strasbourg. Það gerist í janúar.

Til umfjöllunar á fundinum í Flórens var skýrsla sem ég hef unnið að, og er sett fram í mínu nafni, um stöðu verkalýðshreyfingar í Evrópu. Verulega hefur verið þrengt að réttarstöðu hennar, sumpart í tengslum við efnahagsþrengingar undangenginna ára. Á sama tíma eykst ójöfnuður í álfunni og bendir margt til þess að tengsl séu þarna á milli.

Í ályktunartillögum sem settar eru fram í skýrslunni eru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til þess að virða evrópska og alþjóðlega sáttmála um réttarstöðu verkalýðshreyfingarinnar og vinna að því að efla þá og styrkja og jafnframt vinda ofan af löggjöf sem sett hefur verið á undanförnum árum verkalýðsbaráttu til höfuðs.

Verkalýðshreyfinguna hvet ég í greinargerð minni til að horfa gagnrýnið inn á við og minnast þess að hún þurfi að vera sjálfri sér samkvæm í orðum og gjörðum. Nefni ég í skýrslunni sérstaklega lífeyrissjóðina sem verkalýðshreyfingin haldi utan um. Ekki gagnrýni ég utanumhaldið en bendi á að þar megi hins vegar sú staða ekki skapast að sami aðili og beitir sér fyrir gjaldfrjálsri velferðarþjónustu á vegum hins opinbera leiti jafnframt eftir fjárfestingarkostum í einkavæddum innviðum.

Á þessum fundi Félagsmálanefndar Evrópuráðsins  voru greidd atkvæði um skýrsluna og einstakar greinar hennar og hlaut hún einróma stuðning. Þingmenn sem áður höfðu haft sig í frammi gegn þessari vinnu og yfirleitt málflutningi til stuðnings verkalýðsbaráttu létu ekki til sín taka hvað sem síðar verður þegar þing Evrópuráðsins fær skýrsluna til endanlegrar afgreiðslu í janúar.

Skýrslan verður ekki til birtingar fyrr en þá.  

Á þessum fundi félagsmálalnefndarinnar var fjallað um fleiri skýrslur og þótti mér sérstaklega markverð skýrsla um hina fjölþjóðlegu viðskiptasamninga TiSA, TTIPS og CETA en sá síðastnefndi er samningur Evrópusambandsins við Kanada og er hann nánast kominn upp á undirskrifatarborðið mörgum til hrellingar.

Síðari dag þessa fundahalds var fjallað um ofbeldi gegn börnum og leiðir til að sporna gegn því. Þar með lýkur aðkomu félagsmálalnefndarinnar að vitundarvakningarátaki sem varað hefur frá 2010. Átakið skilaði sér á meðal annars til Íslands en í tíð þar-síðustu ríkisstjórnar var unnið að málum sem átakið snerti og fullyrði ég að það hafi skilað mikilvægum árangri. Að þessu hef ég oft vikið í blaðagreinum og hér á heimasíðunni, m.a. nú nýlega í kjölfar þess að ég sat fund í Wilton Park á Suður-Englandi þar sem ofbeldi gegn börnum var á dagskrá og framangreint átak Evrópuráðsins.
Sjá m.a.: http://ogmundur.is/annad/nr/7979/

Fréttabréf