Fara í efni

UNDRALAND MIÐJUSÆKINNA HÓFSEMISAFLA

Lísa í Miðjulandi
Lísa í Miðjulandi


Ég hef hingað til bara haft gaman að Pawel Bartoszek, hann er ferskur og hefur verið óhræddur að koma til dyranna eins og hann er klæddur. Gangast við sjálfum sér. Það er að segja hingað til.

Úr gömlu blaðaviðtali minnist ég frásagnar hans af rölti á milli kosningaskrifstofa flokkanna, sennilega einhvern tímann upp úr aldamótum, þar sem hann vildi heyra sjónarmið forsvarsfólks og áherslur framboðanna. Á þessu rölti sínu mun Pawel hafa komið á skrifstofu VG. Þar hafi hann hitt fyrir undiritaðan. Að spjalli okkar loknu, segir Pawel frá, að svo hafi þyrmt yfir sig að hann hafi ákveðið að skipa sér þar í pólitíska sveit sem fjærst stæði Ögmundi Jónassyni!

Þetta ætlunarverk hygg ég að honum hafi nú tekist bærilega sem þingmanni Viðreisnar. En viti menn, Pawel Bartoszek stendur ekki lengur fjærst neinum manni, hvorki mér né öðrum. Pawel Bartozek er nú orðinn „frjálslyndur miðjumaður". Gefum honum sjálfum orðið, sbr. vefritiið Eyjuna: „Það hefur líklegast aldrei verið jafn sterkur og fjölmennur hópur á Alþingi Íslendinga af frjálslyndum miðjumönnum. Það er ákveðið tækifæri og okkar ábyrgð að reyna að nýta það".

Það er nefnilega það.

Ég hef hingað til talið mína pólitík vera sæmilega hófstillta. Ég hef ekki viljað selja almannaeignir í hendur gróðaafla og viljað standa vörð um náttúruna, stuðla að jöfnuði í samfélaginu, velferðarkerfi sem ekki mismunar og að réttindi minnihlutahópa væru jafnan virt.

Mér hefur fundist ég vera eins konar frjálslyndur miðjumaður.

Hægri sinnaðir markaðshyggjumenn hafa á hinn bóginn litið á sjónarmið mín sem öfgafulla vinstripólitík og hef ég látið mér það í léttu rúmi liggja enda alltaf viljað gangast við vinstri sinnuðum sjónarmiðum mínum af fyrrgreindum toga. Ég hef einnig vel getað fallist á að líta á þá sem miðjumenn sem er sama hvor leiðin farin er, einkavæðing eða almannavæðing, samkeppni eða samvinna.

Þannig hefur til dæmis Framsókn viljað láta skilgreina sig - opin í báða enda. Á grundvelli afstöðuleysis til átakamálanna hefur Framsókn fundið út að miðjan hljóti að skilgreinast sem værukærð og afstöðuleysi, alla vega að því marki að geta unað við hvora niðurstöðuna sem er, þótt ég verði að játa að mér finnist Framsókn ekki gera sjálfri sér hátt undir höfði með slíku tali og eiga reyndar miklu betra skilið í ljósi hugsjónabaráttu samvinnumanna innan hennar vébanda í gegnum tíðina. En þannig hafa framsóknarmenn engu að siður viljað hafa þetta, vera miðjumenn. 

En nú semsagt eru frjálshyggjumennirnir Pawel, Þorsteinn Víglundsson, SA forstjóri, og Benedikt formaður líka orðnir miðjumenn og Hanna Katrín Friðriksson, sem getur ekki beðið eftir „skipulagsbreytingum" í heilbrigðiskerfinu, er líka þarna á róli; allt þetta fólk sýnist mér hætt að vilja gangast við sjálfu sér, hætt að vera til hægri eða aðhyllast ýtrustu markaðshyggju, nú er það bara miðjufólk og ekki nóg með það,  "frjálslynt miðjufólk".

Hvar skyldi ég nú staðsetjast á þessu nýja pólitíska landakorti? Svei mér þá, lái mér hver sem vill, alveg er ég að verða kolruglaður eins og henti hana Lísu þegar hún gekk inn í Undraland höfundar síns, Lewis Carroll.

Það verður fróðlegt að skyggnast um í nýju Undralandi íslenskra stjórnmála á komandi tímum þar sem allir eru orðnir frjálslyndir og gæfir miðjumenn - alla vega á meðan verið er að umbylta velferðarþjóðfélaginu í anda nýuppgötvaðrar hófsemi.  

sjá m.a. http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/11/04/ef-thid-erud-hofstilltir-midjumenn-tha-er-eg-lisa-i-undralandi/