MANNRÉTTINDI VERÐI OKKAR ÆR OG KÝR

Mannréttindi - alþjóðamál

Í vikunni sem leið sat ég ráðstefnu sem haldin var að frumkvæði Evrópráðsins en með aðkomu fulltrúa nánast allra stofnana sem á heimsvísu vinna að barnaverndarmálum, Sameinuðu þjóðanna svo og fjölmargra samtaka og stofnana annarra, í Wilton Park á Suður-Englandi. Innan Evópuráðsins fer íslenk kona, Regína Jensdóttir, fyrir þessum málaflokki og var hún einn helsti skipuleggjandi þessarar mjög svo fróðlegu og gefandi ráðstefnu.

Almennt virtust flestir ráðstefnugestir þekkja til íslenska Barnahússins og hver fyrirmynd og hvatning það hefði orðið öðrum þjóðum. Nánast allir ráðstefnugestir þekktu til þess og margir vísuðu til frumkvæðis Íslands í erindum sínum og í almennri umærðu. Bragi Guðbrandsson - Braggi Gúdbrandsen - forstöðumaður Barnaverndarstofu, var rástefnugestum einnig að góðu kunnur, en hann hefur gegnt mikilvægu hlutverki á alþjóðavettvangi, m.a. verið formaður svokallaðrar Lanzerotenfndar, sem hefur þessi mál á sinni könnu hjá Evrópuráðinu.

Ég átti samræður við ýmsa sem hafa komið að  stofnun og starfsemi Barnahúsa að íslenskri fyrirmynd og  en þau spretta nú víða upp. Þannig hafa Lundúnabúar á prjónunum, svo nýjasta dæmið sé nefnt, áform um að setja á laggirnar tvö slík hús, annað í Suður-London og hitt í Norður-London.

Sjálfur var ég boðinn á þessa ráðstefnu sem einstaklingur en þó einnig sem fyrrum innanríkisráðherra í ríkisstjórn sem lét barnaverndarmál sig miklu skipta og þá ekki síst leiðir til að stemma stigu við ofbeldi gegn börnum.

Ég reyndi eftir bestu getu að miðla upplýsingum af okkar reynslu og þá einkum mikilvægis þess að fá "kerfið" til að tala saman, grasrótarsamtök, lögreglu, fræðimenn, saksækjendur og barnaverndaryfirvöld.

Nokkrum sinnum hef ég skrifað um þessi mál hér á síðuna og einnig í blöð, þar á meðal grein sem mig langar til að vekja athygli á að nýju, en hún fjallar um það hve mikilvægt er að við höslum okkur völl í alþjóðlegu starfi þar sem við getum látið gott af okkur leiða. Þetta ætti tvímælalaust að vera slíkt málasvið.
 
Sjá meðfylgjandi grein um þessa hlið málsins: http://ogmundur.is/annad/nr/7686/

Fréttabréf