Á AÐ LÖGSÆKJA VERULEIKANN EÐA BREYTA HONUM?

Þingmaður segist ætla að stefna Kjararáði vegna nýuppkveðins úrskurðar um verulegar hækkanir á launum alþingismanna, ráðherra og forseta Íslands. Þetta muni hann gera ef forseti eða þing skerist ekki í leikinn.
Ég er sammála þingmanninum að Alþingi beri að snúa ákvörðun Kjararáðs til baka að fullu eða hluta til með lögum, en af allt annarri ástæðu en þingmaðurinn.
Röksemdir hans eru þessar: Í lögum um Kjararáð segi að taka eigi "tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði..." en þó þannig að ekki raski kjarasamningum og stefni stöðugleika í hættu. Nú sé ljóst að þessi ákvörðun valdi usla á launamarkaði, sé "sprengja" sem þurfi að "aftengja". Ekkert um það hvort hækkanirnar séu í samræmi við það sem er að gerast annars staðar í þjóðfélaginu. Þetta rímar fullkomlega við yfirlýsingar forsvarsfólks í verkalýðshreyfingu og samtökum atvinnurekenda: Launabreytingarnar reiti fólk til reiði og valdi þess vegna uppnámi.
En er það slæmt? Ástæða þess að blóðið fór að ólga á vinnustöðum í aðdraganda síðustu kjarasamninga voru upplýsingar um kjör þeirra sem skömmtuðu lágtekjufólkinu launin og býsnuðust nú yfir kröfum um launakjör sem þó voru aðeins brotabrot af þeirra eigin kjörum. Þjóðfélagið fór allt að iða, fólk beindi ekki sjónum einvörðungu að eigin kjörum heldur einnig að kjörum aldraðra, öryrkja og er enn ekki séð fyrir endann á þeirri ólgu. Sem betur fer þá tifar sprengjan enn!
Nú eru þau kjör sem ákvörðuð voru þingmönnum, ráðherrum og
forseta Íslands mun rýrari en gagnrýnendur margir búa sjálfir við.
Þingmenn eru þannig varla hálfdrættingar á við marga stjórnarmenn
Samtaka atvinnulífsins eða Viðskiptaráðs og lægri en sumt
forsvarsfólk í verkalýðshreyfingunni.
En það er einn munur á. Þingmenn, ráðherrar og forseti Íslands fá
laun sín greidd úr ríkissjóði. Ég hef flutt þingmál þess efnis að
launamunur eigi ekki undir nokkrum kringumstæðum að vera meiri en
einn á móti þremur og vildi ég fá þetta lögfest enda á ríkið að
sýna gott fordæmi. Ef forseti Íslands, sem efstur trónir á toppnum,
er hækkaður í þrjár milljónir á mánaði eins og Kjararáð vill, þá
verði lægstu laun eða kjör í almannatryggingum hækkuð í eina
milljón á mánuði.
Þyki þetta fráleitt þá hljótum við að vera opin fyrir málamiðlun en
þó aldrei þannig að kjör öryrkjans verði ekki bætt samkvæmt
fyrrnefndri reiknireglu. Ef það gerist ekki þarf sprengjan að tifa.
Við eigum að reiðast því þegar kjarabilið er aukið og þá ber að
nýta löggjafarvaldið til að breyta veruleikanum í réttlætisátt en
ekki til að draga úr óróa og réttmætri reiði. Slíka reiði á að
virkja til góðs. Að mínu mati á að beina henni að misréttinu, ekki
prósentutölum.
Reiðin á einnig að beinast að tvískinnungi þeirra sem nýta
aðstöðu sína til að skammta sjálfum sér himinhá laun en vanda svo
um fyrir Kjararáði sem brugðið hefur spegli á þó þróun sem er að
verða í íslensku samfélagi.
Ég fagna umræðunni, víkkum hana út og beinum sjónum að
misréttisþjóðfélagi fariseanna og látum reiðina verða okkur
hvatning til að taka á kjaramisréttinu sem þar er við lýði.