Fara í efni

TVÆR EINFALDAR SPURNINGAR TIL SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS

Spurningar til XD
Spurningar til XD
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kom fram á ráðstefnu síns flokks og í kjölfarið í fjölmiðlum og sagðist tala fyrir einföldum lausnum. Ég sperrti við eyrun og fór síðan að hugsa.
Hann sagði tvennt.

Formaður Sjálfstæðisflokksins sagðist vilja „almannavæða" bankana. Þetta orð er nýtt úr munni formanns Sjálfstæðisflokksins. Dulmálsaðferðin er þó gamalkunn á þessum bæ. Ég geng út frá því að engin alvara sé á bak við þessa yfirlýsingu nema að augljóslega er reiknað með því að þetta falli kjósendum í geð. Ef sú er hugsunin, að blekkja kjósendur, þá er hún ekki falleg. En fjölmiðlafólk verður að taka þessa yfirlýsingu alvarlega og krefja formann Sjálfstæðisflokksins útskýringa á því hvernig eigi að tryggja dreifða eignaraðild til framtíðar á hlutabréfum sem ganga kaupum og sölum á markaði. Erfitt er að sjá að markaðsvæddur banki verði lengi „almannavæddur", jafnvel þótt tækist að dreifa eignarhaldinu í upphafi. Þar fyrir utan er dreift eignarhald náttúrlega ekki sama og almenningseign! En svo vitum við náttúrlega að í pólitískri orðabók Sjálfstæðisflokksins finnast ýmsar skilgreiningar sem ekki eru viðurkenndar í alvöru orðabókum.      

Formaður Sjálfstæðisflokksins sagðist vilja heilbrigðiskerfi sem ekki mismunar sjúklingum á grundvelli efnahags. Þetta er að sjálfsögðu mikilvæg yfirlýsing en ekki ný af nálinni. Frá því undir aldamót hefur Sjálfstæðisflokkurinn rekið þá´stefnu að heilbrigðiskerfið eigi ekki að vera að fullu markaðsvætt. Það eigi að vera ríkisfjármagnað að uppistöðu til en þó einkarekið, og þar að lútandi er hin stórpólitíska spurning sem Bjarni Benediktsson verður að svara. Hann þarf að útskýra rekstraformin. Nýlega greiddu samflokksmenn hans í einkavæddri heilbrigðisþjónustu sér tugmilljónir í arð. Hvaðan skyldu þeir peningar vera komnir? Að sjálfsögðu úr vösum skattgreiðenda.

Hinar tvær einföldu spurningar minar til Sjálfstæðisflokksins um meintar einfaldar lausnir Bjarna Benediktssonar eru því þessar:

1) Er Sjálfstæðisflokknum raunveruleg alvara að vilja almannavæða bankakerfið? Er flokkurinn þar með að segja að hann sé reiðubúinn að hafa banka í ríkiseign ef það reynist vera eina leiðin til að tryggja þá „almannavæðingu" sem flokkurinn teflir nú inn i kosningabaráttuna? Eða eru þetta gamalkunnar kosningablekkingar?

2) Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að ná markmiðum um að mismuna ekki eftir efnahag í heilbrigiðsþjónustinni með einkareknu milliliðakerfi?


Ég vona að fjölmiðlar fylgi þessum spurningum eftir.