Í TILEFNI AF 9/11

nine eleven

Á heimasíðu sænsku friðarstofnunarinnar Transnational Foundation for Peace and Future Research, TFF, er tilvitnun í fransk/kúbanska rithöfundinn Anaïs Nin þar sem hún segir á þessa leið: Við greinum veröldina ekki eins og hún er, heldur eins og við erum.

En þá vaknar spurning í mínum huga, hvernig erum við? Að hvaða leyti höfum við breyst á liðnum árum og áratugum, og þá sé ég "okkur" sem heild, eins konar tíðaranda? Hvernig lítur samtíð okkar á veröldina?

Tilefni þessara hugrenninga er dagurinn í dag, 11. spetember, sem í Bandaríkjunum er oftast vísað til sem níu ellefu þótt samkvæmt okkar málvenju væri rétt að snúa við og kalla ellefu níu.

Þennan dag fyrir fimmtán árum voru Tvíburaturnarnir, sem svo voru nefndir, jafnaðir við jörðu í New York og árás jafnframt gerð á Pentagon, bandaríska hermálaráðuneytið í Washington. Um þrjú þúsund manns týndu lífi.

Í kjölfarið hófst Stíðið gegn hryðjuverkum, War on terror, sem Bush jr., Bandaríkjaforseti og félagar hrintu af stað og stýrðu. Umhugsunarvert er hve eindregið margir aðrir gangsterar samtímasögunnar studdu Stríðið gegn hryðjuverkum en ástæðan er eflaust sú að þeir hafi viljað grípa tækifærið til að ganga milli bols og höfuðs á andstæðingum sínum og að þarna hafi tilefnið fengist. 

Í þessu stríði voru þeir Bush og Pútín og margir af svipuðu sauðahúsi bandamenn. Og víða reyndist klapplið til staðar. Klapparar eiga sér hins vegar margir það til málsbóta að stuðningur þeirra var veittur á upplognum forsendum. Allt er það nú að fást betur og betur staðfest. Auðvitað er rétt og sanngjarnt að halda þessu til haga þótt jafnframt beri að draga lærdóma af þessum ljóta blekkingarleik valdamanna helstu stórvelda heimsins.

Ég spái því að þeir verði við sama heygarðshornið enn um sinn og ástæða til að hafa á þeim vakandi og gagnrýnið auga. Ég er hins vegar vongóður um að heiminn megi gera betri ef sameinast er um slík áform.

En aftur að TTF og stofnanda og helsta talsmanni þeirrar stofnunar, Jan Oberg.

Í grein sem hann ritar á síðu sína í dag minnir hann á að Stríðið gegn hryðjuverkum hafi verið illa vanhugsað og komið hrikalega í bakið á heimsbyggðinni. Áttatíufalt fleiri láti nú lífið á ári hverju vegna stríðs og hryðjuverka en var raunin áður en umrætt stríð hófst og ein milljón manna hafi síðan bæst í hóp fórnarlamba.

Jan Oberg segir að þetta hefði mátt koma í veg fyrir með annarri og friðsamlegri nálgun en stofnun hans beitir sér einmitt fyrir breyttum vinnubrögðum á heimsvísu. Bent er á að heimurinn taki breytingum og sé rétt að búa sig undir að bandaríska heimsveldið líði undir lok líkt og henti heimsveldi Rómverja, Ottómana og Breta. Mikilvægt sé að greiða götu friðsamlegri samskipta.

Í nýlegum skrifum á heimasíðu TFF er gerð grein fyrir því að eftir innrásirnar í Ungverjaland og Tékkóslóvakíu hafi tekist að koma í veg fyrir frekara hernaðarofbeldi á yfirráðasvæði NATO ríkjanna og Varsjárbandalagsis það sem eftir lifði Kalda stríðsins. Hernaðarútgjöld Varsjárbandalagsríkjanna hafi á þessum tíma numið um 70% af hernaðarútgjöldum NATÓ og hafi Sovétmenn haft ítök um allan heim. Hann nefnir í þessu samhengi að hernaðarútgjöld Rússa séu nú um 8% af útgjöldum NATO ríkjanna.

En hvernig var þetta hægt, spyr Jan Oberg. Vissulega með ógnarjafnvægi vígbúnaðar en ekki hafi verið síður mikilvægt að yfirveguð og marlviss skref hafi verið stigin til að tryggja friðsamlega sambúð, svo sem með stofnun Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, OSCE, og síðan með stöðugum upplýsinga- og skoðanaskiptum undir merkjum Slökunarstefnu, Détente. Þá nefnir hann til sögunnar sterka einstaklinga sem staðráðnir hafi verið í því að láta ekki annað eins henda að nýju og Heimsstyrjöldina síðari. Tiltekur hann sérstaklega Willy Brandt, kanslara Vestur-Þýskalands í því sambandi.

Þessar línur set ég niður til að minna okkur á að afstaða okkar ræður miklu um framvindu sögunnar. Þótt ég hafi lítinn áhuga á að samsama mig við þá Bush og Putin þá eru þeir engu að síður "við" í samtímanum, svo vísað sé í framangreind orð Anaïs Nin. Verkefnið er þá að færa okkur nær afstöðu Willy Brandts og félaga og þá fjær ofbeldis- og stríðshyggju samtímans.  

Ég mæli með heimasíðu TFF sem ég hef lengi fylgst með:  http://www.transnational.org/    

Fréttabréf