Á AÐ RÉTTA LÍFEYRISHALLANN UPP Á VIÐ EÐA NIÐUR Á VIÐ?

Lífeyrissjóðirnir 2

Í þingsölum heyrist að ríkisstjórnin sé með áform um að leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um lífeyrisréttindi opinberra starfsamanna. Og það sem meira er, ætlist til að það verði samþykkt fyrir þinglok!

Ég er ekki vanur að leggja eyrun við slúðri. En þegar fréttir berast af "samningafundum" ríkisins og opinberra starfsmanna um "jöfnun á lífeyrisréttindum" hljýt ég, og við öll, að leggja við hlustir.

Ekki er sagt opinberlega nánar um hvað rætt er um. En við hljótum að spyrja þegar verkefnið er sagt vera "að jafna lífeyrisréttindin í landinu" - sem er hið besta mál og reyndar eftirsóknarvert - hvort við samningaborðið eigi ekki að sitja þau sem hallað er á; það er fólk á almennum vinnumarkaði og þá ekki síður atvinnurekendurnir sem þar halda um pyngjuna. Eru það ekki aðilarnir sem eiga að semja - upp á við.

Átti Þorsteinn Víglundsson, fráfarandi framkvæmdastjóri atvinnurekendasamtakanna, SA, og (að öllum líkindum)  tilvonandi þingmaður, ekki eitthvað ógert í þessu efni?

Í umfjöllun fjölmiðla kemur glögglega í ljós að Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, telur það vera verkefnið að að draga úr lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna en ekki að rétta hallann upp á við þannig að öllum verði tryggð réttindi á borð við það sem best gerist hjá opinberum starfsmönnum. Haft var eftir forseta ASÍ í Morgunblaðinu síðastliðinn fimmtudag  að "launaskriðstrygging opinberra starfsmanna sé skilyrt niðurstöðu um lífeyrismál." Er forseti Alþýðusambandsins viðsemjandi opinberra starfsmanna? Setur hann þeim skilyrði?  

Nóg þekki ég til þessara mála til að vita að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna verða ekki skert með pennastriki eða hraðupphlaupi. Standi til að bæta lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði munu margir verða tilbúnir til að leggja því máli lið, utan þings og innan. Öðru máli gegnir um hvers kyns skerðingar.

Annars fagna ég umræðu um lífeyriskerfið. Hún er mikilvæg. Það sem þyrfti að gera að mínu mati er að taka lífeyriskerfið allt til endurmats og þá hyggja að því hvort sjóðsmyndunin er of veigamikill þáttur kerfisins. En verði ráðist í að endurmeta blöndu gegnumstreymis og sjóðsmyndunar eins og ég hef áður lagt til, þá þyrfti það að sjálfsögðu mjög ítarlega, gagnrýna og málefnalega umræðu og skoðun og þá sérstaklega með tilliti til fjármögnunar en mín tíllaga var sú að auðlindasjóði yrði að uppstöðu til varið í fjármögnun almannatrygga- og lífeyriskerfisins. Sjá meðal annars þessi skrif frá því fyrir fjórum árum:
http://ogmundur.is/annad/nr/6200/
http://ogmundur.is/annad/nr/6199/
http://ogmundur.is/annad/nr/6204/  

Mikilvægt er að sem flestir komi að umræðunni um framtíðarskipan lífeyriskerfisins. Lífeyrismálin eru þannig vaxin að þau koma okkur öllum við.    

Fréttabréf