Fara í efni

VARNARVÍSITALA LÁGLAUNAFÓLKS KOMIN FRAM Á ALÞINGI

Launamunur
Launamunur

Þingmáli mínu um lögbundinn hámarks launamun og vísitölubindingu lágmarkslauna, hefur nú verið dreift á Alþingi.

Þingmálið gengur út það að launastefna ríkisins fyrir starfsmenn sína byggi á því að lægst launaða fólkið verði aldrei með lægri laun en sem nemur þriðjungi af hæstu launum.

Hvað þýðir þetta í reynd? Lægstu laun á launamarkaði eru um 260 þúsund krónur á mánuði. Til eru lægri taxtar en samkvæmt kjarasamningum skal greidd uppbót til þeirra sem ekki ná þessu marki.
Hæstu laun hjá ríkinu eru laun forseta Íslands sem eru um 2,5 milljónir króna á mánuði. Forsætisráðherra hefur 1,5 milljónir í mánaðarlaun en á milli þessara fjallatoppa er nokkur fjallgarður.

Samkvæmt þeirri launastefnu sem ég tala fyrir, þyrfti annað tveggja að gerast: Forsetinn og fosrætisráðherrann yrðu lækkaðir niður í um 800 þúsund eða lágtekjumaðurinn hækkaður í um 800 þúsund. Eða sem einnig væri kostur, að mæst yrði þarna einhvers staðar á milli, lágtekjumaðurinn með 500 þúsund og sá hæsti með hálfa aðra milljón.

Ef almenni markaðurinn tæki síðan mið af þessari stefnu þyrftu þeir félagar í stjórn SA og skjólstæðingar þeirra að lækka umtalsvert í tekjum eða láglaunafólkið að hækka verulega.

Fráleitt? Það finnst hátekjuþjóðinni eflaust. Hefur aldrei heyrt aðra eins dellu. Hitt þykist ég vita - og hef fengið að heyra - að láglauna Íslandi finnst þetta eftirsóknarverð stefna. Og það sem meira er, þetta er hægt að gera ef vilji er fyrir hendi.

Málið útlistaði ég í þessari grein Í Fréttablaðinu fyrr í sumar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/varnarvisitala-lagtekjufolks  

Hér er síðan þingmálið: http://www.althingi.is/altext/145/s/1539.html