SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN MINNIR Á HVER HANN ER

xd - flokkurinn 2

Ég finn hjá mér löngun til að skrifa þakkarpistil til Sjálfstæðisflokksins fyrir að minna okkur á það í hverra þágu flokkurinn starfar. Og í þessu sambandi vil ég sérstaklega þakka Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem í vikunni talaði í fjölmiðlum fyrir hönd meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um að hann vildi færa eignarhaldið á alþjóðaflugvelli Íslendinga í Leifsstöð í hendur svokallaðra fjárfesta, sem er spariheiti fyrir braskara eins og við þekkjum svo vel frá tímum fyrr og nú.

Á fimmtudag segir Morgunblaðið svo frá á forsíðu:
"Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, segir það felist mikil áhætta í því fyrir íslenska ríkið að fyrirtæki sem sé alfarið í þess eigu, Isavia, ráðist í innviðafjárfestingu á vellinum sem nemi um 70 til 90 milljörðum króna. "... þetta eru sannarlega mjög mikilvægar framkvæmdir og lúta að einni mikilvægustu burðarstoð íslensks efnahagslífs um þessar mundir, ferðaþjónustunni. En þegar þetta mikla fjármagn fer í þessa uppbyggingu þá er ekki hægt að ráðast af sama krafti í aðra mjög mikilvæga uppbyggingu sem er ekki síður nauðsynleg."

Íslendingar eru nýkomnir út úr hruni. Samfélagið þurfti að axla beint og óbeint ábyrgð af gjaldþrotum fjármálastofnana og fyrirtækja. Hrunið kenndi okkur að gjaldþrot einkaaðila hafa samfélagslegar afleiðingar. Á endanum hvílir ábyrgðin á okkur. Þegar bankarnir sem lána fjárfestum fara á hausinn, tökum við byrðina á okkur. Hvers vegna ætti ágóðinn þá ekki að rata til okkar einnig - til samfélagsins?  

Grikkir seldu Kínverjum, höfnina í Píreaus, helsu hafnarborg Grikklands. Það gerðu þeir tilneyddir með hníf Evrópusambandsins á barka sínum. Eftir þessu sjá flestir Grikkir. Sjálfstæðisflokknum á Íslandi finnst þetta hins vegar aldeilis frábært og til eftirbreytni. Og Morgunblaðinu finnst þetta svo markvert að ekki dugi annað til en forsíða blaðsins til að kynna okkur boðskapinn.  

Leifsstöð er að verða ein mesta gullgerðarvél landsins. Á henni þarf að hafa samfélagslegt taumhald. Um það kann ég litla dæmisögu. Í vor skipulagði ég fjölþjóðlega ráðstefnu í Reykjavík. Ég tók persónulega á móti mörgum gestanna, stakk mér inn í Leifsstöð í örskotsmóttöku - örskot en samt fyrir 500 kr. í hvert skipti. Eftir tíu gesti hafði ég greitt 5000 krónur til hinnar ríkisreknu einokunar. Halda menn að það verði betra þegar einokunin er orðin einkavædd? (Ég minnist þess reyndar að Isavia hafi tekið rekstrarleyfi bílastæðanna til sín þegar rekstrarfyrirtækið sem hafði fengið leyfið þótti orðið of gráðugt. En eins og Hallgrímur kvað, það sem helst hann varast vann ...)

Svona má náttúrlega ekki haga sér og á hlutum af þessu tagi þarf að taka. En ekki að hætti Sjálfstæðisflokksins sem vill að allur hagnaður renni í einkavasa! Við höfum tök á að laga annamarka af þessu tagi í gegnum eignarhaldið. Þess utan er ljóst í mínum huga að heldur vil ég borga fimmhundruð krónurnar til uppbyggingar á okkar sameiginlegu stöð en inn í einkarekna gróðavél.

Kosningar hafa verið boðaðar. Á fyrstu metrum baráttunnar vill Sjálfstæðisflokkurinn greinilega minna "fjármálalífið", á það hvar þjóna þess er að finna.

Jafnframt er reynt að telja háttvirtum kjósendum trú um að þjónkunin við auðvaldið sé þeim til varnar. Þakkir til Sjálfstæðisflokksins. þakkir til talsmanns fjárlaganefndar Alþingis fyrir að minna okkur á ykkur, þótt ekki hafi verið nema örskotsstund á forsíðu Moggans. En þetta er nóg til að vita um hvað kosið er.

Fréttabréf