MEÐ BARÁTTUMÓÐUR

Palestína pistill 2 - mynd 1

Á öðrum degi heimsóknar fjögurra manna þingmannanefndar til  Palestínu - fyrri degi eiginlegrar heimsóknar - hittum við fulltrúa mannréttindasamtaka i höfuðborginni Ramallah. Þar ber fyrst að nefna Addameer samtökin sem eru stuðningssamtök fanga, en Addameer er okkur sagt að þýði samviska.

Þá hittum við samtök foreldra sem sameinast um að fá afhent lík unglinga - barna sinna - sem létu lífið í lögregluaðgerðum í október í fyrra. Foreldrarnir hafa viljað láta kryfja líkin til að ganga úr skugga um hvernig dauða þeirra bar að, en því er neitað. Nú er að nást samkomulag um að afhenda lík tuttugu unglinga en með því skilyrði að greftrun fari fram innan hálfs annars tíma frá afhendingu og að hámarki megi fimmtán manns vera viðstödd útförina.  Líkin eru geymd í frysti og þurfti nokkurn tíma til að affrysta þau svo krufning gæti farið fram.  Greiða þarf ígildi um 620 þúsund króna, en það á að fást endurgreitt þegar líkið er komið í jörðu. Engin rannsókn hefur farið fram á þessum voðaverkum en án rannsóknar voru heimili aðstandenda allra unglinganna jöfnuð við jörðu!

Fulltrúa fleiri samtaka hittum við, þar á meðal samtaka sem hafa það að markmiði að beita sér gegn illri meðferð á börnum og unglingum í fangelsum. Um 350 unglingar undir átján ára aldri sitja nú í fangelsum í Ísrael og eru dæmi um mikið harðræði sem þau sæta.

Eftir hádegið var haldið til Nablus. Þar hittum við fjölskyldu Bilal Kayed sem hefur verið í mótmælasvelti í rúma tvo mánuði eins og greint var frá í pistli hér á síðunni í gær. Óttast er um líf hans. Fjölskyldan er að sjálfsögðu afar áhyggjufull en býr yfir ótrúlegri staðfestu. Móðir Bilals hélt sigurmerki jafnan á lofti á stuðningsfundi við baráttu hans sem við sóttum í tjaldi sem komið hafði verið upp í miðborginni í Nablus. Ég ávarpaði þennan fund og lýsti markmiðum komu okkar fjórmenninganna, sem hér vorum, þingmanna frá Írlandi og Grikklandi  auk mín.

Áður höfðum við efnt til fundar með fréttamönnum og gert grein fyrir ferð okkar sem tengdist því einu að beita okkur gegn pólitískum fangelsunum og þá sérstaklega fangelsunum án réttarhalda og dóms. Slíkt væri fullkomið mannréttindabrot. Hér um slóðir hefur heimsókn okkar og málflutningur vakið talsverða athygli.

Þegar þetta er skrifað höfum við ekki enn fengið formlegt svar við því hvort við megum heimsækja Billal Kayed í hersjúkrahúsið þar sem hann er hlekkjaður við rúm sitt. Fæstir trúa því að slíkt leyfi verði veitt. Við munum hins vegar fá leyfi til að vera viðstödd réttarhöld við herdómstól og verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig það fer fram.
Palestína - II 

Fréttabréf