Fara í efni

LÓNKOT Á LANDAKORTI SÆLKERANS OG HRAFNA-FLÓKI ÞAR Á KORTI SEM ENGINN BJÓST VIÐ HONUM

Hrafna - Flóki
Hrafna - Flóki


Fyrir nær réttum fjórum árum, í ágúst 2012, afhjúpaði ég sem þáverandi innanríkisráðherra, minnisvarða um Hrafna-Flóka í Fljótum norður. Til staðar var að sjálfsögðu höfundur minnismerkisins, Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson, svo og Herdís Sæmundardóttir en hún ásamt eiginmanni sínum, Guðmundi Ragnarssyni, hafði haft veg og vanda að undirbúningnum.
Flestir þekkja sögu Hrafna-Flóka og tengja hann við Barðaströndina, en ís og kuldi varð til þess að hann hvarf á brott þaðan, en gaf áður landi voru það nafn sem það hefur borið síðan, Ísland.

Almennt hefur fólki ekki verið kunnugt um að Flóki sneri aftur til Íslands og þá í Fljótin. Þess vegna var vel til fundið að reisa honum minnismerki þar, til að minna okkur á þessa vendingu sögunnar.
Að afhjúpun minnismerkisins lokinni, var boðið til samsætis í Ketilási og minntist ég þar Hrafna-Flóka: https://www.ogmundur.is/is/greinar/minnisvardi-um-hrafna-floka-afhjupadur-dagur-okkar-allra

Ég nefni þetta nú vegna þess að síðastliðinn laugardag kom ég að minnismerkinu og minntist hátíðarinnar sumarið 2012 og varð það síðan tilefni til að rifja upp þennan atburð og síðan enn á ný hinar fornu sögur. 

Við hjón gerðum annað og meira í norðanför okkar um síðastliðna helgi. Við komum meðal annars í Lónkot í Sléttuhlíð, gourmet-staðinn sem enginn sælkeri verður svikinn af. Þarna borðuðum við í ágúst 2007, fyrir níu árum - tíminn flýgur!  Í endurminningunni fannst okkur þetta einn besti veitingastaður sem við höfðum komið á og spennandi að sjá hvort hann risi nú undir væntingum endurminningarinnar. Það gerði hann svo sannarlega. Sjávarfang úr Skagafirði völdum við á okkar diska auk blómaíssins sem hefur keiminn af villigróðri úr Sléttuhlíðinni. Óaðfinnanlegt!  https://www.ogmundur.is/is/greinar/islenskt-sumar

Ekki var lakara að hitta í Lónkoti sessunaut minn í skemmtilegasta Þorrablóti sem ég hef setið en það var á Hofsósi á Höfðaströnd í janúarlok 2010. Þar var ég í för með Jóni Bjarnasyni, þáverandi landbúnaðarráðherra einsog fram kemur í þessari frásögn frá þessum tíma:
 https://www.ogmundur.is/is/greinar/thad-verdur-ekki-fyrr-en-um-thrju-leytid
Svona verða ferðalögin tilefni til að rifja upp margt gamalt og gott. 

Lónkot, hemasíða: http://www.northwest.is/lonkot.asp