JÖFNUÐUR OG JAFNRÉTTI Á LJÓSVAKANUM

Bylgjan - RUV

Um helgina tók ég þátt í umræðu í tveimur þáttum á ljósvakanum og var í báðum þáttum fjallað um jöfnuð og jafnrétti, annars vegar í kjaralegu tilliti og hins vegar kynbundnu.

Á Sprengisandi Bylgjunnar á sunnudag ræddi ég við Birgi Ármannsson um launamisrétti og nýlega fram komið þingmál mitt um varnarvísitölu láglaunafólks. Fór vel á með okkur Birgi þótt ósammála værum við í nánast öllum grundvallaratriðum. Í ljós kom að pólitísk markmið okkar eru gerólík. Lagði ég áherslu á að í stórnmálabaráttu væru þau markmið sem stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar settu sér sýnileg, þess vegna fagnaði ég því að fá fram skýrar línur.

Það fór líka ágætlega á með okkur þingmönnunum, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Karli Garðarssyni og Björt Ólafsdóttur - alla vega framan af - í þættinum Í Vikulokin á laugardag. Þegar við tókum að ræða vinnubrögðin á þingi og afstöðu þingmanna og framkomu hvert við annað og þá hvort hún mótaðist af kynferði syrti hins vegar í álinn. Ég kvaðst líta svo á að einstaklingar væru mismundi óháð kynferði þeirra og bætti því við að mér virtist konur stundum reyna að notfæra sér tal um meintan yfirgang karla gagnvart konum, sjálfum sér til framdráttar.  

Á þessum orðum hef ég verið beðinn um það opinberlega að biðjast afsökunar. Ég á sannast sagna erfitt með að biðjast afsökunar á misskilningi eða mistúlkun á orðum mínum. Ég get hins vegar skýrt betur bæði hvað ég á við með þessum orðum og þá einnig hvað ég á ekki við. Og finnst mér sjálfsagt að verða við slíkum óskum í anda málefnalegrar umræðu.

Í starfi mínu sem stjórnmálamaður hef ég alla tíð leitað leiða til að sporna gegn kynbundnu misrétti og ofbeldi og eftir bestu getu reynt að leggja jafnréttisbaráttu lið. Á vettvangi stjórnmálanna sem annars staðar geta einstaklingar hins vegar misnotað slíka baráttu, reynt að skjóta sér undan ábyrgð með því að gera því skóna að viðkomandi séu látnir gjalda kynferðis þegar um raunverulega gagnrýnivert athæfi er að ræða af þeirra hálfu. Á þetta leyfði ég mér að benda og var þetta inntakið í umdeildum orðum mínum í fyrrnefndri útvarpssamræðu.

Jafnréttisbaráttan á enn langt í land þótt grunvallarbreyting hafi orðið þar á, sé litið til undangenginna áratuga. Ég vil leggja mitt af mörkum til að útrýma hvers kyns misrétti, hvort sem er á grundvelli kjara eða kynferðis og vonast ég til að úr orðum mínum verði ekki neitt annað lesið.

   

Fréttabréf