BÆTUM GOTT HEILBRIGÐISKERFI

Íslenska heilbrigðiskerfið er gott, það þekkja þau sem þurft
hafa á að halda. En það er ekki algott. Það verður ekki algott fyrr
en aðgangur að því verður með öllu gjaldfrjáls. Líkt og gerist þar
sem best lætur. Hrikaleg þótti mér staðfesting á illum grunsemdum
þegar ég las nýlega í Fréttatímanum frásögn einstaklings sem
haldinn er krabbameini þar sem hann bar saman kostnað sinn og föður
síns sem er með svipað mein og er búsettur í Þýskalandi.
Tilkostnaður sonarins hleypur á hundruðum þúsunda á ári og var
þetta allt sundurgreint í blaðinu - en faðirinn þarf ekki að
greiða fyrir lyf og læknisaðgerðir. Meira kann að hanga á þessari
spýtu og þarf að greina það niður í kjölinn.
Sjúklingar eiga ekki að vera sanngirnismengið
Nú stendur til að setja þak á lækniskostnað en því miður er það gert með því að dreifa jöfnunaraðgerðunum á sjúklinga landsins og undanskilja hina alheilbrigðu sem samkvæmt öllum könnunum eru meira en tilbúnir að fjármagna heilbrigðiskerfið með sköttum sínum. Það væri mun eðlilegra í stað þess að líta á sjúklinga sem sérstakt mengi og réttlætið skilgreint í samræmi við það; einn sjúklingahópur greiði ekki meira en annar sjúklingahópur því ranglátt sé að mismuna sjúklingum. Þannig hefur hljóðað hin kostulega röksemdafærsla.
Óbærileg byrði
Þessi röksemdafærsla er vægt sagt nöturleg. Eftir því sem
liðið hefur á þessa öld hefur kostnaðarhlutdeild sjúklinga í
heilbrigðisþjónustunni aukist og er nú um fimmtungur af
tilkostnaðinum. Könnunum sem unnar hafa verið af óskyldum aðilum,
annars vegar Rúnari Vilhjálmssyni, prófessor við Háskóla Íslands og
hins vegar dr. Ingimar Einarssyni, sérfræðingi á þessu
sviði, en sá fyrrnefndi vann rannsókn sína á vegum
Félagsvísindadeildar HÍ og sá síðarnefndi fyrir Krabbameinsfélagið,
ber saman um að tekjulægsta fólkið í samfélaginu veigri sér við því
að leita læknis vegna fjárskorts. Þá vakti athygli mína að í
samanburðardæminu sem vísað var til hér að framan um tilkostnað af
krabbameini í Þýskalandi og hér á landi, kemur fram að sá feðganna
sem búsettur er hér á landi, segist vera með allgóðar tekjur en
þegar upp sé staðið standi allt í járnum í heimilisbókhaldinu og
skilji hann ekki hvernig lágtekjufólk fari að. Það kemur heim og
saman við þessar kannanir að fyrir tekjulægst fólkið er byrðin af
tilkostnaði við sjúkdóma óbærileg í orðsins fyllstu merkingu.
Eitt vantar þó inn í bókhaldstölurnar og það er hve mikið renni til
fjármögnunar kerfisins. Mér skilst að tekjulágur Þjóðverji greiði
um eitt hundrað evrur inn í sjúkratryggingakerfið á mánuði hverjum
og hinir tekjuhærri meira. Að sjálfsögðu þarf að taka þetta með í
reikninginn þegar þessi mál eru gaumgæfð.
Fjárfestar tala niður almannaþjónustuna
Verkefni okkar hlýtur að vera að gera kerfið gjaldfrítt með öllu
fyrir hinn sjúka. Með "kerfinu" væri þá átt við þá
heilbrigðisþjónustu sem við erum sammála um að hið opinbera greiði
og almennt er greitt fyrir af hinu opinbera í nágrannalöndunum.
Þetta yrði ekki óyfirstíganlegt, því fer fjarri, og þetta er í
samræmi við margyfirlýstan þjóðarvilja sem áður segir. Þetta myndi
að sjálfsögðu kalla á mikið og aukið aðhald gagnvart þeim sem
skrifa reikninga á ríkissjóð.
Ef þetta er hins vegar ekki gert, og áfram heldur að molna úr
kerfinu, er hætt við að þjóðarviljinn molni einnig og
dragi úr þeirri samstöðu sem ríkir um
almannaþjónustuna. Athygli vakti málflutningur fjárfestis sem nú
vill reisa risastórt einkasjúkrahús í Mosfellsbæ. Hann sagði
eitthvað á þá leið að íslenska heilbrigðiskerfið væri hvort eð er
svo laskað, að allt tal um að aðkoma einkareksturs hefði ill áhrif,
væri marklaust. Við þessu hafa margir brugðist en ég staðnæmist við
frábæra grein þriggja yfirlækna á Hjartadeild Landspítalans, Davíðs
O. Arnar, Ingibjargar Guðmundsdóttur og Karls Andersen, í
Morgunblaðinu 30. júlí síðastliðinn.
Varað við einkasjúkrahúsi
Í grein sinni svara þau eftirfarandi spurningu: Stendur
heilbrigðiskerfinu ógn af fyrirætlunum um nýtt einkasjúkrahús fyrir
útlendinga? Svarið er mjög afdráttarlaust, nefnilega að svo sé og
fyrir því eru færð mjög skilmerkileg rök. Þau vara við tvöföldu
heilbrigðiskerfi og hve ill áhrif sambýlið við almannakerfið hefði.
En það sem mér þótti ekki síður umhugsunarvert er lýsing læknanna
þriggja á kostum heilbrigðisþjónustunnar og þá sérstaklega þess
sviðs sem þau starfa á, þ.e. hjartalækningum. "Á þeim vettvangi
hefur mikið verið lagt í að bæta mönnun, laga aðstöðu og fá
fjármagn til að fjölga aðgerðum verulega. Þetta hlýtur að vera
öllum ánægjuefni og eru frekari áform um að efla þjónustu við
hjartasjúklinga á LSH."
Hið nýja einkasjúkrahús gæti hins vegar að mati læknanna sett
alvarlegt strik í reikninginn, enda sé það "ógn við
heilbrigðiskerfið sem er á viðkvæmum stað í endureisnarferli.
Íslenskt heilbrigðiskerfi er einfaldlega ekki aflögufært um einn
einasta starfsmann, eins og staðan er í dag."
Í fyrsta, öðru og þriðja lagi
Lærdómurinn af lestri greinar læknanna þriggja og annarra sérfræðinga er sá, að nú þurfi sem aldrei fyrr að mynda skjaldborg um heilbrigðiskerfi okkar og að í þeirri vörn beri að gera þrennt. Í fyrsta lagi, gera gangskör að því að heilbrigðiskerfið verði gjaldfrjálst. Í öðru lagi, hætta að tala heilbrigðiskerfið niður og horfa til þess sem þar er vel gert. Í þriðja lagi að gjalda varhug við lukkuriddurum sem ætla að ryðjast hér inn og leyfa sér þá ósvífni í þokkabót að ætlast til að fá opinberan stuðning við að koma sér hér fyrir.
Ánægjulegt og góðs viti
Árið 2009 reyndu aðilar úr þessari sömu átt fyrir sér um
einkasjúkrahús sem einnig átti að reisa í Mosfellsbæ. Vísað var í
gull og græna skóga á fundi með þáverandi heilbrigðisráðherra en sá
var hinn sami og ritar þessa grein. Ekki var ég ginkeyptur fyrir
þessum áformum svo ekki sé fastar að orði kveðið. Á endanum gufuðu
kastalarnir upp í loftið.
En munurinn á umræðunni sem þá spannst og þeirri sem við verðum nú
vitni að er mikill. Þá var umræðan takmörkuð enda margir ginkeyptir
fyrir loforðum erlendra auðmanna á samdráttartímum. Nú hins vegar
er andstaðan almennari og fleiri til að taka á móti með markvissum
og málefnalegum hætti eins og yfirlæknarnir þrir gera á
eftirtektarverðan hátt í Morgunblaðsgrein sinni. Þetta er
ánægjulegt og góðs viti.
Sjá umfjöllun: http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/08/07/haetta-a-ferdum-ekki-i-fyrsta-sinn-sem-bodid-er-gull-og-graena-skoga/