Fara í efni

ALÞINGI Á AÐ RÁÐA EF STYTTA Á KJÖRTÍMABIL

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 06/07.08.16.
Í Bretlandi getur forsætisráðherrann boðað til þingkosninga innan hvers kjörtímabils að eigin hentugleikum. Sama er uppi á teningnum í Danmörku. Fer það þá eftir meintum hagsmunum þess flokks sem fer með völdin hverju sinni hvenær kjördagur er ákveðinn. Norðmenn eru hinum megin á ásnum. Þar er kjörtímabilið fast ákveðið - slétt fjögur ár - og verður þar engu til hnikað hvað sem á gengur. Verða menn að sætta sig við minnihlutastjórn ef ekki verkast betur.

Hér á landi er þingrofsrétturinn í reynd hjá forsætisráðherra en almenna reglan er sú að kjörtímabilin renni sitt skeið og komi þá til þingkosninga. Duttlungar og pólitískir stundarhagsmunir ráði þar engu um.

Á þessu eru að sönnu undantekningar. Nýlegt dæmi höfum við frá árinu 2009 þegar í janúarlok slitnaði upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og var í kjölfarið mynduð minnihlutastjórn Samfylkingar og VG með stuðningi Framsóknar. Um vorið fóru síðan fram þingkosningar allt vel innan kjörtímabils. Um þetta hefði í sann þurft að greiða atkvæði.

Nú heyrast þær raddir á Alþingi - og allháværar - að vegna þess að ráðherrar hafi í vor sagst reiðubúnir að stytta kjörtímabilið, hljótum við að efna til kosninga í haust. Undir þetta taka margir þar á meðal nýkjörinn forseti Íslands í setningarávarpi sínu.

Spurningin í mínum huga er þessi: Viljum við fyrirkomulag líkt og í Bretlandi og Danmörku annars vegar eða norska módelið hins vegar? Eða viljum við þróa íslenska fyrirkomulagið? Ef við veljum síðasta kostinn sem ég tel vera vænlegastan, má spyrja hvernig rétt sé að vinna okkur út úr þeim ógöngum sem forystumenn á þingi hafa komið sjálfum sér og okkur öllum í með yfirlýsingum sínum frá í vor um snemmbærar kosningar.

Sjálfum finnst mér það vera augljóst og i reynd ósköp einfalt. Kannaður verði vilji þingsins til að stytta kjörtímabilið. Um þetta greiddum við atkvæði í vor og var tillagan felld - illu heilli. Um þetta ætti enn að greiða atkvæði og væri ekki slæmt ráð að hafa atkvæðagreiðsluna leynilega til að losa menn undan hugsanlegum þrýstingi til fylgispektar við flokkslínur. Í þessu máli - sem reyndar öðrum - á hver maður að vera frjáls sem fuglinn fljúgandi. En þannig er það því miður ekki alltaf í reynd. Það kennir sagan.

Síðastliðið vor reis mikil alda mótmæla í þjóðfélaginu út af skattaskjólsmálum. þau mál eru enn ekki uppgerð. Eitt gerðist þó. Forsætisráðherrann sagði af sér. Það var rétt ákvörðun af hans hálfu og rökrétt svar við mótmælum í þjóðfélaginu. En það var eftir þetta sem forystumenn ríkisstjórnarinnar gengu, sýnilega óstyrku pólitísku göngulagi, niður hringstiga nýbyggingar Alþingishússins og lofuðu að þess væri skammt að bíða að þjóðinni gæfist kostur á að losa sig við þá líka.

Eftirmálin þekkja allir. Sumir þingmenn - og ekki síst þeir sem segjast leggja mikið uppúr prinsippum og formfestu -  hafa í hótunum um að skemma þinghaldið verði ekki gengið til kosninga á næstu vikum. Það skulum við að sjálfsögðu gera ef fram kemur þingvilji til þess. Sé hann ekki fyrir hendi er verið að skapa fordæmi sem menn kynnu að sjá eftir síðar. Kemur nefnilega dagur eftir þennan dag.