Fara í efni

ÞJÓÐREMBA Í LAGI

EM _ Ísland
EM _ Ísland

Á Íslandi er flest annað hvort í ökkla eða eyra.

Sú var tíðin, og ekki fyrir ýkja löngu, að nánast var bannað, samkvæmt ófáum sjálfskipuðum siðameisturum, að segjast þykja vænt um landið sitt og finnast það fallegt. Ennþá alvarlegri vísbending um illa þjóðrembu var að vilja standa vörð um íslenska menningu og tungu. Þetta þótti stórvarasamt og fengu þau, sem gerðust sek um slíkt, orð í eyra.

Nú hefur dæmið hins vegar snúist við. Allir klappa og „húa", nánast klæðast íslenska fánanum og kyrja um ágæti þess að komast „heim" þar sem allt sé svo gott og eftirsóknarvert. Með stolti er sagt að Ísland og íslenskt samfélag hafi alið af sér íþróttafólk í fremstu röð.

Hvergi er minnst á þjóðrembu. Enda væri slíkt tekið óstinnt upp.

Ekki fæ ég séð að neitt sé nema gott um það að segja þegar fólk sameinast í jákvæðum hugsunum um græskulaus markmið. Það á við um að klappa íþróttafólki okkar lof í lófa, strákunum „okkar" og stelpunum „okkar" þegar þau gera garðinn frægan.

En getum við þá ekki líka sameinast um að í lagi sé að láta sér þykja vænt um landið, menninguna og tunguna og að vilja hlúa að öllu þessu?

Það er ekki þar með sagt að önnur lönd, önnur menning og íþróttafólk annarra þjóða sé ekki líka gott! Allt sem er vandað er aðdáunarvert.

Þetta er mergurinn málsins. Það er litrófið í tilverunni, margbreytileikinn, sem er eftirsóknarverður ef hann byggir á því sem vel er gert og af alúð.

En ef við viljum fjölbreyttan heim - ekki staðlaða McDonlads veröld - þá þurfum við að leggja okkar af mörkum til að gera slíkan heim að veruleika. Það gerum við með því að leggja rækt við það besta sem við höfum fram að bjóða í menningu og listum. Náttúrufegurð Íslands er svo annar kapítuli því ekki er hún okkar sköpunarverk. En hún er hins vegar á okkar valdi, því það erum við sem veljum hvort við spillum náttúrunni eða verndum hana. Og að sjálfsögðu eigum við að vernda hana og láta okkur þykja vænt um hana!

Er allt þetta ef til vill þjóðremba? Ef það er niðurstaðan, er hún þá ekki bara í lagi - einsog í boltanum?

Það er kannski þetta með öklann og eyrað sem mætti hugsa aðeins.