KREDDUFÓLKI BREGÐUR Í BRÚN

Mjólk 2

Mikil og að mestu leyti jákvæð viðbrögð hafa orðið við grein sem ég skrifaði síðastliðinn miðvikudag í Fréttablaðið um einelti Samkeppniseftirlitsins á hendur Mjólkursamsölunni, en sem kunnugt er vill Samkeppniseftirlitið sekta MS um nær hálfan milljarð fyrir - að því er ég fæ best séð - að fara að þeim lögum sem Alþingi hefur sett mjólkuriðnaðinum! Engin niðurstaða er fengin í þetta makalausa kærumál og er ekki ólíklegt að úrskurðaraðilar sendi þessa fráleitu kröfu aftur til föðurhúsanna. Síðan verði það Alþingis að taka á lögunum standi yfirleitt vilji til þess. Það er svo sannarlega ekki minn vilji. En það er önnur saga.
sjá: http://www.visir.is/ms-enn-i-einelti/article/2016160729988  

Arnar Sigurðsson skrifar stundum pistla á Eyjuna. Sjaldnast erum við sammála - enda um að ræða aðdáanda Ronalds Reagans sem ég er ekki - og bregður ekki út af þeirri venju í nýlegum pistli sem hann helgar mér sérstaklega. Nema að einu leyti. Arnar Sigurðsson bendir nefnilega réttilega á að komið sé til móts við barnafjölskyldur með því að halda verði á mjólk í skefjum en undanskilin sé hrísmjólk og sojamjólk, sem þau börn sem hafi mjólkuróþol neyti í staðinn. Þetta er hárrétt hjá Arnari og tek ég hér með undir að þarna gæti ósamræmis og að þarna þurfi að bæta úr. Nema að Arnar vilji að engum verði hjálpað, sem vel gæti verið. Það þætti mér hins vegar afleit hugmynd.
sjá: http://blog.pressan.is/arnarsig/2016/07/20/ogmundur-og-regnbogabornin/

Annar pistlahöfundur sem víkur orði að mér og mínum skrifum um mjólk er Ari Edwald, framkvæmdastjóri Mjólkursamsölunnar. Eyjan vitnar í hann og þykir furðu sæta að hann geti verið sammála manni af mínu sauðahúsi. Sjálfur hafði ég reyndar hvatt til þess að menn taki ofan kredduglerunum þegar fjallað er um mjólkuriðnaðinn. Geri menn það muni umræðan um MS þróast inn á heillavænlegri brautir en hún hefur verið um sinn. Ekki að undra að forstjóri MS sé þessa fýsandi en athygli vekur að hann skuli vera óbanginn að bjóða kreddumönnum byrginn. Það er vel.
sjá: http://vefir.pressan.is/ordid/2016/07/21/ari-og-frelsiskreddukjaftaedid/

Í þriðja lagi kom svo föstudagsleiðari Morgunblaðsins sem einnig tók undir sömu sjónarmið. Aftur brá kreddufólki í brún. Morgunblaðið sammála Ögmundi! Gæti verið að málefni komi þar eitthvað við sögu? Það skyldi þó aldrei vera.

Fréttabréf