Fara í efni

KLAPPAÐ FYRIR FÓTBOLTAHETJU Í MOLDÓVU

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 9/10.07.16.
Í æsku spilaði ég fótbolta á túninu við Neskirkju í Reykjavík. Sigtryggur glímukóngur - „Sigtryggur vann" - var foringinn. Maður með gullhjarta en ekkert sérstaklega góður í fótbolta, en það var ég ekki heldur. Samt skemmtum við okkur vel. Allir sveittir og rjóðir og svo fékk maður sér mjólkurhristing á Hjarðarhaganum.

Á Melavöllinn fór ég til að styðja Þrótt, sem upphaflega var á Grímsstaðaholtinu og frændur mínir höfðu átt þátt í að stofna ásamt Eyjólfi sundkappa og Dóra fisksala, sem frægt varð í Djöflaeyjunni, en á endanum, eftir að Þróttur flutti, varð KR liðið okkar Vesturbæinganna allra.

Ég rifja þetta upp til að minna mig og aðra á að ég var hinn dæmigerði fótboltastrákur á sjötta áratug síðustu aldar, sparkaði af áhuga en klappaði aðallega fyrir öðrum án þess að vera sérstaklega góður sjálfur.

Nú hins vegar er ég farinn að fá þessa tilfinningu að ég hljóti að vera einhvers konar fótboltahetja, allavega klappa nú allir fyrir mér. Nákvæmlega það gerðist í Moldóvu. Þar var ég í síðustu viku sem sérstakur erindreki Evrópuráðsins að kortleggja stöðu mannréttindamála þar á bæ. Sú staða er ekki mjög góð.

Flestir kenna um kommúnískri alræðisarfleifð og hafa án efa nokkuð til síns máls. En skýringin á valdstjórnar(ó)menningunni á að mínu mati miklu dýpri rætur. Moldóva er hluti af Evrópu sem aldrei kynntist upplýsingu 18. aldarinnar í vestanverðri álfunni og lýðræði var um aldir og fram á þennan dag fjarstæðukennd hugsun. Þess vegna fangelsa menn andstæðinga sína og vilja að þeir standi og sitji eins og ríkjandi valdstjórn segir.

Að vísu er þetta ekki alveg svona. Almennt vilja menn feta þann veg sem vestanverð álfan hefur gert og horfa til vegvísa Evrópuráðsins, sem stendur mannréttindavaktina í álfunni. Þetta var önnur ferð mín til Moldóvu í þeim erindagjörðum að ræða við stjórnvöld um mannréttindi og lýðræði.

Í þessum ferðum hef ég hitt ráðamenn, heimsótt fangelsi, átt fundi með fulltrúum allra flokka, mannréttindasamtaka og grasrótarhreyfinga.

Einn daginn hitti ég framangreinda, forsetann, forsætisráðherrann, utanríkisráðherrann, forseta þingsins, innanríkisráðherrann og fangelsaða andófsmenn. Næsta dag var það grasrótin og fulltrúar landsvæða sem vilja kljúfa sig frá Moldóvu. Um flest voru menn ósammála. Nema um eitt: Allir vildu hylla íslensku fótboltahetjuna. Stundum var klappað!

Á hverjum einasta fundi, frá forseta til grasrótar, byrjaði fundurinn á hamingjuóskum vegna velgengni Íslands á knattspyrnuvellinum. Og ekki bara þarna, við þekkjum það mörg að fá sms sendingar frá erlendum vinum sem vilja samgleðjast Davíð gegn Golíat.

Fyrst var það Ófærð, sem allir höfðu horft á í sjónvarpi. Svo kom boltinn. Nú geta flugfélög og hótel hætt að auglýsa. Það er meira að segja bráðnauðsynlegt að þau geri það. Annars mætir allur heimurinn til okkar. Það væri svosem ágætt en þó verður það að segjast að hóf er í öllu best.

En ég get ekki annað en þakkað landsliðinu í knattspyrnu fyrir mig. Þið gerðuð mig að fótboltahetjunni sem ég aldrei varð.