ÞEGAR ÞÖGNIN TALAR

Amma II " ...Það er auðvelt fyrir svo nákominn ættingja að skrifa um mannkosti hennar, gjafmildi og hugprýði, en þar sem ég kann ekki að setja það í ljóðstafi, sem hún ætti skilið, gríp ég til þeirrar aðferðar stærðfræðinga að làta þögnina skýra það sem á vantar. ..."
Svona skrifar Ketill Ingólfsson um móðursystur sína, Margréti Helgu Vilhjálmsdóttur, tengdadmóður mína, í minningargrein um hana.
Ketill segir listilega vel það sem við mörg hefðum viljað sagt hafa; að þrátt fyrir orð í minningargreinum hefðum við viljað segja svo miklu meira, það verði þó aðeins sagt í ljóði eða í þögulli minningu sem talar til okkar.

Margrét Helga Vilhjámsdóttr var borin til grafar 18. maí síðastliðnn og birti ég þann dag, hér á heimasíðu minni, minningargreinar sem þá birtust um hana.

Fáeinum dögum síðar birtist fyrrnefnd grein Ketils Ingólfssonar og einnig grein Svölu Jónsdóttur, sem lýsir vel og af hlýju minningum sínum úr æsku sem heimagangur á heimili Margrétar Helgu,

Hér eru fyrri greinar: http://ogmundur.is/annad/nr/7836/
Hér að neðan eru síðan minningargreinar Ketils Ingólfssonar og Svölu Jónsdóttur:

Ævinlega með lyktum lófum
lof ræðandi á kné sín bæði
skepnan öll er skyld að falla,
skapari minn, fyrir ásjón þinni.
                  úr Lilju

Margrét móðursystir mín var fædd í Kirkjuvogi î Höfnum, dóttir Vilhjálms Ketilssonar, óðalsbónda, og Valgerðar Jóakimsdóttur, eiginkonu hans og kennara. Margrét varð sérstakt yndi foreldra og eftirlæti eldri systur og alls frændaliðs. Hún átti langa og viðburðarríka ævi og varð stoð og stytta fjölda fólks á lífsleiðinni.
Það er auðvelt fyrir svo nákominn ættingja að skrifa um mannkosti hennar, gjafmildi og hugprýði, en þar sem ég kann ekki að setja það í ljóðstafi, sem hún ætti skilið, gríp ég til þeirrar aðferðar stærðfræðinga að làta þögnina skýra það sem á vantar.
Margrét var heitin eftir móðurömmu sinni, bóndadóttur úr Dölum, sem ein neitaði að stíga á skipsfjöl, þegar foreldrar og systkin fluttust öll til nýrra heimkynna í Norður Dakota. Móðir Margrétar, Valgerður, var líklega fyrsta alþýðukona á Íslandi, sem fékk að ljúka æðri menntun í framhaldsskóla og varð kennari. Margrét stundaði sjálf menntakóla og háskólanám, þegar ungar konur áttu ekki auðveldan menntaframa. Börn hennar hafa hlotið mjög ýtarlega háskólamenntun og teljast til sérfróðustu vísindamanna þjóðarinnar, hver á sínu sviði. Margrét var gift þeim menntamanni, sem þjóðin þekkti bezt, að rödd og nafni, Andrési Björnssyni. Hann var skáld gott, en afburða þekking hans á skáldmennt þjóðarinnar var aðalsmerki hans sem fyrirlesara í þeirri stofnun, sem hann síðar lengi stýrði sem útvarpsstjóri. 
Ættbogi Margrétar lýsir í hnotskurn sögu þjóðarinnar og þá sérstaklega kvenna, frá örbirgð ísáranna í lok 19. aldar til umsvifa og hreystiverka nýja tímans.
Margrétar er sárt saknað í Elkins Park í Pennsylvaniu. Við Úrsula og börn okkar sendum õllu frændfólki á ættlandinu hinum megin við Hafið innilegar samúðarkveðjur.Guð blessi minningu hennar

Ketill Igólfsson  

Þegar ég var tíu ára fluttumst við fjölskyldan frá Kaupmannahöfn þar sem móðir mín var við nám í tónlistarfræðum og faðir minn stundaði rannsóknir á hinum íslensku handritum okkar í Árnastofnun. Um haustið byrjaði ég í ellefu ára bekk í Melaskóla og var mér fljótlega boðið í fyrsta afmælið, hjá bekkjarsystur minni Möggu.
Þar hitti ég foreldra hennar, Andrés Björnsson útvarpsstjóra og konu hans, Margréti Helgu, í fyrsta sinn að ég hélt. Svo reyndist þó ekki vera því fljótlega kom í ljós að þó ég þekkti þau ekki fyrir þekktu þau foreldra mína og höfðu hitt okkur fjölskylduna í Kaupmannahöfn á meðan við bjuggum þar. Með okkur Möggu Birnu, yngstu dóttur þeirra, tókst góð vinátta sem hefur haldist æ síðan og höfum við margt skemmtilegt brallað saman gegnum tíðina. Foreldrar Möggu voru því með þeim fyrstu sem ég kynntist eftir heimkomu mína til lands ísa, en ég varð fljótt heimagangur þar. Magga á þrjú eldri systkini, þau Völu, Villa og Óla, sem ég kynntist auðvitað einnig vel og hefur ávallt verið kært á milli. Nú og ekki má svo gleyma börnum þeirra allra sem ég tel einnig mörg hver til minna vina. Á barns- og unglingsárum vörðum við Magga mörgum stundum uppi í risherberginu hennar. Lærðum þar saman stöku sinnum,en oftast var bara einhver fíflagangur í gangi hjá okkur og ekki leiddist okkur, svo mikið er víst. Mamma hennar Möggu Birnu var ljúfasti töffarinn. Hún tók manni ávallt opnum örmum og dekraði við okkur á sinn skemmtilega máta. Andrés pabbi hennar var hæglátur, en afar ljúfur maður. Hann kvaddi mig með ljúfum orðum og bað ávallt fyrir kveðju til foreldra minna. Þegar við Magga vorum að fara út kom mamma hennar jafnan fram í gættina og sagði: Magga mín, ætlar þú ekki að greiða þér áður en þú ferð út? Ætlar þú að fara út í þessu? Af hverju getur þú ekki verið svolítið fín eins og hún Svala? Þetta var auðvitað algjörlega óverðskuldað hrós í minn garð þar sem það var yfirleitt Magga sem var flottari í tauinu.
Við uxum úr grasi og foreldrar Möggu fluttu af Hagamelnum og byggðu hús neðst á Hofsvallagötu. Þau hjónin bjuggu uppi, en í kjallaranum var íbúð sem flest börn og barnabörn hafa haft afnot af. Börnin hafa notið góðs af og Margrét Helga líka. Þegar ættmóðirin varð áttræð var mér boðið til veislu, enda nánast ein úr fjölskyldunni þó engin séu blóðböndin.
Gestirnir yfirgáfu samkvæmið og var ég ein eftir ásamt nánustu fjölskyldu afmælisbarnsins sem fór nú að opna gjafir sínar. Hver gjöf á fætur annarri opnuð með þessum orðum: Mikið er þetta fallegt. Hún/hann hefði nú ekki átt að vera að þessu. Síðan orðum beint til dætranna og sagt: Getið þið ekki notað þetta? Já, svona var hún Margrét Helga. Henni þótti ávallt sælla að gefa en þiggja og var eins og fyrr segir ofurtöffari. Þetta tel ég mannkosti mikla og kveð hana vinkonu mína með miklu þakklæti. Það voru forréttindi að fá að vera hluti af hennar lífi. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég Völu, Villa, Óla og loks Möggu Birnu, vinkonu minni, og fjölskyldum þeirra.

Með ljúfri kveðju,

Svala Jónsdóttir.

Fréttabréf