PENINGAR OG VALD

MBL - LogoBirtist í helgarblaði Morgunblaðsins 14/15.05.16.

Samtök Iðnaðarins segjast gjarnan vilja hlaupa undir bagga með ríkissjóði og kosta framkvæmdir við hafnir, flugvelli og vegi. Alls staðar þurfi að taka til hendinni og vilji samtökin leggja sitt af mörkum.

En bíðum við, er ekki eitthvað ósagt í þessu tilboði?

Varla ætla Samtök iðnaðarins að gefa okkur vegina, flugvellina og hafnirnar. Nei, svo er að sjálfsögðu ekki. Hugmyndin er sú, að fyrirtæki sem aðild eiga að SÍ, taki lán og leggi síðan út fyrir framkvæmdunum. Þá komi að okkur, notendunum að taka upp veskið, borga framkvæmdina, vaxtakostnaðinn og síðan arðsemisþóknun til handhafa hinna nýju mannvirkja.

Sannast sagna hélt ég að nú orðið sæju allir í gegnum þessa hagsmunaþræði og vísuðu á bug öllum gylliboðum sem úr þeim væru ofnir. Kysu þess í stað þá leið sem væri ódýrust og hagkvæmust, að borga beint og milliliðialaust í gegnum sameiginlega sjóði og létu sjálfboðaliða í tollheimtu lönd og leið.

Þetta hefur að sjálfsögðu ekkert með markaðshyggju að gera, hvorki með eða á móti, því fyrir löngu er búið að markaðsvæða allar framkvæmdir á vegum Vegargerðar og flugvallanna og hafnanna. Þar eru nánast allar framkvæmdir boðnar út á opnum markaði. Sem betur fer tókst þó að halda í tvo brúarvinnuflokka hjá Vegagerðinni, ella hefði okkur skort sérfræðingakjarnann þegar Múlakvíslarbrúin gaf sig sumarið 2011. Þá komu kunnáttumenn Vegagerðarinnar frá Hvammstanga og Vík  á vettvang og settu upp nýja brú á viku og slógu þar með án efa Evrópumet ef þeir ekki settu heimshraðamet í brúarsmíði í kviksyndum jökulsárafarvegi.
Og það eitt vitum við mæta vel að stríðlynd Múlakvísl verður ekki síðasta náttúruaflið sem gerir okkur skráveifu. Náttúruhamfarir verða fylgifiskur landsins okkar íss og elda, um ókomna framtíð.

En það er annað og meira sem hangir á spýtunni. Þegar fjárveitingavaldið og skattheimtan er færð úr höndum þings og sveitastjórna og til einkaaðila eins og nú er falast eftir, þá er hætt við því að skipulagsvaldið fylgi með. "Við skulum leggja veg hér og stækka höfn og flugvöll þar, en vel að merkja, við sem tökum áhættuna, vogum til að vinna eða tapa, verðum að fá að ráða hvar framkvæmt er." Svona mun söngurinn hljóma.

En er þetta gott og æskilegt? Við höfum dæmin fyrir okkur. Sú freisting hefur greinilega verið raunveruleg í Reykjavík að skipulag í einstökum borgarhlutum og á einstökum svæðum hafi ráðist af því hvað verktakar telja sig mest geta haft upp úr krafsinu á hverjum stað. Það þýðir að byggingarmagn og arðurinn af því, verður ráðandi fremur en hvað kemur samfélaginu best eða hvað gleður augað. Með öðrum orðum, peningar og gróði ráða för. Við eigum hins vegar þvert á móti að smíða okkur skipulagskerfi sem aftengja sem best gróða og stefnumótun, peninga og vald.    

Fréttabréf