Fara í efni

MARGRÉT INDRIÐADÓTTIR KVÖDD

margrét indriðadóttir
margrét indriðadóttir

Ég hef stundum hugsað til þess hve magnaður vinnustaður Ríkisútvarpið var lengst af, á öldinni sem leið. Örugglega ekki alltaf auðveldasti vinnustaður í heimi með öllum þeim stórveldum sem þar var að finna. Á Ríkisútvarpinu hafði nefnilega verið safnað saman eða kannski höfðu þar bara safnast saman um segulinn sem þessi menningarstofnun var, margir sterkir persónuleikar, gáfað fólk og hæfileikaríkt, skaphitafólk með metnað og miklar skoðanir - og  miklar kröfur. Óhætt er að segja að á Ríkisútvarpinu hafi starfað kröfuhart fólk sem vildi aðeins það besta.

Allt þetta var einkennandi fyrir Margréti Indriðadóttur, fyrrverandi fréttastjóra. Hún var vandlát, gerði miklar kröfur til sjálfrar sín og fréttastofunnar sem hún verkstýrði. Undir þeim kröfum reis hún vel. Og gott betur. Hún var stórveldi á sínu sviði og sem einstaklingur skar hún sig úr. 

Ég fékk að kynnast Margréti þegar ég kom til starfa á fréttastofu Útvarps vorið 1978. Ekki starfaði ég lengi undir hennar verkstjórn þar, því um haustið færði ég mig yfir á fréttastofu Sjónvarpsins. Ég kynntist henni þó nóg til að átta mig á hve stór hún var í sniðum og hve djúp spor hún skildi eftir sig.

Minningargreinarnar sem birtust um hana bera vitni mikilhæfum stjórnanda, góðum samstarfsmanni og hlýrri fjölskyldumanneskju.

Mikill sjónarsviptir er að Margréti Indriðadóttur. Ég votta fjölskyldu hennar samúð mína.