Fara í efni

BROSAÐ GEGN GJALDI

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 19/20.03.16.
Eitt af því sem gert hefur Ísland sérstakt í okkar eigin augum og þá ekki síður aðkomumanna, er að við skulum vera laus við þjórfé. Og þá líka allt það sem þjórfé fylgir í mannlegum samskiptum.
Smámál? Ekki þykir það úti í hinum stóra heimi.

Víðast hvar þar sem þjórfé tíðkast er reynt að losna við það. Verkalýðshreyfingunni þykir þetta fyrirkomulag tilræði við eðlilegt launa- og réttindakerfi og almennt þykir ferðamönnum þetta hin mesta áþján. Auðvitað er til í dæminu að fólk vilji borga fyrir sérstaklega gott viðmót en almenna reglan er þó sú að ferðamenn spyrja hvað þeim beri að greiða í þjórfé, tíu prósent ofan á auglýst verð, fimmtán prósent eða tuttugu? Fólki finnst óþægilegt  - það þekkjum við af eigin raun - að gefa minna en ætlast er til.

Vel má vera að hjá einhverjum ráðist upphæðin af því hve stimamjúkt þjónustufólkið er, hve mjög það krjúpi greiðanda sínum en yfirleitt er þetta nú ekki rishærra en svo, að menn láta sig hafa það að borga það gjald sem þeir telja að reiknað sé með. Einhverjir sem hafa mikil efni kunna að vilja borga ríflega til að fá enn meiri þjónustu og enn meira beygt og bukkað. Ekki mikil reisn þar, hvað þá jafnræði með þeim sem þjónar og hinum sem þjónað er.

Í breska blaðinu Times var fyrir nokkrum dögum úttekt á tilraunum Breta að kveða þjórfjárkerfið niður. Þar var bent á að víða væri farið að láta þjórféð renna inn í sjóði viðkomandi fyrirtækis og nytu þá starfsmenn iðulega í öfugu hlutfalli við laun sín. Auk þess væri það að sjálfsögðu svo, að þar sem þjórfé væri hlutfall af verði máltíðar eða þjónustu, þá fengju þeir mest sem störfuðu á dýrari stöðunum og væru þá jafnframt með skárri laun en tíðkuðust á hinum ódýrari.

Einhvers staðar hef ég séð haft eftir forsvarsmönnum íslenskra verkalýðsfélaga að þeir teldu fráleitt að fúlsa við þjórfé og ferðamálaráðherrann vísar því frá að leggja bann við þjórfé með lögum. Því síðara get ég verið sammála. Ekki er hægt að koma í veg fyrir þennan ósið með lögum fremur en hótelrekendur sem telja viðskiptavinum sínum trú um að íslenskt kranavatn sé stórhættulegt og því ráð að kaupa á hótelinu átappað vatn!

En þótt lagasetning sé ekki svarið,  þá  getum við eflaust sameinast um ákveðnar siðvenjur og það hafa Íslendingar gert til þessa varðandi þjórféð. Og þótt einhverjir verkalýðsforkólar vilji ekki hafa þessar sporslur af félagsmönnum sínum, þá hygg ég að þeir ættu að hugsa málið til lengri tíma. Við vitum að launamarkaðurinn byggir sjaldnast á sanngirni. Atvinnurekandinn spyr oftar en ekki - því miður er þetta svo - um hvað hann komist upp með að borga lítið. Verði hann þess áskynja að þjórfé sé orðið verulegt hlutfall tekna starfsfólksins þá dregur hann úr föstum greiðslum.

Þetta kennir reynslan erlendis frá. Hún kennir líka að þjónustufólkið á við slíkri kjaraskerðingu augljósan mótleik: Einfaldlega brosa breiðar og beygja sig enn betur. Og síðan koll af kolli.