FORMANNI HEIMILISLÆKNA VELKOMIÐ AÐ FARA Í BISNISS

Heilbriðis - kerfi

Fréttablaðið og Eyjan í kjölfarið, greina okkur frá áhuga formanns Félags íslenskra heimilislækna á því að fara út í bisniss. Hann vill jafnframt að heilsugæslustöðvar verði einkavæddar og geti greitt út arð eins og "önnur heilbrigðisfyrirtæki."

Haft er eftir formanninum, Þórarni Ingólfssyni að "ungir, velmenntaðir læknar hefðu áhuga á að standa í eigin rekstri."

Gott og vel. Það bannar þeim enginn að gera það!

Ef þeir hins vegar ætlast til þess að ég og aðrir skattborgarar borgi þeim og öðrum bisnissmönnum á hvítum sloppum arð fyrir að braska í einkavæddu heilbrigðiskerfi, þá ætla ég að leyfa mér að hafa á því skoðun. Að vel ígrunduðu máli þá er ég því algerlega andvígur og hef ég margoft fært ítarleg rök fyrir þeirri afstöðu minni.

Dapurlegt er að þurfa að glíma við heilbrigðisráðherra sem kýs að ganga erinda sinnar pólitísku kreddu um einkavæðingu. Enn verra er þegar talsmenn lækna gerast málsvarar peningahyggju innan velferðarþjónustunnar. Þá er illa komið fyrir þeirri stétt.

http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/02/26/formadur-felags-islenskra-heimilslaekna-vill-ad-heimilt-verdi-ad-greida-ard-af-rekstri-heilsugaeslustodva/

Fréttabréf