Fara í efni

VARNIR ÍSLANDS ÖFLUGRI EN BANDARÍKJANNA

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 11.12.15.
Þegar alvarleg vá steðjar að samfélögum fæst innsýn í styrk innviða þeirra. Mörgum brá í brún þegar fellibylurinn Katrina gekk yfir Bandaríkin árið 2005, hve vanmáttugt helsta hernaðarveldi heims reyndist vera frammi fyrir eyðileggingu af völdum byljarins. George W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforsti þakkaði og þáði utanaðakomandi aðstoð en orkaði ekki einu sinni að þakka fyrir tilboð Kúbu um að senda sveit lækna til Lousiana sem hafði orðið verst úti í óveðrinu. Voru kúbanskir læknar þó allra best til þess fallnir vegna þjálfunar og reynslu að veita aðstoð við þessar aðstæður. Þetta þótti forseta ríkidæmisins ekki nógu góð skilaboð.

Vanmáttugt ríkidæmi

Oftar hefur það komið mönnum á óvart hve vanmáttugar ríkustu þjóðir reynast iðulega við erfiðar aðstæður af þessu tagi. Það hafa margir Íslendingar sem upplifað hafa náttúruhamfarir erlendis  reynt á eigin skinni.
Það er nefnilega ekki sama að búa yfir tortímandi tækni í stríði annars vegar og glíma við óvægin náttúruöfl hins vegar. Þá skiptir máli hversu öflug heilbrigðisþjónustan er, almenna  löggæslan og löggæslutengd þjónusta á borð við sjúkraflutninga og  brunavarnir. Áfram mætti telja upp mikilvæga innviði, raforkugeirann, vatnsveitur og að sjálfsögðu samgöngukerfið. Það hefur oft vakið furðu manna hve lítið má fara úrskeiðis í Bandaríkjunum til að rafmagn slái út á stórum svæðum.

Arðsemishugsun dregur úr öryggi

Hverju sætir þetta? Gæti ástæðan verið sú að þjónusta sem er einkavædd og rekin með hagnað einan að leiðarljósi, að undanteknum einhverjum lágmarkskröfum sem hið opinbera setur með regluverki, er líklegri til að vera berskjaldaðri en starfsemi sem rekin er í almannaþágu einvörðungu og setur öryggi í öndvegi umfram hagnað?
Þetta er að sjálfsögðu veruleikinn. Þegar það síðan gerist - einsog gerðist í tíð Bush, fyrrum Bandaríkjaforseta, að dregið er úr hinu opinbera regluverki - Bandaríkjamenn kalla það deregulation - þá minnkar öryggið enn.
Þetta er enginn áróður heldur einfaldar beinharðar staðreyndir.

Landsbjörg er okkar varnarher

Hverjar eru þá varnir Íslands gegn alvarlegri náttúruvá? Það eru fyrrgreindir innviðir auk þess aðila  sem enn er ónefndur, björgunarsveitanna okkar í Landsbjörg. Þær eru hinn eiginlegi íslenski varnarher ásamt almennri löggæslu, heilbrigðisþjónustu og annarri innviðaþjónustu.
Það var ánægjulegt að sjá samhæfðar sveitir löggæslu og björgunarsveita, veðurmælingamanna, Vegagerðarinnar  og heilbrigðisþjónustu samhæfa viðbrögð sín, fyrst í forvarnarskyni síðan í viðbragðsþjónustu, þegar óveðrið reið yfir fyrr í vikunni.

Vegagerðin og lærdómurinn af Múlakvísl

Eftirminnilegt er það þegar brúna tók af Múlakvísl árið 2011, hve skjótt Vegagerðin brást við. Komin var ný bráðabirgðabrú viku eftir hamfarirnar. Þetta hefði enginn getað gert betur en íslenska Vegagerðin. Það leyfi ég mér að fullyrða.
Hvers vegna? Svarið er tvíþætt. Vegagerðin hefur á að skipa heimsins mestu sérfræðingum í brúarsmíð yfir jökulár. Engir á byggðu bóli standa þeim þar framar í því efni. Sérfræðiþekkingunni  er það svo nátengt að Vegagerðin er jafnan við öllu búin að bregðast við náttúruhamförum af þessu tagi, með brúarefni, iðulega úr mannvirkjum sem tekin hafa verið niður, dreift víðs vegar um landið, allt skilmerkilega skráð og auðveldlega aðgengilegt þegar á þarf að halda.
Í einkavæðingarfári áratuganna sitt hvoru megin við aldamótin munaði minnstu að síðustu brúarflokkum Vegagerðarinnar, annars vegar á Vík og hins vegar á Hvammstanga,  yrði sagt upp störfum svo utanaðkomandi verktakar gætu tekið þessa þjónustu einnig yfir.
Hættan er hins vegar sú þegar allri kjarnaþjónustu Vegagerðarinnar af þessari gerð er úthýst getur það hæglega gerst að sérþekkingin glatist. Það má ekki gerast.

Veitum ríkisstjórninni aðhald

Það er líka hugsun sem er þess virði að velta fyrir sér í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn vill garnan einkavæða innviði og mun ganga eins langt í því efni og hún kemst upp með, hvers virði það er að búa við trausta innviði í samfélaginu; innviði sem ekki eru undirseldir gróðamarkmiðum.
Það má ekki henda okkur að varnir Íslands verði jafn ótraustar og varnir Bandaríkjanna, höfuðvígis markaðshyggjunnar.