Fara í efni

ER MORGUNLAÐIÐ EITT UM AÐ SÝNA TiSA ÁHUGA?

Tisa og Mbl
Tisa og Mbl


Sannast sagna þykir mér nokkurri furðu sæta hve lítinn áhuga íslenskir fjölmiðlar sýna TiSA viðræðunum í Genf. Þó eru þær öndverðan við loftsalagsviðræðurnar í París, því þær ganga út á tilraunir alþjóðafjármagnsins að greiða götu markaðsviðskipta á sviði orkuframleiðslu og umhverfismála og reisa lýðræðinu skorður á því sviði.  

Þegar Wikileaks kom upplýsingum á framfæri um gang viðræðnanna um "Environmental Services", umhverfistengd þjónustuviðskipti, í síðustu viku greindi mbl.is einn fjölmiðla frá því. Látum það vera ef áhugi annarra hefði í kjölfarið vaknað við þá frétt.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/12/03/tisa_a_skjon_vid_loftslagsmarkmid/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/12/03/skelfilegt_ad_horfa_upp_a_thetta/  

Svo hefur þó ekki orðið, að því er ég best fæ séð, og það jafnvel þótt fram hafi komið í fréttinni að Íslendingar og Norðmenn hafi verið með sérstakar tillögur í þessum viðræðum, sem að margra mati eru fullkomlega ósiðlegar. Þær byggja á tilraun ríkari hluta heimsins til að þröngva hinum snauðari hluta inn í markaðsmót, hannað af þeim fyrrnefnda.

Ég fjallaði um þessar fréttir hér á heimasíðunni í vikunni sem leið og gaf þar jafnframt slóðir á síðustu uppljóstrun Wikileaks og tilvisan í fréttatilkynningu frá Public Services International, PSI, sem eru samtök launafólks í almannaþjónustu, sem fylgjast grant með þessum viðræðum svo  og fyrri umfjöllun af minni hálfu: Sjá hér, https://www.ogmundur.is/is/greinar/enn-kallad-eftir-umraedu-um-tisa-a-althingi  

Í dag fjallar Morgunblaðið um málið og leyfi ég mér hér að neðan að birta texta úr umfjöllun blaðsins, sem ber eftirfarandi fyrirsögn og undirfyrirsögn:

SÍNUM AUGUM LÍTUR HVER Á TISA
Gagnrýnendur telja að TISA-samningur myndi vinna gegn markmiðum í loftslagsmálum og takmarka vald stjórnvalda til að fylgja markmiðunum eftir. Utanríkisráðuneytið telur að svo yrði ekki.

Baksvið

Töluverðrar tortryggni hefur gætt í garð svonefndra TISA-viðræðna, í kjölfar þess að uppljóstrunarvefurinn Wikileaks birti ný skjöl um viðræðurnar. Samtökin PSI (Alþjóðasamband starfsfólks í almannaþjónustu), sem hafa greint gögnin, telja að samningurinn verði til þess að erfiðara verði fyrir stjórnvöld að fylgja eftir því samkomulagi sem kann að nást á loftslagsráðstefnunni í París.

Um TISA segir m.a. á heimasíðu utanríkisráðuneytisins: »Markmið viðræðna um aukið frelsi í þjónustuviðskiptum (Trade in Services Agreement, TISA) er að auðvelda milliríkjaviðskipti með þjónustu og auka gegnsæi í slíkum viðskiptum. Ísland, ásamt fimmtíu öðrum ríkjum, tekur þátt í samningaviðræðunum en þar á meðal eru aðildarríki ESB, Bandaríkin, Kanada, Noregur, Sviss, Japan o.fl.. Samningurinn mun byggja á gildandi samningum (GATS reglum) og fjalla m.a. um fjármálaþjónustu, fjarskipta- og upplýsingatækni, för þjónustuveitenda og rafræn viðskipti. Viðræðurnar eru formlega utan WTO en vonast er til að fleiri aðildarríki WTO gerist aðilar að TISA-samningnum þegar fram í sækir.«

Jafnframt kemur fram að í því tilboði, sem lagt hafi verið fram af Íslands hálfu í TISA-viðræðunum, sé gert ráð fyrir afar takmörkuðum skuldbindingum hvað varðar dvöl erlendra þjónustuveitenda hér á landi, sem rúmist vel innan núverandi lagareglna.

Ögmundur tortrygginn

Líkt og fram hefur komið í fréttum að undanförnu beinist tortryggni gagnrýnenda TISA-viðræðnanna einkum að því að með TISA-samningi muni stjórnvöld afsala sér aðhalds- og eftirlitshlutverki á ýmsum sviðum, s.s. með fjármálaþjónustu, fjarskipta- og upplýsingatækni og för þjónustuveitenda í hendur stórfyrirtækja. Hörðust hefur gagnrýni í garð TISA-viðræðnanna hér á landi verið hjá Ögmundi Jónassyni, þingmanni VG. Hann sagði m.a. við mbl.is í síðustu viku: »Ég tek undir með Rósu Pavanelli, formanni Alþjóðasambands starfsfólks í almannaþjónustu (PSI), sem segir að það sé óþolandi að á meðan lýðræðislega kjörnir fulltrúar sitja á ráðstefnu í París að ræða um sameiginleg markmið, þá skuli fulltrúar þeirra sitja á leynifundi suður í Genf að véla um með hvaða hætti er hægt að setja ríkjunum skorður.«

»Á sama tíma og helstu ráðamenn heims reyna að ná alþjóðlegu sam-komulagi í París í baráttunni gegn hlýnun jarðar, eru samningamenn þeirra á fundi í Genf þar sem þeir reyna fyrir luktum dyrum að búa til nýtt fríverslunarsamkomulag sem gæti aukið losun gróðurhúsalofttegunda og valdið enn meiri breytingum á loftslagi jarðar,« segir m.a. í fréttatilkynningu frá PSI.

Réttur ríkja til hagnaðar hverfi

Haft var eftir Victor Menotti, skýrsluhöfundi PSI, í tilkynningu í liðinni viku að TISA-samningur myndi »draga úr yfirráðum ríkja yfir auðlindum sínum með því að skylda ríki til að búa til frjálsan markað fyrir erlenda aðila sem útvega orkutengda þjónustu. Þannig myndi réttur ríkjanna til að tryggja hagnað af auðlindum sínum hverfa á braut.«

Í skriflegu svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is á laugardag, sagði að erfitt væri að sjá, með hvaða hætti TISA-samningur myndi vinna gegn markmiðum í loftslagsmálum.

Fram kom í svari ráðuneytisins að TISA-viðræðurnar væru tilraun yfir 50 ríkja til að greiða enn frekar fyrir viðskiptum með þjónustu en nú er. Þjónustuviðskipti samsvari um 36% af heildarviðskiptum Íslands við umheiminn.

Ísland og Noregur hafa gert tillögur um orkutengda þjónustu í TISA-viðræðunum. Um það segir í svari ráðuneytisins: »Markmið Íslands og Noregs með tillögum um orkutengda þjónustu er að greiða fyrir því að sú sérfræðikunnátta sem byggst hefur upp á Íslandi á undanförnum áratugum, t.d. á sviði nýtingar jarðhita, geti átt sem greiðastan aðgang að öðrum mörkuðum kjósi viðkomandi ríki að nýta til dæmis jarðhita.«

Og ennfremur segir í svari ráðuneytisins: »Í tillögu Íslands og Noregs um orkutengda þjónustu er kveðið á um tilteknar skuldbindingar samningsaðilanna um gagnkvæman markaðsaðgang fyrir þjónustuveitendur hinna ríkjanna fyrir orkutengda þjónustu. Í tillögunni er fullveldi og yfirráðaréttur ríkjanna yfir eigin orkuauðlindum sérstaklega áréttaður.«