Fara í efni

VERÐUM AÐ FÁ FRAM AFSTÖÐU HVERS EINASTA ÞINGMANNS!

Alþingi - nov 2015
Alþingi - nov 2015

Ríkisstjórnarflokkarnir og helstu fjölmiðlar landsins hafa nú hafið stórsókn gegn Ríkisútvarpinu. Fjölmiðlar í eigu stórfyrirtækja og fjármálamanna krefjast þess að RÚV verði skorið niður við trog.

Þetta eru sömu stjórnmálaflokkar og gerðu Ríkisútvarpið að hlutafélagi illu heilli og sömu fjölmiðlar og alltaf hafa viljað sitja einir að auglýsingamarkaði. Það sem breyst hefur frá því að Ríkisútvarpið var ohf-vætt er að Framsóknarflokkurinn er nú kominn í lið með frjálshyggjumönnum sem vilja að peningaöflin ráði öllum fjölmiðlum í landinu.

Það undrar mig ekki að fjölmiðlar sem byggja á auglýsingum vilji ná öllum auglýsingatekjum af Ríkisútvarpinu. Það er ekkert nýtt. En að erindrekar þeirra í stjórnmálum leyfi sér að ganga gegn almannahag með þessum hætti er ekki bara ósvífni heldur merkjasending til þjóðarinnar um að hætta sé á ferðum.

Annað hættumerki: Á sama tíma og þetta gerist leyfa atvinnurekendasamtökin sér að tala gegn hugmyndum um samfélagsbanka. Reynslan af þeim sé slæm!  Allir bankar séu betur komnir undir handarjaðri fjárfesta. Þetta eru sömu aðilar og töluðu með einkavinavæðingu bankanna á sínum tíma. Ríkisbankarnir voru aldrei baggi á þjóðinni. Landsbankinn fékk tímabundinn stuðning í byrjum tíunda áratugarins og greiddi allt til baka. Eftir einkavinavæðingu bankanna fóru þeir  hins vegar svo illa að ráði sínu að þjóðarbúið var sett á hliðina. Hvorki meira né minna. Hvernig í ósköpunum geta menn leyft sér að tala svona?

Nefna mætti fleiri stofnanir sem sömu öfl hafa eyðilagt. Póstur og sími skilaði landsmönnum ódýrustu símaþjónustu á byggðu bóli og milljörðum að auki í ríkiskassann á ári hverju!  Eftir einkavæðingu er Síminn orðinn leiksoppur á fjármálamarkaði svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Nú þurfa allir stjórnmálaflokkar og allir stjórnmálamenn  að tala skýrt:
1) Eru þeir fylgjandi einkavæðingu alls fjármálakerfisins eða vilja þeir samfélagsbanka?
2) Vilja þeir öflugt Ríkisútvarp?

Ég vil að Landsbankinn verði að fullu í eigu ríkisins og gerður að samfélagsbanka.
Ég vil að Ríkisútvarpinu verði breytt í fyrra horf og eflt sem samfélagsstofnun til stuðnings íslenskri menningu og fjölbreyttri og frjálsri umræðu, óháð íhlutun peningaafla í gegnum eignarhald. Allt tal um að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði er ávísun á stórfelldan niðurskurð því varla er ætlunin að bæta tekjutapið í ljósi yfirlýsinga ráðandi stjórnmálaafla.

Hvaða fjölmiðill ætlar að gangast fyrir því að leiða fram afstöðu hvers einasta fulltrúa á Alþingi,  sem hefur ákvörðunarvaldið á sinni hendi, til þessara brennandi spurninga?

Kjósendur eiga rétt á því að vita um afstöðu hvers einasta þingmanns.