Fara í efni

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN SLÆR FYRRI MET

XD - taka 2
XD - taka 2

Nýafstaðið er bankahrun á Íslandi. Einkavæddir bankar fóru svo illa að ráði sínu að þeir urðu ekki aðeins gjaldþrota sjálfir heldur tóku þeir íslenskt efnahagskerfi  með í fallinu.

Við þessar aðstæður leggur Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis til að ríkið haldi eignarhaldi yfir einum banka sem látin yrði gæta hagsmuna almennings fremur en fjárfesta sem í gegnum eignarhald mjólkuðu bankann með arðgreiðslum ofan í sinn vasa.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, horfir gjarnan framhjá gjaldþroti banka og þjóðarbús, sem honum greinilega þykir svo mikið smáræði að vart sé orð á gerandi. Þeim mun meira horfir hann til Íbúðalánasjóðs sem ekki fór varhluta af óráðsíu bankanna einsog allt fjármálakerfi landsins.

En hvers vegna fyrirsögin?

Í hverju liggur metið? Jú, metið er óskammfeilnin sem fram kom í máli Guðlaugs Þórs þegar hann spurði Frosta Sigurjónsson um það hvort,
 a) hann teldi það standast samkeppnislög að reka samfélagsbanka í eigu ríkisins, m.ö.o., banka sem hugsaði um viðskiptavini fremur en eigendur!
og
b) (og þá var metið slegið:) hvort sporin hræddu ekki þegar kæmi að eignarhaldi ríkisins á bönkum?!!!

Um þetta og tengd efni hef ég stundum fjallað áður, hér t.d. nýlega:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/verdum-ad-fa-fram-afstodu-hvers-einasta-thingmanns  og
https://www.ogmundur.is/is/greinar/mjaltamenn

Á Alþingi á þriðjudag gerði ég einnig grein fyrir málinu en Guðlaugur Þór Þórðarson veitti mér andsvör enda hafði hann skilið sjálfan sig á annan hátt en flestir sem á höfðu hlýtt, sjá hér: http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20151110T180807&horfa=1

En Guðalugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var ekki einn um að brillera sl þriðjudag. Það gerði leiðarahöfundur Morgunblaðsins líka. Ég hvet alla til að nálgast þennan leiðara þó ekki væri nema til að kynna sér hverjum hæðum unnt er að ná í firringu hugans.

Það verður að vísu að segjast að í ferðalagi  leiðarhöfundar víða um völl er ymprað á ýmsum áhugaverðum þáttum enda segist höfundur vilja „upp úr hjólförunum". Það tekst þó ekki betur en svo að þegar hann fjallar um framtíð bankakerfisins á forsendum viðskiptavina fremur en fjárfesta, að hann steinliggur í því hjólfari sem hann segist vilja upp úr:

Á landsfundi VG beindist umræðan að nauðsyn þess, að einn bankinn a.m.k. yrði „samfélagsbanki". Flestir verða ósjálfrátt varir um sig þegar slíkum blíðmælum er klínt á tilvonandi opinbera stofnun. En auðvitað er ekkert að því í lýðræðisríki að viðra svona hugmyndir og fylgja þeim. Væntanlega felst það í hinu göfuga heiti að arðsemiskröfur séu aftarlega á meri þess konar banka. Því sé sjálfsagt að lýðræðislega kjörnir fulltrúar stjórni honum, enda mun „samfélagslegt mat" verða lagt til grundvallar ákvörðunum.

Menn muna stofnanir eins og Framkvæmdastofnun, Byggðastofnun, nýsköpunarsjóði og svo framvegis. Ýmsir nefna Íbúðalánasjóð sem „samfélagsstofnun" ..."

Það er meira hvað þessi samfélagssjónarmið eru slæm og hafa reynst illa. Öðru var nær þegar ríkisbankarnir höfðu verið losaðir úr viðjum samfélagsins...!

Uppúr hjólfarinu?