ÁHUGAVERÐ VARA?

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 14./15.11.15.
MBL- HAUSINN

Ég skal játa að ég verð alltaf hálf banginn þegar farið er að tala um græna orku. Þetta kann að hljóma undarlega frá þingmanni  "græns framboðs."  Þess vegna er líka skýringar þörf.

Ég er því fylgjandi að virkja orkulindir sem eru ekki mengandi og sem ekki eru eyðileggjandi fyrir umhverfið. En iðulega er síðara skilyrðinu sleppt og aðeins horft til mengunar. Samkvæmt þessari skilgreiningu er nánast öll innlend orkuframleiðsla græn.

Og grænastur af öllum væri virkjaður Gullfoss eða Dettifoss. Goðafoss væri einnig álitlegur eða háhitasvæðið við Landmannalaugar. Þarna mætti fá mikla "græna" orku.

Íslendingar sýna gjarnan útlendingum stoltir orkuverin sín. Sjáið hve umhverfisvæn og græn við erum, þið getið lært af okkur!

Vandinn er sá að Gullfoss og Dettifoss   eru ekki á hverju strái. Ekki heldur Landmannalaugar.  Hvorki sem orkulindir né sem náttúruperlur.

Með vaxandi ferðamannastraum eru Íslendingar að átta sig á efnahagslegu mikilvægi náttúrudjásna og þar með óspilltrar náttúru, óbeislaðra náttúruafla.

Ég hlustaði á ágætt viðtal við forstjóra Landsvirkjunar í útvarpi í vikunni. Hann var upprifinn yfir heimsókn Camerons, forsætisráðherra Breta, sem hafði lýst áhuga á sæstreng til að flytja raforku frá Íslandi til Bretlands. Aldrei hafði það gerst svo forstjórinn vissi, að forsætisráðherra stórþjóðar hefði sýnt tiltekinni vöru svona mikinn áhuga.

 "Varan" var rafmagnið en kennitalan óljós. Við vitum nefnilega ekki hvaðan ætlunin er að sækja "vöruna".  Án efa í einhvern mjög grænan valkost. Ég hefði áhyggjur héti ég Goðafoss.

Sæstrengur gæti nýtt betur umframorku innanlands, var okkur sagt. Slík umframorka gæti numið 30% af heildarsölunni. En 70% sem eftir stæðu? Við þyrftum að virkja fyrir þeim, upplýsti forstjóri Landsvirkjunar.

Hann upplýsti jafnframt að nú hefðum við Rammaáætlun. Hún gerði kleift að taka ákvörðun um virkjanir á "faglegum" forsendum.

Hugsunin með rammaáætlun um raforkuframleiðslu er vissulega góð. Það er bara einn hængur á. Hann er sá að tilgangur framleiðslunnar er aldrei skilgreindur. Guðfaðir rammaáætlunar, Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi þingmaður , hefur bent á takmörk  þessa afkvæmis síns. Segir það til lítils nýtt, láti menn undir höfuð leggjast að spyrja  til hvers eigi að virkja og hversu mikið.

Og skal þá vikið aftur að verslunaráhuga Camerons, forsætisráðherrans breska. Vilji hann kaupa "vöruna"  á góðum prís, jafnvel í miklu magni, værum við þá til í að grípa til grænu kostanna sem við eigum svo mikið af? Allt til að svara eftirspurn eftir vöru?

Fréttabréf