ÁHRIFARÍK LESNING

Séra Gunnlaugur Stefánsson, prestur í Heydölum og fyrrverandi alþingismaður, birtir í dag áhrifaríka grein um hryðjuverk og viðbrögð við þeim. Greinin birtist í Fréttablaðinu og heitir Hefndin. Ég leyfi mér að birta greinina hér að neðan og hvetja til að hún sé lesin. Óskandi væri að fleiri hugsuðu á þann veg sem séra Gunnlaugur gerir:
Ég hef ferðast um Víetnam, Kambódíu og Laos og dáist að
æðruleysi fólksins og gestrisni. Verðskulda ég það? Þessar þjóðir
sem reynt hafa meiri hörmungar af hryðjuverkum vestrænna landa en
hægt er að lýsa með orðum. Fjöldamorðin á saklausu fólki í My Lai í
Víetnam 16. mars 1968 eru greypt í vitund til vitnis um það. Að
baki hryðjuverkum í Indókína stóð okkar heimshluti; ríki sem í
tímans rás hafa beitt drottnunarvaldi víða um veröld og eru ekki
ókunnug heilögu stríði.
Hvað hafa mörg börn látið lífið vegna hryðjuverkaárása vestrænna
ríkja í Afganistan, Írak, Sýrlandi, Líbíu og víðar? Gætu ástvinir
barnanna átt harma að hefna, beitt hefndinni í viðbrögðum sínum og
látið bitna á saklausu fólki mitt á meðal okkar, vestrænna þjóða?
Hvað leyfist vestrænu ógnarvaldi að ganga langt í hryðjuverkum í
fjarlægum löndum í nafni hefndar eða ásælni, án þess að bitni á
okkar eigin lífsháttum, öryggi, frelsi og lífi? Er lífið dýrmætara
á Íslandi en í Sýrlandi?
Í Suður-Afríku sameinaðist svarti meirihlutinn um að láta hefndina
ekki ráða för í uppgjörinu við hvíta minnihlutann eftir viðvarandi
hryðjuverk og kúgun árum saman. Mótuð var vegferð sátta og friðar.
Margir höfðu misst ástvini sína, liðið kvalir, þolað pyntingar og
ofsóknir; og töldu sig eiga harma að hefna og fannst
óyfirstíganlegt að umbera eða fyrirgefa kúgurum sínum. En framtíð
þjóðar stóð og féll með því að sættir tækjust. Sú vegferð var
farin, máttugt ákall um frið í samskiptum fólks og ríkja.
Í Víetnam sameinaðist heimafólk um vegferð sátta og friðar eftir að
Frakkar höfðu verið hraktir frá nýlendu sinni, og Bandaríkin í
kjölfarið reynt sína mestu niðurlægingu eftir hryðjuverkaárásir á
örsnautt fólk árum saman. Þar hafði öllum tiltækum mannafla verið
beitt með háþróuðum vopnum, og efnavopnin ekki undanskilin. Talið
er a.m.k. hundrað þúsund börn hafi látið lífið í þeim hryðjuverkum.
Með friði eftir að innrásarherinn var á braut sameinaðist
heimafólkið um að horfa fram á veg og syrgja látna ástvini úr
hamförunum með því að elska lífið, minnast og byggja upp.
Þess njótum við svo innilega og finnum á ferðum okkar um þessi
lönd.
Enn berast stórveldin á banaspjótum um heimsbyggðina, þar
sem saklaust fólk deyr eða særist, leggur á flótta frá heimkynnum
sínum, líður þjáningar og kvöl, og skiptir þúsundum á hverjum
einasta degi. En ekki við sem eigum frelsið og mannréttindin,
auðinn og valdið. Hjá okkur gilda önnur lögmál. Lífið er heilagt og
allt sem því tilheyrir og við viljum verja það af mætti. Er þá allt
leyfilegt, ef það bitnar á öðrum en okkur sjálfum? Er saklaust líf
í Írak eða Sýrlandi þá léttvægt fundið, ef tilgangurinn helgar
meðalið með hefndinni?
Hefndin getur verið dýrkeypt. Og leysir engar deilur og græðir
ekki sár. Það hefur reynslan kennt. Sæmdin og hatrið, sem hefndin
nærir, virðist þó geta orðið allri skynsemi máttugri.
En gæti það orðið að lyktum hin mesta ógn? Að hefndin reynist í
einfeldni skálkaskjól?
Það er næsta auðvelt að sýnast vitur í vellystingum sínum
fjarri átakasvæðum. Þess fremur opnast augu með kynnum af fólki á
vettvangi sem reynt hefur sárin af hryðjuverkum. Og mikið má læra
og þroskast af þeirri reynslu, þegar upplýkst æðruleysið, þar sem
kærleikurinn hefur sigrað hatrið. Í því sambandi eru mér ofarlega í
huga orð aldraðrar konu, sem ég hitti í Víetnam. Hún missti
eiginmann sinn og fimm börn í hryðjuverkum Bandaríkjanna í landi
sínu:
"Ég ákvað að reyna að elska í stað þess að hata. Það var erfitt, en
bjargaði lífi mínu og ég get því borið minningu fjölskyldu minnar
vitni."
Margir leiðtogar heimsins mættu gjarnan setjast á skólabekk
í þeim lífsins skóla.