Fara í efni

VILJA BANNA RÍKINU AÐ ANNAST VÍNSÖLU

Vínbúðin - okt 2015
Vínbúðin - okt 2015

Sem kunnugt er liggur nú fyrir Alþingi frumvarp frá Vilhjálmi Árnasyni , þingmanni Sjálfstæðisflokksins og nokkrum hópi meðflutningsmanna, um að leggja niður Áfengissölu ríkisins, ÁTVR,  og færa þar með verslun með áfengi inn í matvörubúðir.

Einokun ríkisins verði þar með hnekkt en líkindi hins vegar til þess að einokunin hafni í höndum fákeppnisaðilanna á smásölumarkaði. Fregnir herma að þar á bæjum ríki mikil ánægja með framgöngu sinna manna á þingi.

Ekki vekur það furðu mína að Sjálfstæðisflokkurinn standi vörð um verslunarhagsmuni framar þjóðarhag. Undarlegt þykir mér hins vegar að fylgjast með Pírötum og sumum (sem betur fer ekki öllum) þingmönnum Bjartrar framtíðar tala máli  viðskiptafrelsis á kostnað samfélagsins, nú þegar til stendur að banna samfélaginu með lögum að hafa þann hátt á dreifingarmáta áfengis, sem best þjónar lýðheilsu, neytendahagsmunum og hagsmunum ríkissjóðs.

Frjálshyggjukredda úr þessari átt er þeim mun undarlegri þegar haft er í huga að þingmenn þessara flokka tala mikið um að hlusta eftir vilja þjóðarinnar og þeirra grasrótarsamtaka sem láta sig mál varða. Nú er það svo að öll lýðheilsusamtök í landinu,Læknasamtökin,  Félag hjúkrunarfræðinga, Landlæknir, æskulýðssamtök, baráttusamtök gegn vímuefnum, öll þessi samtök og fleiri til, mæla frumvarpinu í mót. Hvers vegna ekki virða óskir þeirra?

1. umræða um málið er komin nokkuð á veg.
Hér er umræðan sem þegar hefur farið fram og hvet ég fólk til að kynna sér hana og fylgjast með því sem eftir á að koma: http://www.althingi.is/altext/145/10/l08133951.sgml

Hér er mín fyrri ræða en ég hef auk þess tekið þátt í umræðunni í andsvörum: http://www.althingi.is/altext/raeda/145/rad20151008T141040.html