STYÐJUM BSRB FÉLÖGIN!

DV - LÓGÓBirtist í DV 16.1015.

Ekki minnist ég þess að BSRB hafi reynt að leggja stein í götu þeirra sem heyja verkfallsbaráttu. Ekki á þann hátt sem forysta Alþýðusambands Íslands gerir nú gagnvart aðildarfélögum BSRB sem þessa stundina standa í erfiðri baráttu. Á fyrsta degi verkfalls SFR og Sjúkraliðafélags Íslands, til að knýja á um sameiginlegar kröfur félagsmanna sinna og Landssambands lögreglumanna, er þeim sendur tónninn!

Óviðeigandi svikabrigsl

Hástöfum kallar forseti ASÍ úr ræðupúlti að BSRB hafi yfirgefið "samræmda launastefnu" verkalýðshreyfingarinnar og hagfræðingur sambandsins segir um aðra opinbera starfsmenn að "þeir séu algerlega á annarri plánetu í launaþróun."   Samræmda launaþróunin, sem þarna er vísað til, lýtur að því að hækka beri  lægstu launataxta umfram þá hæstu en tilvísun í pláneturnar vísar í meint himinhá kjör framhaldsskólakennara.

Ágreiningur fyrr ....

Ekki er BSRB alsaklaust af því að kýta ekki við önnur samtök launafólks og hefur í tímans rás oft verið núningur á milli samtaka. Það þekki ég af eigin raun sem fyrrum formaður BSRB til margra ára. Erfiðastur og sársaukafyllstur var ágreiningur við heildarsamtök háskólamanna, BHM, í tengslum við svokallaða Þjóðarsáttarsamninga árið 1990. Undirrótin að þeim ágreiningi var klásúla sem háskólamenn höfðu sett í sína samninga frá haustinu áður, að þeir skyldu sjálfkrafa fá allar hækkanir sem BSRB félagar kæmu til með að semja um næsta hálfan áratuginn auk ávinnings sem metinn yrði vegna menntunar, peningaforráða og stjórnunarálags. Þetta var með öðrum orðum krafa um sjálfvirkar hækkanir auk þess sem kjaramunur á milli háskólamenntaðra og annarra starfsmanna, þá fyrst og fremst félaga í BSRB, yrði aukinn. Þetta vildi BSRB að sjálfsögðu ekki láta átölulaust.

... og ágreiningur nú

Að eðli til gerist hið sama í samningum ASÍ og SA fyrr á þessu ári þegar sett er í samning ákvæði sem beintengdi uppsagnarákvæði inn á samningsborð annarra félaga. Og þar með er komið að þeim heitingum sem nú eru á lofti. Þegar BSRB nú neitar að horfa upp á aukinn launamun í opinbera kerfinu þá er samtökunum annars staðar frá  brigslað um svik og sagt að allt hið illa sem kunni að leiða af þessu verði skrifað á syndaregistur BSRB.

Mismunandi kjaraumhverfi

Nú vil ég virða það við ASÍ að vilja hækka lægstu taxta umfram aðra. En þá bið ég lesendur að reyna að skilja muninn á kjaraumhverfi almenna markaðarins og hins opinbera. Á almenna markaðnum eru það fyrst og fremst lægstu taxtar sem eru virkir og sums staðar er taxtakerfið með öllu óvirkt- þar ræður launaskriðið eitt. Við þessar aðstæður verður krafa um hækkun launa einvörðungu krafa um hækkun lægstu launa.
Hjá hinu opinbera er taxtakerfi hins vegar við lýði alveg uppúr. Þeir sem kæra sig kollótta um aukna mismunun milli hópa, telja mikinn launamun jafnvel æskilegan, vilja taxtalaunakerfið fyrir bí. Þess vegna eigi að semja um lægstu laun en þar fyrir ofan eigi að gilda einstaklingsbundnir samningar háðir launaskriði eftir aðstæðum á markaði hverju sinni. Með öðrum orðum, þessir aðilar gætu hæglega verið sammála því að fylgja hinni "samræmdu" stefnu forseta ASÍ!
Þau sem hins vegar vilja halda í taxtakerfið, vilja passa upp á það í heild sinni. Þessarar skoðunar er ég fyrir mitt leyti. Æskilegt væri að mínu mati að semja um hver launamunur megi vera innan kerfisns en inn í frumskóginn vil ég ekki halda!

Tilmæli til Alþýðusambands Íslands

Ég beini því til forystu ASÍ að hafa skilning á þessari vídd kjarabaráttunnar. Hún er ekki tilræði við launajöfnuð, hún er beinlínis  í anda launajafnaðar. Ef kallað er eftir samræmdri launastefnu þá verður  að sýna þessum veruleika skilning.
Síðan eru það geimbúarnir sem hagfræðingur ASÍ segir framhaldskólakennara vera og mun hann þar sérstaklega vísa  í gríðarlegar launahækkanir kennara á árinu. Samkvæmt mínum upplýsingum höfðu kennarar búið við meiri stöðnun í kjörum en flestir aðrir hópar hjá hinu opinbera, að ekki sé minnst á ýmsa hópa á almennum markaði sem notið hafa mikils launaskriðs undanfarin misseri.

Þetta eru öll ósköpin!

Þrátt fyrir meintar stjarnfræðilegar hækkanir eru byrjunarlaun framhaldsskólakennara 372 þúsund eða 389 þúsund, háð menntun, en meðaltaxtalaun þeirra munu vera 469 þúsund krónur. Það eru vissulega hærri laun en margir BSRB félagar búa við, byrjunarlaun sjúkraliða eru þannig 261 þúsund  og meðal grunnlaun 300 þúsund kr. en byrjunarlaun lögreglumanns eru 278 þúsund krónur. Þetta eru upphæðirnar sem gagnrýnendur eru að hneykslast yfir!

Hver er ábyrgð hákarlanna?

En væri nú ekki rétt að heiðra þann hluta þjóðfélagsins sem raunverulega heldur sig á í háloftunum, nefnilega skjólstæðinga Samtaka atvinnulífsins, með því að leyfa þeim að vera með í samanburði á kjörum á Íslandi? Það eru einmitt þessir aðilar - hákarlarnir -  sem mest tala um skaðsemi "höfrungahlaups" kjarabaráttunnar sem þeir nefna svo. Vandinn er sá að þeirra sjónarhorn takmarkast við launafólk sem ekki nær hálfri milljón á mánuði.
Hvað á að kalla yfirgang hákarlanna sem taka til sín milljónir á mánuði hverjum? Þeir eru ófáir á Íslandi, meira að segja ótrúlega margir, og sennilega hneykslunargjarnasti hluti samfélagsins. Gæti í þessum hópi legið hin raunverulega ábyrgð á því sem skaðlegt kann að vera í keðjuverkun á íslenskum kjaramarkaði? 

Fréttabréf