Fara í efni

ÓSANNGJARNT GAGNVART ÁRNA PÁLI!

Árni Páll
Árni Páll

Mikil dramatík er nú - sem stundum fyrr - út af drögunum að nýrri stjórnarskrá, sem lágu fyrir Alþingi í lok síðasta kjörtímabils. Í auglýsingu fyrir nýja heimildarmynd um Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, segir hún Árna Pál Árnason, sem tók við formennsku í Samfylkingunni úr hennar hendi í lok síðasta kjörtímabils, bera ábyrgð á að málið náði ekki fram að ganga.

Í auglýsingunni sem klippt var út úr heimildarmyndinni kemur líka fram að þingflokkur VG hafi talið rétt að láta málið liggja. Skilja má að það hafi verið sérlega ámælisvert!

Staðreyndirnar eru þessar:

a) Fáir deila um að drögin að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland eins og þau komu frá Stjórnlagaráði hafi þurft á verulegum lagfæringum og breytingum að halda. Svo hafi verið jafnvel þótt byggja ætti á þessum drögum sem grunni.

 b) Stjórnarráðið gerði þau grundvallarmistök að reyna að keyra stjórnarskrárdrögin öll í gegnum þingið í stað þess að einhenda sér á þá efnisþætti sem þjóðin hafði sýnt afgerandi stuðning við í þjóðaratkvæðagreiðslu, þ. e. lýðræðismálin, rétt almennings að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu og síðan ákvæði varðandi almannaeign á auðlindum. Það vita það allir sem vilja vita að þetta eru þau mál sem brunnið hafa á þjóðinni enda mikilvægi þeirra augljóst.

c) Stjórnarráðið neitaði alltof lengi að horfast  í augu við þá staðreynd að stjórnarandstaðan ætlaði ekki að hleypa málinu í gegn án langvinnrar umræðu. Fyrir stjórnarandstöðuna var þetta auðvelt verk vegna þess að málið hafði komið seint fram og því lítill tími til stefnu. Illu heilli var allt kapp lagt á að fá allan stjórnarskrárpakkann samþykktan einsog hann kom frá Stjórnlagaráði þótt hverjum manni mætti ljóst vera að ýmsir efnisþættir væru umdeildir og aðrir lítt ræddir, innan sem utan þings. Þrátt fyrir þetta var málið sett í forgang og þess freistað að knýja fram atkvæðagreiðslu. Fyrir bragðið var fórnað ýmsum þjóðþrifamálum sem á þessum tíma biðu umræðu og afgreiðslu. Mikilvæg stjórnarmál urðu því ekki að lögum vegna þessara klúðurslegu og vanhugsuðu vinnubragða.  

d) Stjórnarráðið neitaði að horfast í augu við að ekki var fyrir því meirihluti á Alþingi að beita þingskapalögum til að höggva á umræðuna um Stjórnarskrána með því að svipta þingmenn málfrelsi og knýja fram atkvæðagreiðslu. Tillögur í þessa veru voru þó ræddar jafn fráleitt og það kann að hljóma. Sannast sagna veit ég ekki hvernig atkvæðagreiðsla um aðskiljanlega þætti stjórnarskrárdraganna hefði farið, jafnvel þótt meirihluti hefði náðst til að knýja hana fram.    

e) Meintur „glæpur" Árna Páls Árnasonar -  sem Jóhanna Sigurðardóttir velur sem höfuðsökudólg með óljósari skírskotun til annarra  - var að leggja til breytingar sem opnuðu á að unnt yrði tímabundið að breyta stjórnarskránni með hraðvirkari hætti en kveðið var á um. Það vill gleymast að formenn beggja ríkisstjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar stóðu að þessari tillögu.  Hún var samþykkt  og er það ástæða þess að við erum nú yfirleitt að ræða þann möguleika að einhverjar breytingar verði gerðar á þessu kjörtímabili. Ef þessi tillaga hefði ekki náð fram að ganga hefði málið verið algerlega strand. Þetta reyndist því vera skynsamleg tillaga.

Sjálfur studdi ég þessa tillögu og gerði ítarlega grein fyrir þeirri afstöðu minni skriflega og í ræðum á Alþingi, sjá m.a.: http://www.althingi.is/altext/raeda/141/rad20130318T172105.html

Ef eitthvað brást í þessu efni þá var það verkstjórnin,  nokkuð sem forsætisráðherrann fyrrverandi hlýtur að þurfa að horfast í augu við. Því verður ekki tekið þegjandi þegar menn eru bornir jafn fráleitum og ósanngjörnum ásökunum eins og Árni Páll Árnason óneitanlega er í þessu máli.