MJALTAMENN

Mjaltir
Viðskiptahluti Fréttablaðsins, Markaðurinn, birtir viðtal  við Gísla Hauksson, forstjóra fjárfestingafélagsins GAMMA. Hann segir stóralvarlegt hve lítið einkaaðilar hafi fjárfest í innviðum íslensks samfélags á undanförnum árum og getur sér til um "að erlendir aðilar, til dæmis erlendir sjóðir sem eru sérhæfðir í fjárfestingum í innviðum, hafi áhuga á að fjárfesta á Íslandi."

Ekki bara sæstrengur og Sundabraut

Á Íslandi séu nokkur stór verkefni sem myndu falla vel að kostum einkafjármögnunar. Hann nefnir sæstreng sérstaklega og segir að líklegt sé "að það yrðu stórir alþjóðlegir innviðafjárfestar, og hugsanlega íslenskir líka, sem kæmu að því að leggja þann streng, hanna, byggja og mögulega reka".

Hægt að græða vel á Leifsstöð

Forstjóri GAMMA nefnir önnur verkefni, stækkun á Leifsstöð og uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli sem til stendur að ráðast í, og Sundabraut. "Það er verkefni sem hefur verið metið í gegnum tíðina þjóðhagslega arðbært og skorar gríðarlega hátt á öllum kostnaðar- og ábatagreiningum sem gerðar eru á forgangsröðun samgöngumannvirkja en hefur ekki verið talin ástæða að ráðast í."

Vill læra af reynslu annarra!

Hann segist ekki aðeins horfa til samgöngumannvirkja heldur sé hann að fjalla "um innviði yfirhöfuð. Það er verið að tala um veitufyrirtæki og félagslega innviði. Við erum aftar á merinni heldur en fjölmörg önnur ríki sem við berum okkur að jafnaði saman við þegar kemur að slíkum verkefnum. Ég held að við ættum að læra af reynslu annarra þjóða sem víðast hvar hefur verið góð..." segir Gísli Hauksson. Tökum hann á orðinu segi ég!

Skólar, heilbrigðiskerfið, dómskerfið, fangelsin...!!!!

Og Markaðurinn upplýsir okkur nánar um inntak þessara orða Gísla: "En með félagslegum innviðum á hann við skóla og aðrar menntastofnanir, mannvirki og þjónustu tengda heilbrigðisgeiranum, mannvirki og þjónustu tengda dómstólum, fangelsi og íþróttaleikvanga ... GAMMA metur að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í hefðbundnum og félagslegum innviðum sé um 250 milljarðar króna, og að fjárfestingarþörf i innviðum næstu 7-10 árin verði að minnsta kosti 500 milljarðar."

Hagsmunatengt Stjórnarráð?

Það er eins gott að hafa sína menn til hagsmunagæslu í ríkisstjórn! Um það snýst málið: Hagsmuni! Fjárfestar taka nú upp þráðinn þar sem Viðskiptaráðið sleppti honum í kröfugerð sinni fyrir þeirra hönd ekki alls fyrir löngu. Og nú er farið að kortleggja hvar sé að finna ábatasöm verkefni sem gefa af sér auðfenginn arð. Fyrir almenning er þetta ekkert nema slæmt. Fjármögnun nauðsynlegra innviða verður á okkar sameiginlegu herðum og með tilkomu "einkaframkvæmdarmanna" verða til dýrir milliliðir.

Hví ekki að skapa?

Hvers vegna reynir þessi tegund "athafnamanna" ekki að skapa eitthvað nýtt í stað þess að setjast við mjaltir á ríkis- og sveitarsjóðum, eða notendum almannaþjónustu í þeim tilvikum þar sem fjármögnun verður soguð upp úr vösum þeirra í formi "notendagjalda."

Sjálfstæðisflokkurinn: þungur á fóðrum

Svo þykist Sjálfstæðisflokkurinn vera andvígur álögum á almenning! Það eru þeir sjálfstæðismenn alla vega ekki, sem ganga erinda fjárfesta sem vilja maka krókinn á okkar kostnað. Þeir eru greiðendum mikil byrði í orðsins fyllstu merkingu..

Markaðurinn upplýsi lesendur

Forstjóri GAMMA segir að reynslan erlendis af einkaframkvæmd sé góð! Ég bíð þess að Markaðurinn upplýsi lesendur sína um reynsluna erlendis frá af einkaframkvæmd í innviðum samfélagsins einsog þeir eru skilgreindir í viðtalinu sem vísað er til hér að framan.

Réttmætt að hlunnfara almenning?

Það mættu líka fylgja vangaveltur blaðsins um það hvort ritstjórn þyki eðlilegt og réttmætt að afhenda arðinn af ábatasamri starfsemi, einsog Leifsstöð, fjárfestum eins og tillaga/krafa er gerð um.

Fréttabréf