Fara í efni

LEÐIN TIL ÁNAUÐAR

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðisins 17/18.10.16.
Í bók sinni, Leiðin til ánauðar, Der Weg zur Knechtschaft, gerði höfundurinn Friedrich Hayek tilraun til að skilgreina hvers vegna frjálsmarkaðshugsun öndverðrar 19. aldar hefði smám saman hneigst til ríkisafskipta. Þetta væri leiðin til ánauðar og taldi Hayek hana geta leitt til valdstjórnar. Þess má geta að bókin er skrifuð á árum Heimsstyrjaldarinnar síðari, í skugga alræðiskerfa.

En þótt Hayek varaði við beinum  inngripum ríkisins í efnahagsstarfsemina var hann síður en svo andvígur því að ríkið hefði skipulagningarvald á hendi. Hann vildi skipulagningu en að hún miðaði einvörðungu að því að greiða götu markaðsviðskipta og festa þau í sessi.

Hayek og samherjum hans tókst ætlunarverk sitt. Ákall þeirra um endurhvarf til kaldhamraðrar markaðshyggju varð til þess að pólitískar áherslur á Vesturlöndum færðust  í átt til markaðshyggju á áratugunum undir aldarlok.

Og enn svífur þessi hugsun „ný-frjálshyggju"  yfir vötnum.  Það er mótsagnakennt að Evrópusambandið, afkvæmi evrópsks kratisma, er sennilega strangtrúaðast allra í kirkju markaðshyggjunnar. Á þeirri hyggju hvílir höfuðgagnrýni mín á Evrópusambandið: Þ.e. miðstýrðu ríkisboðvaldi í þágu markaðsviðskipta.

Evrópusambandið hefur komið upp dómstólum til skera úr um hvað lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum er heimilt að gera og hvað ekki, hvað samrýmist lögmálum markaðarins og hvað skuli bannað!

Og með sameiginlegri peningastefnu er  stefnt að því að setja refsivönd í hendur Seðlabanka Evrópu. Til marks um það sem koma skal, voru tilmæli í vikunni sem leið, til spænskra stjórnvalda að endurskoða fjárlögin því þau væru ekki í samræmi við leyfilega stefnu!

Á öllum sviðum er unnið að því að efla markaðs-ræði á kostnað lýð-ræðis.

Evrópusambandið er ekki eitt um þessar áherslur. Í vikunni féll dómur hér á landi sem staðfestir eignarrétt á vatnsréttindum. Mörgum þykir þessi dómur sanngjarn og réttmætur. Ég tel hann boða ill tíðindi enda áfangi á framangreindri braut. Hann færir náttúruna og nýtingu hennar fastar en áður undir einkaeignarrétt og ekki nóg með það, geirnegld verður nú inn í þankagang allra hlutaðeigandi, ábatahugsun. Því meira sem verður virkjað þeim mun meira hagnast handhafi eignarréttarins. 

Þessari  arðs- og rentuhugsun er nú verið að koma fyrir í öllum okkar lögum og ef til vill í Stjórnarskrá líka. Þar vilja menn krefja Landsvirkjun um arð og meiri arð, og eflaust mun vatnið fylgja í kjölfarið. Þá verður hagur allra að virkja sem mest því þannig er gullið malað. Fram til þessa höfum við tryggt hagsmuni okkar með eignarhaldi á rafmagns- , vatns- og hitaveitum og notið ábatans í lágu gjaldi fyrir drykkjarvatn og  húshitun. 

Þessi  hugsun er víkjandi enda við komin langt á þeirri vegferð sem Friedrich Hayek vildi beina okkur inn á. Spurning er hvort sú leið liggur ekki einmitt þangað sem hann vildi forða frá: Til frelsisskerðingar og jafnvel ánauðar.

.