HVERNIG GERUM VIÐ ÞAÐ BJARNI?

Bjarni ben - 2015

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, lýsir því yfir opinberlega að tryggja verði að til verkfalla komi ekki aftur hjá hinu opinbera! Tryggja verði ferli sem útiloki verkfallahrinu eins og þá sem nú hefur riðið yfir. Undarlegt að menn semji ekki um slíkt fyrirkomulag hið fyrsta, sbr. viðtal á vísi.is. "Við getum ekki tekið aðra svona lotu," sagði Bjarni og bætti við að það þyrfti að breyta verklaginu og rammanum fyrir vinnumarkaðinn á Íslandi . Þá segir hann það skilyrði að áralöngu samtali um endurbætur á lífeyriskerfinu ljúki."
  http://www.visir.is/bjarni-vill-tryggja-ad-svona-verkfallshrina-geti-ekki-skollid-a-aftur/article/2015151019070

Hvar liggur vandinn?

En hvers vegna fer fólk í verkfall? Er það vegna þess að samningaferlið er svo slæmt? Nei, það er vegna þess að launin eru of lág og launamisréttið í þjóðfélaginu er of mikið. Það er mergurinn málsins. Lausnin er ekki skandinavísk handjárn á launafólk. Lausnin er að bæta launakjörin hjá þeim sem eru í lægri kanti launakerfisins! Þar með er ekki sagt að ekki megi bæta samningsferlið. Það má vissulega gera. En Það er ekki þar sem vandinn liggur. Mér heyrist því miður vera á ferðinni oftrú á skipulag samninga fremur en innihald þeirra og þá með það að markmiði að koma böndum á mannskapinn!

Hótun fjármálaráðherra?

Síðan kann ég illa við hótunartón þegar lífeyrismálin eru annars vegar. Hvað á fjármálaráðherra við þegar hann segir það vera "skilyrði að ...samtali um endurbætur á lífeyriskerfinu ljúki"? Skilyrði fyrir hverju? Ég gæti sagt margar slíkar "hótunarsögur" frá ferli mínum sem formaður BSRB en aldrei létum við kúga okkur til að semja af okkur lífeyrisréttindi sem áunnist hafa á löngum tíma og iðulega með fórnum. Lífeyriskerfið þarf hins vegar allt að endurskoða og þá einkum með hliðsjón af því hvernig einstaklingar virðast farnir að misbeita peningavaldi lífeyrissjóðanna sér og sínum til framdráttar á fjárfestingamarkaði. Þetta er hins vegar allt önnur saga en sú sem fjármálaráðherra vísar til.

Hvað hafast félagarnir að?

Bjarni Benediktsson á að beina sjónum að félögum sínum í Samtökum atvinnulífsins og til fjárfestingabraskara sem nú eru eina ferðina enn að sleppa fram af sér beislinu. Þetta er fólkið sem tekur til sín milljónir á mánuði hverjum.
Þetta er jafnframt fólkið sem er og á að vera viðmiðið í kjarabaráttunni! Og síðan þarf að sjálfsögðu að hafa innbyrðis viðmið hjá hverri stofnun og hverju fyrirtæki. Enginn hærri en þreföld lægstu laun! Það er hógvær - kannski alltof hógvær - krafa. Hvað segir fjármálaráðherrann og hvað segir forstjóri Icelandair, sem jafnframt er formaður SA um þá kröfu?

Snýst um sanngirni

Það má aldrei gleymast að almennt launafólk er ekki aðeins að  biðja um hærri laun heldur líka sanngirni og réttlæti. Ríkisstjórninni bera að gera sitt til að tryggja það réttlæti og þá sanngirni.

Fréttabréf