FESTINA LENTE

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 03/04.10.15.
MBL -- HAUSINN

Ég er ekki heimsins mesti hófsemdarmaður. Fjarri því. Þó finnst mér hófsemi  eftirsóknarverð. Ekki síst fyrir litla þjóð í litlu landi. Vandi Íslendinga er að vera aldrei alveg vissir um hvort þeir eru 330 þúsund eða 330 milljónir. Hallast heldur að hinu síðara og vilja vera bestir í heimi og stærstir.
En gæti verið að það sé gott að búa í litlu fallegu og fámennu landi? Ég er á því. Heyri hins vegar marga tala í gagnstæða átt. Jafnvel að Íslendingar geti ekki orðið þjóð á meðal þjóða fyrr en þeir eru orðnir að minnsta kosti milljón talsins.

Á fundi í Hörpu heyrði ég einu sinni erlenda  hagfræðinga gera upp efnahagshrunið. Einn þeirra sagði að Íslendingar hefðu verið dæmdir til mistaka vegna fámennis. Við gætum varla átt margt fólk með viti, þjóð álíka fjölmenn og sveitarfélagið Coventry í Bretlandi. Ekki man ég hvaðan þessi hagfræðingur kom, en sennilega frá  stað þar sem stutt er á milli húsa og sjónarhornið þröngt. Og í hagfræðinni sinni var hann greinilega vanur að hugsa samkvæmt reikniformúlum og líkindareikningi. Síður í sprengikrafti aðstæðna sem geti framkallað það besta í fólki og gert hinn áhugalausa og sljóa veranda að áhugasömum og vakandi geranda.

Fámenni getur verið gott og jafnvel lúxus. Lítið samfélag, sem þó er sjálfbært,  á að geta hleypt mörgum að, virkjað hlutfallslega fleiri þegna sína en fjölmennt samfélag er fært um að gera. 

En þetta getur verið vandasamt. Á sama hátt og það er vandasamt að passa upp á viðkvæmt land þar sem aðdráttaraflið er víðernið og - viti menn, fámenni. Ég er í hópi þeirra sem fagna auknum straumi ferðamanna til Íslands. Að sýna gestum landið okkar og kynna fyrir þeim menningu okkar, örvar okkur til að vilja fara vel með land og náttúru og leggja rækt við það besta í menningu okkar. Fyrir bragðið verðum við glöggskyggnari á hið góða og eftirsóknarverða sem við búum yfir.

En þá komum við aftur að hófseminni. Við þurfum að fara hægt í sakirnar, líka í ferðamennskunni. Gleyma því ekki hvað þar er sem heillar, aðkomumenn ekkert síður en okkur sem hér búum.

Ég hef oft glaðst yfir því hve ferðaiðnaðurinn er að þroskast, bjóða upp á sífellt fjölbreyttara og vandaðra val. Innanum er að sjálfsögðu fúskið og græðgin og hraðinn. Ég hef samúð með sveitarfélögum sem óar við byggingu sífellt stærri hótela í sinni heimabyggð. Nú loksins þegar núverandi hótel og bændagisting eru að byrja að borga sig er hætt við að risahótelin ryðji hinni smágerðari flóru úr vegi. Varla getur það talist eftirsóknarvert. Ég sendi því stuðningskveðjur til sveitarfélaga og skipuleggjenda sem vilja fara varlega í sakirnar og ekki gerast of ginnkeypt fyrir stórum glanshótelum.

Þótt ég fagni vaxandi ferðamennsku óttast ég að við ætlum okkur um of. Hvernig væri að slökkva á auglýsingaskiltunum um stund og láta land íss og elda sjálft um að auglýsa sig? Við getum orðið eftirsóknarverð og öflug ef við aðeins kunnum fótum okkar forráð, kunnum að flýta okkur hægt - festina lente eins og Rómverjar orðuðu gamalt grískt heilræði. Hófsemi er góð.

Fréttabréf