Fara í efni

ÞYNGRA EN TÁRUM TAKI

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 19/20.09.15.
Það er gott kaffið á Segafredo í Leifsstöð og starfsfólkið hjálplegt og þægilegt. Svipað viðmót og á Kaffitári, fyrirtækinu frá Reykjanesbæ, sem áður þjónustaði kaffiþyrsta í Leifsstöð. Það var áður en þjónustustarfsemin var öll stokkuð upp, að sögn af erlendu ráðgjafafyrirtæki, sem hafði fengið það verkefni að gera Leifsstöð nútímalega íslenska flugstöð, með áherslu á íslenska. Leifsstöð átti að verða íslenskari en nokkru sinni.

Ef ég man rétt þá voru þessi boð látin út ganga þegar sefa þurfti okkur sem gagnrýndum að Kaffitári og fleiri íslenskum fyrirtækjum væri bolað út úr Leifsstöð. Í staðinn komu Joe and the juice og öll hin fyrirtækin sem maður sér á flugvöllum um heim  allan. Hann virðist vera furðu lítill og lokaður þessi heimur, flughafnaheimurinn; einhæfur og  staðlaður.

Eflaust finnst mörgum þetta vera í góðu lagi og jafnvel hallærislegt að bera hag íslenskra fyrirtækja fyrir brjósti. Hvað þá að vilja gera íslenskum fyrirtækjum hærra undir höfði en öðrum á okkar heimavelli. Mér finnst það ekki hallærislegt, heldur sjálfsagt að í höfuð flughöfn Íslands séu heimamenn hafðir í fyrirrúmi. Ekki síst ef þeir hafa staðið sig sérlega vel en annað verður ekki sagt um Kaffitár.

Í tengslum við svokallaða Þjóðarsátt fyrir aldarfjórðungi var hrint af strokkunum átaki um að kaupa íslenskt. Markmiðið var að efla íslenska framleiðslu og þar með íslenskt atvinnulíf. Atvinnuleysi var byrjað að banka uppá og samfélaginu þótti það bera ábyrgð sem samfélag. Auðvitað voru þau til þá sem sögðu að bannað væri að fara út í búð nema með bundið fyrir augu, að öðru leyti en því að kíkja á verðmiðann. Ekkert samfélagsrugl takk, markaðurinn ráði!

Ég held að þau sem vilja láta hugsa á samfélagsvísu séu ennþá til og sennilega  fleiri en margan grunar.  Og getur ekki verið að þegar allt kemur til alls vilji margir á markaðstorginu, hvar sem það er að finna, einmitt fá að njóta fjölbreytilegs vals; að fjölbreytileikinn sé með öðrum orðum markaðsvænn.

En þetta gerist ekki af sjálfu sér. Jafnvel þótt fyrirtæki bjóði  upp á góða vöru og þjónustu á samkeppnishæfu verðlagi  eru því allar bjargir bannaðar ef því er meinaður eða torveldaður aðgangur að markaðstorginu. Og þegar plássið er takmarkað skiptir máli á hvaða forsendum er úthlutað.

Segir ekki skynsemin að gott sé fyrir íslenskt samfélag að efla íslenskt atvinnulíf? Og er það ekki beinlínis góður bisniss fyrir ferðamannasamfélag að rækta sérkenni sín auk þess sem augljóst er að fyrir bragðið verður heimurinn líka skemmtilegri! Fjölbreyttur heimur er eftirsóknarverðari  en einhæfur heimur.

Ég sannfærðist um það á sínum tíma að einmitt þetta vekti fyrir stjórnendum Leifsstöðvar, að sýna sérkenni Íslands og greiða götu íslenskra frumkvöðla - líka þeirra sem vinna ofan i okkur kaffið og meðlætið. Niðurstaðan varð ekki sú.

Brottrekstur Kaffitárs, Epals, sjálfs merkisbera íslenskrar hönnunar(!) og fleiri íslenskra fyrirtækja  úr Leifsstöð er táknrænn um vegferðina þangað sem heimurinn stefnir hraðbyri: Risakeðjur og einhæfni.  Eftirsóknarvert?   Nei, þess vegna fyrirsögnin.