Fara í efni

ÓLA BIRNI SVARAÐ

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í Morgunblaðinu 04.08.15.
Óli Björn Kárason skrifar mikla grein í Mogunblaðið um það sem hann kallar Ögmundar-möntru, en það á að vera skírskotun til þeirrar kenningar þessa varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins og um skeið aðstoðarmanns heilbrigðisráðherra, að skrif mín um heilbrigðismál að undanförnu og varnarðarorð gegn einkavæðingu á því sviði, séu fyrst og fremst til að ná tvíþættu markmiði, sverta Sjálfstæðisflokkinn og formann hans sérstaklega, en einnig beri að skoða umfjöllun mína í ljósi innanflokksátaka í Vinstrihreyfingunni grænu framboði!

Með eigin orðum

Best er að láta Óla Björn segja þetta sjálfan: "Ég er þess fullviss að Ögmundur Jónasson trúir flestu sem hann skrifar en varla öllu. Stundum skrifar hann til „heimabrúks" fyrir félaga sína og skoðanasystkini. Skrif af því tagi eru eðlileg og oft nauðsynleg í innanflokksátökum og deilum ... Ögmundur ákvað að fara niður í svað aðdróttana og samsæriskenninga. Með ódrengilegum hætti dylgjar hann um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins. Úr verður risastórt samsæri. Í boði ríkisstjórnarinnar gæti „draumur frjálshyggjunnar um alvöru markað á sviði sjúkdóma og lækninga verið að rætast" ... Sérstaklega er Ögmundi illa við fyrirtækjasamstæðu sem hann tekur fram að sé undir stjórn fyrrverandi bæjarstjóra í Garðabæ (heimabær Bjarna Benediktssonar og eitt helsta vígi sjálfstæðismanna) og formanns Fjármálaeftirlitsins en vanhelgi hans er að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli hafa skipað viðkomandi í stöðuna ...Ögmundur þekkir formann Sjálfstæðisflokksins betur en svo að hann trúi bulli sínu og rógburði."


Heilbrigðismál eru mál málanna

Við fyrstu sýn fagnaði ég því að sjá grein Óla Björns með ýmsum tölulegum upplýsingum. Ástæðan var sú að ég hef lengi kallað eftir málefnalegri umræðu um stefnuna í heilbrigðismálum  - og  þess vegna átakaumræðu, ég er ekki einn af þeim sem er andvígur átakaumræðu um átakamál. Verstur er sofandaháttur spjallstjórnmálanna.
En lítum á hvað sjálfskipaður talsmaður Sjálfstæðisflokksins hefur fram að færa. Fyrst nokkur orð um meintar hvatir mínar.
Gamall málsháttur segir að margur haldi mig sig. Þegar staðhæft er að skrif mín séu þáttur í pólitískum innri átökum í mínum pólitíska ranni læt ég nægja að minna á þennan málshátt. Allan minn feril á vettvangi verkalýðsbaráttu og stjórnmála hef ég litið á heilbrigðisþjónustu sem okkar mikilvægasta málefni. Hvorki meira né minna.

Fjárfestir í Fjármálaeftirliti

Óli Björn Kárason segir að sérstaklega sé mér „illa við" nýja fyrirtækjasamsteypu undir stjórn fyrrverandi bæjarstjóra í „heimabæ Bjarna Benediktssonar", einu „helsta vígi sjálfstæðismanna" svo og formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsisns. Það er rétt hjá Óla Birni að ég hef harðlega gagnrýnt áform Ásdísar Höllu Bragadóttur, fyrrverandi bæjarstjóra í Garðabæ og forstjóra BYKO að koma á laggirnar einkarekinni heilbrigðisþjónustu með arðsemi að leiðarljósi. Þá finnst mér vera gagnrýnivert að hagsmunatengdur einstaklingur í fyrirtækjarekstri - og læt ég liggja á milli hluta að viðkomandi er „fjárfestir á velferðarsviði", -   skuli vera settur í forsvar fyrir Fjármálaeftirlitið. Þá hef ég gagnrýnt lífeyrissjóðina fyrir að stefna hraðbyri inn í einkarekna heilbrigðisþjónustu og hef ég hvatt til umræðu í baklandi þeirra.

Aldrei lagt einkapraxís og arðsemisrekstur að jöfnu!

Margoft hefur komið fram af minni hálfu að einkapraxís í takmörkuðum mæli í heilbrigðisþjónustunni sé ekki gagnrýniverður. Öllu máli skipti hvar landamærin eru dregin. En þegar hér rís sjúkrahúsrekstur í þágu fjárfesta - hvort sem það eru lífeyrissjóðir sem heimta arð úr rekstrinum eða aðrir - þá tel ég okkur komin á ranga braut. Margt bendir hins vegar til þess að nákvæmlega þetta sé að gerst hér á landi - enda yfirlýstur pólitískur ásetningur.


Þora ekki að kannast við óvinsæla einkavæðingu

Stjórnmálamenn verða að þora að kannast við eigin skoðanir. Vandinn er sá fyrir Sjálfstæðisflokkinn að einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar er óvinsæl með þjóðinni. Þess vegna er farið með löndum þegar þau mál eru rædd.  Það er helst að fyrrum sérfræðingur Viðskiptaráðsins og núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Sigríður Á Andersen þori að tala tæpitungulaust um „heilbrigðismarkaðinn".
Að vissu marki hefur Óli Björn Kárason gert það einnig og á hann vissulega lof skilið fyrir að taka umræðuna.

Arðsemisrekstur dýrari

Þegar skoðaðar eru tvær nýlegar greinar þingmannsins á síðum Morgunblaðsins, frá 22. júlí og 29. júlí má ráða eftirfarandi.
Í fyrsta lagi telur Óli Björn að einkarekið heilbrigðiskerfi sé ódýrara en ríkisrekið. Þennan þátt þarf að taka til gaumgæfilegrar skoðunar í ljósi reynslunnar. Í Svíþjóð er nú verið að hverfa frá tilraunum til einkareksturs á þessu sviði eftir að í ljós hafa komið ókostir á borð við þá að þjónustan gjaldi fyrir að arðsemi sé sett í öndvegi og sænska Ríkisendurskoðunin bendir á að töluverð brögð séu á því fjárfestarnir skjóti arðgreiðslum sínum í erlend skattskjól. Við þetta blikka varnaðarljós í mínum huga hvað varðar hvatirnar sem búa að baki.


Mismunandi verðlag í boði

Í örðu lagi talar Óli Björn fyrir því að fjármagn fylgi sjúklingi. Þetta er hugsun sem vel er þekkt úr frjálshyggjufræðum, hljómar vel í fyrstu en reynslan hefur víðast hvar orðið sú að einkaaðilar hafa sótt inn á svæði sem „gefa vel af sér" en síður þangað sem tekjur eru minni og fólk síður í stakk búið að greiða það sem smurt er ofan á ríkisframlagið. Við skulum ekki gleyma því að samhliða því að ríkið eigi að borga grunninn vilja markaðssinnar að lögmál markaðarins fái einnig að njóta sín. Þess vegna hefur stundum verið tekist á um það á Alþingi hvort ekki skuli leyfðar auglýsingar um verðlag fyrir læknisþjónustu. Óli Björn verður að hafa manndóm í sér að skýra hugsjónir félaga sinna heildstætt en sáldra ekki í okkur völdum en villandi molum.

Skorið niður um fjórðung!

Í þriðja lagi má ráða af framsetningu Óla Björns að framgöngu stjórnmálamanna megi mæla í framlagi til málefnisins. Hann birtir þannig graf um framlag ríkisins til heilbrigðismála og sýnir að útgjöldin fari nú hækkandi. Dýrasta heilbrigðskerfi heimsins, hið bandaríska, þenst út án afláts en er þó einkarekið að uppistöðu til. Horfa þarf til þess hvernig fjármagnið nýtist almenningi og þá hvort það er á grundvelli mismununar eða jafnaðar.
Sigri hrósandi bendir Óli Björn á að niðurskurðurinn á síðasta kjörtímabili hafi verið meiri en á öðrum tímum! Veit þingmaðurinn ekki að þegar tekjustofnar ríkissjóðs hrundu samfara bankahruninu var skorið niður í rekstrarúrgjöldum ríkisins um tæpan fjórðung?
Við höfum sum hver sagt að niðurskurðurinn til heilbrigðismála hafi verið of mikill en alla tíð höfum við gengist við honum. Að sjálfsögðu!

Góði dátinn

En aftur að inntakinu í grein Óla Björns Kárasonar sem segist hafa „skilning" á því að menn ræði um einstök málefni stjórnmálanna til að koma sinni persónulegu ár fyrir borð innanflokks. Það sé fullkomlega „eðlilegt".
Þessu er ég ósammála. En Óli Björn Kárason talar hér fyrir sjálfan sig og eflaust á hann einhverja pólitíska samferðarmenn sem kunna honum þakkir fyrir að vilja vera góður liðsmaður í baráttunni við hin illu öfl. Hvort það gerir málefninu gott er svo önnur saga.