GEFIÐ FYRIR MARKIÐ Birtist í Morgunblaðinu 27.07.15.

Ríkisstjórnin þvertekur fyrir að hún vinni að einkavæðingu
heilbrigðisþjónustunnar. Það gerir hún hins vegar augljóslega með
verkum sínum. Hún skapar aðstæðurnar. Það er síðan annarra að nýta
tækifærin, skora þegar gefið er fyrir markið.
"Tækifæri fyrir hjúkrunarfræðinga", er heiti á nýlegri
andheitri Fréttablaðsgrein Sigríðar Á Andersen, þingmanns
Sjálfstæðisflokksins og fyrrum starfmanns Viðskiptaráðs Íslands,
þeirra samtaka sem ötulegast hafa barist fyrir einkavæðingu innan
velferðarþjónustunnar sem annars staðar.
Sigríður segir að í uppsögnum hjúkrunarfræðinga felist ómæld
tækifæri fyrir þá. Fram til þessa hafi "ekki verið um auðugan
garð að gresja hér á landi fyrir þá sem hafi hug á að vinna við
hjúkrun. Yfir þeim markaði gín ríkið nánast eitt."
Einkarekið sjúkrahús
Leitið og þér munuð finna, er inntakið í grein Sigríðar Á. Andersen sem telur að nú sé einmitt tækifæri til breytinga. Það eru orð að sönnu. Á undanförnum árum hefur verið þrengt að heilbrigðisþjónustunni og fólk streymir þaðan út, óánægt með kjör sín. Sem svar við ákalli Sigríðar er mætt á síður Morgunblaðsins önnur Sigríður. Það er Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri nýrrar lækninga- og heilsumiðstöðvar í Ármúla í Reykjavík sem ber nafnið Klíníkin. Framkvæmdastjórinn býður landsmenn velkomna í þessa einkareknu miðstöð sem greinilega er vísir að einkareknu sjúkrahúsi. Okkur er sagt að þarna verði fjórar skurðstofur búnar fullkomnustu tækjum "og eru aðstæður þær bestu sem völ er á í dag. Auk skurðlækna munu starfa reyndir svæfingalæknar og skurðhjúkrunarfræðingar á Klíníkinni." Framkvæmdastjórinn segir að þetta sé svipað fyrirkomulag og í Orkuhúsinu, Domus Medica, Glæsibæ, Mjódd og víðar. Þannig er gefið til kynna að ekkert sé í reynd að breytast.
Vilja á markað
Í mínum huga er engu að síður um grundvallarbreytingu að ræða
enda er titill blaðagreinar Sigríðar Snæbjörnsdóttur, Tímamót í
heilbrigðisþjónustu. Stofnun fyrirtækisins sem hún er í
forsvari fyrir er þó aðeins hluti af stærri mynd. Það er meira en
táknrænt að í sama húsi og Klíníkin, er staðsett heimaþjónusta
Sinnum, hjúkrunarþjónusta Karitas og sjúkrahótel. Með þessu bjóðast
margháttuð "samlegðaráhrif," segir framkvæmdastjórinn í
grein sinni.
Við höfum á undanförnum mánuðum haft fréttir af margháttuðum
braskáformum fjárfesta á sviði heilbrigðisþjónustu. Þar hefur
gengið ötullega fram Ásdís Halla Bragadóttir, fyrrum bæjarstjóri í
Garðabæ og síðar forstjóri BYKO. Þarna koma líka við sögu
lífeyrissjóðir okkar landsmanna.
Það sem er að breytast er að í stað þess að læknar reki
einkapraxís, hugsanlega saman í húsi, eru fjárfestar að koma inn í
þessa starfsemi til þess að hafa af henni hagnað og
"samlegðaráhrifin" sem um er rætt eru smám saman að verða
samlegðaráhrif sjúkrahúss. Þannig upplýsir Sigríður Snæbjörnsdóttir
okkur um að Klíníkin sé í eigu lækna, hjúkrunarfræðings en 20% séu
í eigu fjárfesta.
Lífeyrissjóðir þrýsta á einkavæðingu
Eftir því sem hlutur fjárfestanna eykst, þeim mun meira mun fara
fyrir kröfum um arð út úr starfseminni. Það liggur í hlutarins
eðli.
Lífeyrissjóðirnir eru komnir á fulla ferð í þessari vegferð án þess
að aðstandendur þeirra hafi tekið almenna umræðu um þessa stefnu.
Aðgangsharðast í þessu ati hefur verið Eva Consortium ehf, félag
stofnað af stjórnarformanninum, fyrrnefndri Ásdísi Höllu, og Ástu
Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra félagsins. Formaður
Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, gerði
Ástu nýlega að stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins en við það
tækifæri kynnti Ríkisútvarpið hana sem "fjárfesti á
velferðarsviði".
Þessi fjárfestir á velferðarsviði á með öðrum orðum að hafa
eftirlit með því hvað telst löglegt og siðlegt á
fjármálamarkaði. Á vefsíðu Evu Consortium ehf segir að í júní 2013
hafi fjárfestingafélagið Kjölfesta keypt 30% eignarhlut í EVU.
"Meðal eigenda Kjölfestu eru 14 lífeyrissjóðir og það er í
takti við fjárfestingarstefnu sjóðsins að fjárfesta í leiðandi
félagi á velferðarsviði. EVA með starfsemi í gegnum Sinnum hefur
vaxið stöðugt frá árinu 2008 en aðkoma Kjölfestu að félaginu felur
í sér mikil tækifæri til enn hraðari uppbyggingar því auk kaupa á
30% hlut í félaginu felur samkomulagið við Kjölfestu í sér
áskriftarloforð um viðbótarhlutafé inn í ný verkefni á næstu
misserum. EVA hefur mjög metnaðarfullar hugmyndir um frekari
uppbyggingu á þjónustu fyrir aldraða, sjúka og fatlaða
..."
Tækifærið og tímamótin
Nú gæti sem sagt draumur frjálshyggjunnar um alvöru markað á sviði sjúkdóma og lækninga verið að rætast. Ríkisstjórnin býður upp á tímamótin og Eva Consortium og Klíníkin upp á tækifærin! Á heimasíðu Evu má greina ánægju og gleði yfir þessari þróun og heilbrigðisstarfsmenn hvattir til að nýta tækifærin eins og Sigríður Á. Andersen og fleiri skoðanasystkin hennar hafa hvatt til : "EVA hefur mjög metnaðarfullar hugmyndir um frekari uppbyggingu á þjónustu fyrir aldraða, sjúka og fatlaða auk þess sem félagið vill stuðla að nánara samstarfi ólíkra rekstraraðila á velferðarmarkaði. Eru áhugasamir aðilar um starfsemi á heilbrigðis- eða félagssviði hvattir til að hafa samband..."
Ætlast til að ríkið borgi brúsann
En þá er komið að ríkisbuddunni. Því öll þessi rausn er í boði
skattgreiðenda. Það erum við sem eigum að borga brúsann. Læknarnir
fá greitt frá Sjúkratryggingum Íslands og öðrum aðilum "eftir
því sem við á." Ég hygg að framtíðarlandið í huga þeirra sem
að þessum breytingum standa sé sú hugsun að ríkið greiði grunninn
en síðan verði opnað á viðbótargjald á grundvelli framboðs og
eftirspurnar. Þar með væri komið kerfi sem raunverulega mismunaði
því skattgreiðandinn sæi um grunninn en efnafólk gæti síðan keypt
sig fram fyrir og hugsanlega einnig notið betri þjónustu og
aðstöðu.
Ekki á okkar kostnað!
Sjálfum finnst mér ekkert við það að athuga að læknar og
hjúkrunarfæðingar reki einkavædda þjónustu. Það er algerlega þeirra
mál svo lengi sem þeir vilja ekki fá peninga frá mér og öðrum
skattgreiðendum! Þá viljum við hafa hönd í bagga. Mér finnst ekki
koma til greina að ein einasta króna fari til þess að búa til kerfi
mismununar eins og einkavæddur sjúkrahúsrekstur á endanum
gerir.
Verkefnið núna ætti að vera að treysta almannarekna þjónustu og
vinda ofan af þeim notendagjöldum sem þar er að finna og eru þegar
farin að valda fólki verulegum vandræðum. Á slíkt er ekki
bætandi.