TRYGGJA ÞARF FRAMBOÐIÐ EN LÍKA RÉTTLÆTIÐ

Kjaramál BHM

Ríkisstjórnin setti sem kunnugt er lög á verkföll BHM og hjúkrunarfræðinga. Í kjölfarið fréttum við af tíðum uppsögnum.
Þær eiga ekki að koma á óvart. Hvorki sjúkrahúsin né aðra starfsemi sem verkfallsfólkið starfar við er hægt að starfrækja án þess. Og án starfseminnar getur samfélagið ekki verið.

Fyrst svo er þá taka við önnur lögmál: Lögmál framboðs og eftirspurnar. Þau eru mörgum hægri manninum hugleikin.

Eru stjórnvöld ef til vill að sækjast eftir því að virkja lögmál framboðs og eftirspurnar á vinnustöðum?

Það væri illa ráðið fyrir alla: Stjórnvöldin og reksturinn, starfsandann og starfsfólkið.

Hvað er þá til ráða?

Það eitt er til ráða að semja við starfsfólkið í þeim anda sem leggja má í nefnadarálit stjórnarmeirihluta við samþykkt bannfrumvarpsins. Þar voru opnaðar dyr.

Eða þá, og ef ekki vill betur, að gerðardómurinn úrskurði í þessum anda. Tvennt þarf hann að hafa inni í sinni mynd, tilkostnaðinn við verkfallið og að framboð á vinnandi hönd og huga verði nægjanlegt!

Þetta ætti varla að vera ofar skilningi  hægri sinnaða stjórnmálamanna  sem segjast trúa á lögmálin um framboð og eftirspurn.

Best væri að ganga frá kjarapakka sjúkrahúsanna og annarra velferðarvinnustaða í einu. Semja samhliða við lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, geislafræðinga og lífeindafræðinga. Allt eru þetta hlekkir í sömu keðjunni.

Þegar stofnanasamningar voru teknir upp undir aldarlokin beitti ég mér fyrir því sem formaður BSRB að allir starfsmenn kæmu sameiginlega að gerð þeirra. Ekki reyndist áhugi fyrir slíku þá.

En ástæða er til að rifja hugmyndina upp nú. Því sá er einn þátturinn sem aldrei má gleymast í kjaraumræðunni. Og það er jöfnuðurinn. Ef innbyrðis réttlæti ríkir ekki á vinnustað þá verður engin lausn til frambúðar.     

Fréttabréf