HRÚTAR: VERÐSKULDUÐ VERÐLAUN Í CANNES

Hrútar - kvikmynd

Ég veit varla hvort voru fallegri fegurðardísirnar eða karlpeningurinn sem á gat að líta í kvikmyndinni sem ég sá í gær.

Alla vega hef ég sjaldan séð fallegri ær og gimbur og þá voru hrútarnir ekki síður föngulegir og flottir.

Kvikmyndin er að sjálfsögðu Hrútar Gríms Hákonarsonar, tileinkuð Unni Stefánsdóttur, móður hans. Það var fallegt.

Heiti myndarinnar vísar til verðlaunahrúta í eigu tveggja bræðra sem bjuggu á tveimur samliggjandi bæjum á skiptri jörð. Þeir höfðu ekki talast við í fjörutíu ár. Titillinn gæti þess vegna átt við um þá.

Myndin er mikið íslensk og þótti mér hún um margt minna á frábæra mynd Benedikts Erlingssonar, Hross í oss. Gráglettinn húmor út í gegn. En undir kraumaði mannlífið. Niðurskurður vegna riðu er dramatísk aðgerð. Það fór ekki framhjá okkur áhorfendum.

Myndin er afburðavel leikin og fara þar fremst í flokki bræðurnir tveir sem þeir Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson leika. Leikurinn er nánast fullkominn. Þeim tekst að gera bræðurna  algerlega trúverðuga - óleikna.

Þetta á einnig við um aðrar persónur, bændafólkið í sveitinni, dýralækninn, hjálparsveitarmenn. Alla. Og þarna var Fúsi mættur og alls enginn Fúsi enda stóð það ekki til í þessari mynd.

Kvikmyndatakan og tæknivinna öll er fyrsta flokks!

Myndin er falleg og endar í eins konar ljóðrænu. Ég veit ekki hvernig á að koma orðum að því en finnst þetta hljóma rétt. Myndin endaði í myndrænu  ljóði.

Verðlaunin í Cannes þykja mér verðskulduð.

Til hamingju með vel unnið verk!

Fréttabréf