Fara í efni

FRAMFARIR

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 06.06.15.
Fyrir fáeinum dögum ók ég um Grímsnesið með drasl á kerru sem ætlað var til förgunar. Eitthvað hafði óhönduglega tekist til við fráganginn þannig að heljarmikill plastpoki fauk af kerrunni  einhvers staðar í grennd við gjaldheimtuskúrinn í Kerinu. Ekki uppgötvaði ég þetta þó fyrr en á leiðarenda. Konu minni var ekki skemmt og næst þegar ekið var um þessar slóðir var rýnt mjög eftir plastpokanum sem var auðkennanlegur. Og viti menn. Þarna var hann, bíllinn stoppaður, náð í pokann og honum í kjölfarið komið í förgun. Málið hafði fengið farsælar lyktir.

Þessi litla saga varð mér að umhugsunarefni um þá miklu hugarfarsbyltingu sem orðið hefur í tengslum við umgengni okkar um landið. Vissulega er enn að sjá rusl með vegum, ekki síst plastpoka og riflrildi úr plasti. En mín tilfinning er að þessu rusli hafi ekki verið hent af ásetningi heldur sé þar fremur gáleysi um að kenna.

Sú var tíðin að hin almenna regla var að pulsubréfinu var hent út um bílgluggann og ýmsar aðrar umbúðir fóru þá leið að ekki sé minnst á öskubakkana sem purkunarlaust voru losaðir í lyngið með veginum. Þetta gerir varla nokkur maður í dag. Og hvað reykingarnar áhrærir þá var sú tíðin að reykingafólk var látið komast upp með að reykmenga loftið á vinnustöðum og á fundum. Og  alla leiðina Reykjavík Akureyri var reykt án afláts í hastri rútinni sem daglangt hossaðist á rykmettuðum malarveginum og hirti þá enginn um að spyrja hvort einhverjir bílveikir vildu gera athugasemd. Í flugvélum var sígarettupakkinn opnaður skömmu eftir flugtak. Gott að fá sér smók með kaffi eða bjór. Alls staðar var rétturinn umhverfis-spellvirkjans.
 
Þetta var í þá daga.

Síðan er mikið vatn runnið til sjávar. Vitundarvakning hefur orðið um margt sem er okkur skaðlegt í umhverfinu og þá ekki síður hvað umhverfinu sjálfu er skaðlegt. Sjálfur vil ég helst að fylgt sé þeirri grundvallarhugsun að allt eigi að vera einstaklingnum leyfilegt sem ekki skaðar aðra. En viðhorfin til þess hvað telst skaðlegt taka breytingum og nú er almennt litið svo á að sóðaskapur í umhverfinu sé skaðlegt bæði manneskunni og náttúrunni.

Þarna hafa orðið ótvíræðar breytingar til góðs sem vert er að gefa gaum að og fagna. Konan mín er að vísu þannig gerð að hún hefði aldrei gúterað plastpoka á flugi af hennar völdum en nú er hún ekki á báti með fáum  um þetta viðhorf heldur samfélaginu öllu.

Í þessari viðhorfsbreytingu liggja framfarir sem við þurfum að stuðla enn frekar að. Við gætum byrjað smátt. Stöðvað  bílinn endrum og eins til að tína upp drasl sem tekið hefur flugið úr mannbyggð.